Lax með sítrónu/hvítlauks/spínat-risottó

Gómsætur lax með risottó... nóg til að allmörg hjörtu taki …
Gómsætur lax með risottó... nóg til að allmörg hjörtu taki aukaslag af eftirvæntingu. mbl.is/Sigurveig Káradóttir

Sigurveig Káradóttir heldur úti samnefndu matarbloggi sem iðar af lífi og skemmtilegum uppskriftum sem eru hver annarri girnilegri. Hér gefur að líta uppskrift frá Sigurveigu að laxi með því sem hún kallar sítrónu/hvítlausk/spínat-pestói.

Sigurveig segir að þetta hafi allt hafist á risottóinu og laxamarineringunni. Í heildina hafi eldamennskan tekið 25 mínútur sem sé merkilega vel gert.

Lax með sítrónu/hvítlauks/spínat-risottó

 • Lax eftir þörfum – í uppskriftina voru notuð 3 væn stykki.
 • safi úr 1 lime
 • ólífuolía
 • salt, hvítur pipar og malað chilli
 • 50 g smjör
 • 5 vænir hvítlauksgeirar
 • 300 gr. aborio-grjón
 • 2 lítrar af kjúklingasoði
 • 200-300 gr. spínat
 • börkur af 2 sítrónum
 • safi úr 1 sítrónu
 • 100 gr. parmesan – gróft rifinn

Aðferð:
 1. Safa úr 1 lime, vænni slettu af góðri ólífuolíu, salti, hvítum pipar og möluðu chilli blandað saman og sett í eldfast mót. Laxinn settur í mótið – fyrst á magann til að draga í sig marineringuna og svo snúið við og roðið látið snúa niður.
 2. Setjið væna smjörklípu á hvern bita og svo inn í ofn í 200-220 gráður.
 3. Saxið niður fimm væn hvítlauksrif og steikið á pönnu upp úr ólífuolíu. Saltið með sjávarsalti.
 4. Þegar hvítlaukurinn er farinn að taka á sig góðan lit skal setja 50 gr. af smjöri út á pönnuna.
 5. Því næst hrísgrjónin. Leyfið þeim að drekka í sig vökvann.
 6. Kjúklingasoðið er hitað og sett út á hrísgrjónin jafnt og þétt eftir þörfum. Alls fóru um 1,5 lítrar út á risottóið en gott er að hafa meira en minna tilbúið á kantinum.
 7. Út á risottóið var sítrónubörkurinn settur.
 8. Því næst spínatið. Passið að hræra reglulega í. Hægt er að sjá ítarlegar myndskýringar inni á sigurveig.com.
 9. Sítrónusafinn var settur saman við. Upphaflega stóð til að nota safa úr tveimur sítrónum en sítrónurnar reyndust svo safamiklar að ein var látin duga.
 10. Munið að salta og smakka til.
 11. Á lokametrunum eru 100 gr. af parmesan rifin yfir.
 12. Berið fram með laxinum og njótið!
mbl.is