Dökkar súkkulaði- og piparmintusmákökur

mbl.is/Eldhúsperlur Helenu

Þessar dásamlegu smákökur ættu engan að svíkja enda er búið að nostra við þær með öllum ráðum. Dökkt Pipp-súkkulaði var sett í uppskriftina og var útkoman hreint stórkostleg. 

Það er engin önnur en Helena hjá samnefndum Eldhúsperlum sem galdraði fram þetta góðgæti en hún segist hafa fengið upphaflegu uppskriftina frá Jessie Seinfeld en breytt henni örlítið. 

„Jessie setur piparmyntu-extract (sem er bara sama og piparmyntudropar) í sína uppskrift. Ég sleppti þeim því mér fannst koma nógu mikið myntubragð af Pipp-súkkulaðinu. Eins finnst mér piparmyntu-extract einstaklega vandmeðfarið hráefni í bakstri því það þarf ótrúlega lítið að sullast aukalega út í deigið til að kökurnar bragðist eins og tannkrem. Ekki svo gott kannski. En ef þið eruð mikið fyrir afgerandi myntubragð mætti eflaust alveg bæta eins og 1/4 tsk. af piparmyntudropum til viðbótar í deigið.

Ég mæli að sjálfsögðu með þessum kökum. Þær hafa alla vega fest sig í sessi á mínum smákökulista! Uppskriftin er talsvert stór, en úr henni ættu að fást alveg um 40 vænar kökur. Hana mætti auðveldlega helminga. Deigið geymist vel í ísskáp í 2-3 daga. Eins má pakka því vel inn í plast og frysta það og baka jafnóðum. Þannig eru kökurnar líka langbestar, nýbakaðar.“

Eldhúsperlur Helenu

Dökkar súkkulaði- og piparmyntusmákökur

  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. matarsódi
  • 1/2 tsk. salt
  • 120 gr. smjör, brætt
  • 2,5 dl kakó (ég mæli með Konsúm-kakóinu frá Nóa Siríus)
  • 3 dl púðursykur
  • 2 dl sykur
  • 4 egg
  • 1/4 tsk. piparmyntudropar (má sleppa og nota í staðinn piparmyntusúkkulaði)
  • 200 gr. dökkt piparmyntusúkkulaði, t.d. Pipp
  • Flórsykur (til að velta kökunum upp úr fyrir bakstur)

Aðferð:

  1. Hrærið saman í skál, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti og setjið til hliðar.
  2. Blandið saman kakói, púðursykri og sykri.
  3. Bræðið smjörið og hellið saman við sykurblönduna, pískið vel saman.
  4. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli.
  5. Brjótið súkkulaðið út í deigið og hrærið aðeins.
  6. Setjið hveitiblönduna saman við og blandið vel saman (ég kýs að hafa súkkulaðibitana stóra í deiginu, ef þið viljið getið þið líka saxað þá fyrst gróft og sett svo út í. Ég læt hrærivélina um að brjóta þá saman við deigið, þá verða sumir stórir og aðrir minni).
  7. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskáp í a.m.k. eina klukkustund fyrir bakstur. Fínt að geyma það yfir nótt.
  8. Hitið ofn í 180 gráður. Takið deigið með matskeið, rúllið í kúlu milli lófanna og veltið ríkulega upp úr flórsykri. Athugið að deigið er frekar klístrað og best að meðhöndla það beint úr ísskáp.
  9. Leggið á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í 10 mínútur. Kökurnar eiga að vera svolítið seigar í miðjunni.
  10. Leyfið að kólna aðeins á plötunni áður en þið takið þær af. 
mbl.is/Eldhúsperlur Helenu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert