Besta kalkúnafyllingin

mbl.is/María Gomez

Kalkúnafylling er gríðarlega stór og mikilvægur hluti af veislumáltíð og því dugar ekkert hálfkák. Hér erum við með uppskrift þar sem sveppir, smjör, beikon, rjómaostur, kryddjurtir og annað góðgæti spilar saman hina fullkomnu bragðsinfóníu.

Það var María Gomez á Paz.is sem bjó til þessa fyllingu eins og henni einni er lagið.

mbl.is/María Gomez

Besta kalkúnafyllingin

Ég ákvað að útbúa fyllingu úr hráefnum sem ég vissi að myndu passa vel saman og gera töfra. Ég vara ykkur við að þið eigið eftir að borða helminginn af henni standandi við pönnuna og hinn helmingurinn mun fara inn í bringuna.

  • Um 1 kg kalkúnabringa, 1.100 gr sleppur (fyllingin passar í tvær 1 kg bringur eða hægt að hafa með einni og afgang með til hliðar)

Fylling: 

  • 40 gr. ósaltað smjör
  • 250 gr. sveppir
  • 3-4 marin hvítlauksrif
  • 250-270 gr. beikon
  • 50 gr. ristaðar furuhnetur
  • 140 gr. brauðteningar (ekki þurrt brauð heldur alvörubrauðteninga eins og settir er í salat, keypti mína í Bónus)
  • 90 gr. þurrkaðar ferskjur (lífrænt ræktaðar enn betri)
  • 200 gr. eða 1 askja Philadelfia light-ostur með hvítlauk
  • 1 dl rjómi
  • 1 hnefi fersk steinselja smátt skorin
  • 1 hnefi ferskt timian smátt skorið
  • 1/2 tsk. salt
  • pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á að rista furuhnetur á pönnu og setjið til hliðar
  2. Næst er smjörið brætt á pönnu og sveppir steiktir vel upp úr smjörinu þar til þeir eru orðnir brúnir
  3. Bætið mörðum hvítlauksrifum út á pönnuna og passið að þau brenni ekki því þau verða beisk við það
  4. Leyfið hvítlauknum að mýkjast í sveppunum
  5. Skerið eða klippið beikonið út á pönnuna og leyfið að fá á sig hvítan lit
  6. Skerið ferskjurnar smátt og bætið á pönnuna ásamt restinni af innihaldsefnunum, þar til þetta verður að góðum mjúkum graut
  7. Setjið svo allt saman í matvinnsluvél og vinnið létt þar til fyllingin er orðin að þykkum kekkjóttum graut (passið að vinna alls ekki of mikið, á að vera vel kekkjótt með bitum)

Aðferð við að fylla bringuna:

  1. Ég ákvað að gera svokallaðan fiðrildaskurð þar sem maður sker bringuna og lemur til að setja fyllinguna inn í og bindur svo saman.
  2. Þar sem getur verið smá erfitt að útskýra þetta vel ákvað ég að láta þetta myndband fylgja með þar sem aðferðin er útskýrð á fullkominn hátt. Ekki vera hrædd við þetta því þetta er mjög auðvelt og bara skemmtilegt
  3. Hitið nú ofninn í 180 C° undir- og yfirhita (alls ekki blástur því það þurrkar kjötið)
  4. Þegar búið er að fylla bringuna eru 50 gr. ósaltað smjör brædd og smurt vel yfir hana
  5. Saltið létt og piprið og toppið svo með því að krydda yfir með 1 msk. af Bezt á kalkúninn, kryddinu sem fullkomnar þetta allt saman
  6. Bakið svo í 50 mínútur fyrir hvert kíló (mín bringa var 1.100 gr og ég bakaði hana í 60 mínútur)
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka