Hægeldaðir lambaskankar í ómótstæðilegri rauðvínssósu

mbl.is/Linda Ben

Það er eiginlega bara ekkert sem getur toppað þá hugmynd að hægelda lambaskanka í heilan dag meðan snjórinn fellur og veturinn er í hámarki. Þetta er jú síðasta helgin í janúar og strax næstu helgi verður allt töluvert léttara. Það er því lítið annað að gera en að slaka á og leyfa sér að njóta kósíheitanna.

Uppskriftin er úr smiðju hinnar einu sönnu Lindu Ben en matarbloggið hennar er hægt að nálgast HÉR.

Hægeldaðir lambaskankar í  rauðvínssósu

 • 4 lambaskankar
 • Salt og pipar
 • Steikingarolía
 • 1 rauðlaukur
 • 6 frekar litlar ísl. gulrætur
 • 100 g sveppir
 • 1 paprika
 • 7-8 hvítlauksgeirar
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 1 kúfuð tsk. tómatpúrra
 • 2 dl bragðmikið rauðvín
 • 1 l vatn
 • 3 tsk. fljótandi nautakraftur
 • 3 tsk. fljótandi kjúklingakraftur
 • 3 greinar ferskt timjan
 • 6 greinar ferskt rósmarín

Aðferð:

 1. Kryddið lambaskankana með salti og pipar, steikið á heitri djúpri pönnu/potti upp úr olíu á öllum hliðum til að loka kjötinu. Takið kjötið af pönnunni.
 2. Skerið rauðlaukinn og steikið létt, skerið gulræturnar niður og bætið þeim á pönnuna, skerið sveppina og paprikuna og bætið á pönnuna. Pressið hvítlauksgeirana út á pönnuna og steikið létt.
 3. Setjið hakkaða tómata og tómatpúrru á pönnuna og blandið öllu vel saman.
 4. Bætið 2 dl af bragðmiklu rauðvíni á pönnuna ásamt vatni, nautakrafti og kjúklingakrafti. Náið upp suðu og bætið svo lambaskönkunum út í ásamt ferskum kryddjurtum, setjið lokið á pottinn og leyfið að malla í 2 klukkutíma.
 5. Takið lokið af pottinum og leyfið að malla rólega í 30 mín. í viðbót.
 6. Hér er hægt að taka pásu og leyfa pönnunni að bíða yfir nótt í ísskáp eða halda beint áfram.
 7. Takið kjötið upp úr pönnunni og geymið á disk undir álpappír. Sjóðið sósuna í u.þ.b. 15 mín. og kryddið hana til með salti og pipar. Það er smekksatriði hvort þú viljir setja töfrasprota ofan í sósuna og aðeins mauka grænmetið í nokkrar sek., en það er líka hægt að sleppa því.
 8. Berið lambaskankana fram með kartöflumús og sósunni, fallegt að skreyta með fersku timjan.
mbl.is/Linda Ben
mbl.is