Fjölbreytt flóra á Höfða

mbl.is/Ásdís

Nýjustu mathöll borgarinnar má finna á Bíldshöfða og fékk hún það einfalda nafn Mathöll Höfði. Þar má finna sjö veitingastaði sem bjóða upp á mat frá öllum heimshornum og einn góðan bar. 

Eigendur Mathallarinnar Höfða, Sólveig Guðmundsdóttir og Steingerður Þorgilsdóttir, sitja og snæða hádegisverð þegar blaðamann ber að garði. Þær hafa góða yfirsýn yfir þéttsetinn salinn en inn streyma svangir viðskiptavinir í stríðum straumum. Mathöll Höfði er greinilega að stimpla sig inn í hverfið, enda er þar að finna átta staði og er fjölbreytnin mikil. Þar má finna indverskan stað, asískan stað, pítsastað, snúðastað, bruggbar, mexíkóskan stað, stað með heimilismat og einn með fræga kjúklingaborgara.

Steingerður Þorgilsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir eiga heiðurinn af Mathöll Höfða.
Steingerður Þorgilsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir eiga heiðurinn af Mathöll Höfða. mbl.is/Ásdís

Opnað á sex mánuðum

Steingerður og Sólveig eiga og reka staðina Culiacan og Svanga Manga í Mathöllinni en Culiacan er einnig á Suðurlandsbraut. Hann hefur verið opinn í sextán ár og því margir sem smakkað hafa matinn þar.

Upphaflega voru þær að leita að nýju húsnæði fyrir Culiacan og bauðst þá rými á Bíldshöfða. Það reyndist allt of stórt fyrir einn veitingastað og fengu þær þá snilldarhugmynd að opna þar mathöll.

„Steingerður er viðskiptafræðingur og ég iðnhönnuður þannig að þetta blandast svona ljómandi vel saman,“ segir Sólveig en þess má geta að Sólveig hannaði allar innréttingar.

Blaðamaður hefur á orði að aðdragandinn hljóti að hafa verið langur. Það var öðru nær.

„Þetta tók nákvæmlega sex mánuði frá því við fengum þessa hugmynd. Við erum fyrir svona spretti en við hefðum verið fljótari ef það hefðu ekki verið nokkur ljón á veginum,“ segir Steingerður og brosir.

Best í bænum

Nóg er að gera hjá þeim viðskiptafélögum að reka mathöllina og í leiðinni reka áðurnefnda staði; Svanga Manga og Culiacan. Maturinn á Culiacan er mexíkóskur og mikið lagt upp úr fersku hráefni. Allur matur er unninn frá grunni.

„Smáréttaplattinn okkar er vinsælastur. Svo erum við með besta guacamole í bænum. Ef þú finnur eitthvað betra, láttu okkur vita. Við notum alveg sérstakt og dýrt avókadó í það. Alltaf ferskt, aldrei frosið,“ segja þær að lokum.

mbl.is/Ásdís

Besta guacamole

  • 3 HASS avókadó, um 600 gr
  • 2 tómatar, um 250 gr
  • 1 rauðlaukur, um 115gr
  • 15 gr kóriander
  • safi úr einni lime
  • salt og pipar eftir smekk

Rétt þroskastig á avókadó er mjög mikilvægt en best er að nota svart avókadó (Hass) sem er rjómakenndara en aðrar tegundir. Best er að nota íslenska tómata og gott að muna að ekki á að geyma þá í ísskáp.

Til að búa til guacamole skaltu mauka avókadó, skera tómata og laukinn smátt og blanda saman. Kryddið svo og kreistið lime yfir.

Wok on má finna á Smáratorgi og í Borgartúni en …
Wok on má finna á Smáratorgi og í Borgartúni en hefur nú opnað í Mathöll Höfða. Þar er borinn fram bragðmikill asískur matur. Kokkarnir voru á fullu að matreiða í wok-pönnum, enda nóg að gera. mbl.is/Ásdís

Wok on

Wok on má finna á Smáratorgi og í Borgartúni en hefur nú opnað í Mathöll Höfða. Þar er borinn fram bragðmikill asískur matur. Kokkarnir voru á fullu að matreiða í wok-pönnum, enda nóg að gera.
Við bjóðum upp á fisk og grænmetisrétti,“ segir Drífa Jónsdóttir …
Við bjóðum upp á fisk og grænmetisrétti,“ segir Drífa Jónsdóttir en hún á staðinn Hipstur ásamt manni sínum Semjon Karopka. „Allt er ferskt og gert frá grunni. Þetta er svolítið skandínavískur matur. Við förum ekki eftir neinum uppskriftum hér,“ segir hún og segir að viðtökurnar hafi verið afar góðar. „Sumir koma tvisvar á dag.“ mbl.is/Ásdís

Ferskt á Hipstur

„Við bjóðum upp á fisk og grænmetisrétti,“ segir Drífa Jónsdóttir en hún á staðinn Hipstur ásamt manni sínum Semjon Karopka.

„Allt er ferskt og gert frá grunni. Þetta er svolítið skandínavískur matur. Við förum ekki eftir neinum uppskriftum hér,“ segir hún og segir að viðtökurnar hafi verið afar góðar.

„Sumir koma tvisvar á dag.“

Við seljum hér snúða og kaffi. Við erum með fjórar …
Við seljum hér snúða og kaffi. Við erum með fjórar tegundir af snúðum sem eru í grunninn kanilsnúðar en erum með ýmislegt sem gerir þá öðruvísi og framandi,“ segir Danival Egilsson, annar eiganda Sætra snúða, en hann á staðinn með föður sínum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Úlfaldi með karamellu

„Við seljum hér snúða og kaffi. Við erum með fjórar tegundir af snúðum sem eru í grunninn kanilsnúðar en erum með ýmislegt sem gerir þá öðruvísi og framandi,“ segir Danival Egilsson, annar eiganda Sætra snúða, en hann á staðinn með föður sínum.

„Þetta er mjög vinsælt, heitt bakkelsi klikkar seint. Uppáhaldssnúðurinn minn er Úlfaldinn. Kanilsnúður með karamellu og pekanhnetum. Hann er rosa góður,“ segir Danival sem segist ekki gefa upp uppskriftina. „Þetta er leyndó. Við pabbi þróuðum uppskriftina í tvö ár.“

Við ákváðum að taka slaginn og opna hér en vorum …
Við ákváðum að taka slaginn og opna hér en vorum áður með matarbíl hér tvö sumur. Þetta er stórt svæði hér í kring, bæði íbúðarhverfi og vinnustaðir en það er búið að vera töluvert meira að gera en við áttum von á,“ segir Gylfi Bergmann Heimisson sem á og rekur Gastro Truck ásamt konu sinni Lindu Björgu Björnsdóttur. Ásdís Ásgeirsdóttir

Aldrei neitt flókin

„Við ákváðum að taka slaginn og opna hér en vorum áður með matarbíl hér tvö sumur. Þetta er stórt svæði hér í kring, bæði íbúðarhverfi og vinnustaðir en það er búið að vera töluvert meira að gera en við áttum von á,“ segir Gylfi Bergmann Heimisson sem á og rekur Gastro Truck ásamt konu sinni Lindu Björgu Björnsdóttur. Á matseðlinum er aðeins tvennt; kjúklingaborgari og sami borgari án kjöts.

„Það var greinilega þörf á nýjum veitingastöðum hér í hverfinu. Við erum með sama matseðil og á Mathöll Granda en hér höfum við stærra eldhús og höfum færi á að bæta við okkur alla vega einum rétti. Við ætlum okkur aldrei að vera neitt flókin. Við erum búin að fara í alls konar hringi með það en niðurstaðan er sú að þegar við finnum „umph-ið“, fer það inn. Við erum enn að leita og ef það tekur ár, þá það,“ segir hann og bætir við að kjúklingaborgarinn sé alltaf jafn vinsæll.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

- - -

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »