Bækur um súrdeigsbakstur rokseljast

mbl.is/©Anne Merete Thorstensen

Súrdeigsbakstur nýtur gríðarlegra vinsælda um þessar mundir ef marka má myndir af girnilegum nýbökuðum brauðum á samfélagsmiðlum. Bókin Bakað úr súrdeigi sem Salka gefur út hefur rokið út bæði í vefverslun þeirra og sömu sögu má segja úr öðrum bókabúðum sem senda bækur heim.

Súrdeigsbakstur krefst smá þolinmæði og tíma og gæti það verið ástæða þess að margir hafa loksins haft tíma til að stunda þennan skemmtilega bakstur.

Bókin Bakað úr súrdeigi er frábært grundvallarrit um heim súrdeigsbaksturs og kjörin fyrir þá sem vilja kynnast súrdeigsgerð og töfra fram ljúffengar kræsingar í eldhúsinu heima.

Uppskriftir bókarinnar eru aðgengilegar og fjölbreyttar – rúgbrauð, pítsabotna, vöfflur, kanilsnúða og margt fleira má finna í bókinni. Og að sjálfsögðu allt úr súrdeigi!

Fyrir áhugasama um súrdeigsbakstur er einnig hægt að hlusta á hlaðvarpsþátt Sölku þar sem Helga Arnardóttir ræðir við ástríðusúrdeigsbakarana Ragnheiði Maísól og Ágúst Fannar Einþórsson, betur þekktan sem Gústa í Brauð & co. Hvort sem þú ert að hugsa um að stíga þín fyrstu skref sem súrdeigsbakari eða hefur gert ótal tilraunir að hinu fullkomna súrdeigsbrauði þarftu að hlusta á þennan þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert