Kjúklingarétturinn sem Tinna mælir með

Ljósmynd/Tinna Alavis

Hér gefur að líta girnilega uppskrift frá Tinnu Alavis sem ætti engan að svíkja. Sjálfs segist Tinna elska ristaðan hvítlauk en auk hans hafi hún notað hvítvínsedik, hunang og soyasósu.

„Þetta er einn uppáhalds kjúklingarétturinn minn sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið og hann er ekki síðri daginn eftir," segir Tinna um þennan rétt.

Marineraður hvítlaukskjúklingur

Uppskrift fyrir 6.

Allt sem þarf:

  • 6 kjúklingabringur
  • 6 kramin hvítlauksrif
  • 2 tsk. hvítlauksduft
  • ⅓ bolli hunang
  • ¼ bolli vatn
  • 2 msk. hvítvínsedik
  • 1 msk. sojasósa

Krydd: Gróft salt, svartur nýmalaður pipar og eðal kjúklingakrydd.

Aðferð:

1. Byrjið á því að krydda kjúklingabringurnar og steikið þær upp úr kókosolíu eða olífuolíu á meðalháum hita þar til þær eru orðnar fallega gylltar á báðum hliðum og eldaðar í gegn.

2. Setjið kramda hvítlaukinn á pönnuna meðfram kjúklingnum og látið brúnast.

3. Setjið hunang, vatn, hvítvínsedik og sojasósu út á pönnuna og látið malla þar til sósan er byrjuð að þykkna vel.

4. Þegar sósan er tilbúin finnst mér gott að taka matskeið og hella vökva yfir kjúklinginn nokkrum sinnum.

5. Í lokin getur verið girnilegt að saxa smá steinselju yfir eða raspa smá blaðlauk.

6. Berið fram með hrísgrjónum, steiktu grænmeti eða salati.

Ljósmynd/Tinna Alavis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert