Hægeldaðir lambaskankar sem þykja frábærir

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er fátt meira viðeigand á haustin en hægeldaðir lambaskankar. Ljúf matarlyktin leggst yfir heimilið og ærir bragðlaukana. Algjörlega fullkominn réttur!

Þessi uppskrift er úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is og ætti engan að svíkja.

Hægeldaðir lambaskankar

Fyrir 5-6 manns

Lambaskankar

 • 5-6 lambaskankar (eftir stærð)
 • 1 saxaður laukur
 • 3 saxaðar gulrætur
 • 3 rifin hvítlauksrif
 • 140 g tómatpaste
 • 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
 • 600 ml nautasoð
 • 3 greinar rósmarín
 • 1 msk. ferskt timian
 • 100 ml rauðvín
 • Salt, pipar og lambakjötskrydd
 • Ólífuolía til steikingar
 • Smjör til steikingar

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 175°C.
 2. Byrjið síðan á því að steikja skankana upp úr vel af matarolíu og krydda eftir smekk.
 3. Ég steikti þá í pottinum í tveimur hlutum, 3 og 3 í einu. Geymið þá síðan á disk á meðan þið útbúið sósuna.
 4. Bætið nú vænni klípu af smjöri í pottinn og steikið lauk og gulrætur á meðalhita í um 10 mínútur. Bætið hvítlauknum þá saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.
 5. Blandið tómatpaste næst út á pönnuna og síðan hökkuðum tómötum, nautasoði, rósmaríngreinum og söxuðu timian (geymið rauðvínið þar til síðar).
 6. Leyfið þessu að malla stutta stund, bætið skönkunum aftur í pottinn, setjið lokið á og inn í ofn í 2 klukkustundir.
 7. Að þeim tíma liðnum má taka skankana varlega uppúr, bæta rauðvíninu í sósuna og hræra hana upp að nýju, leyfa henni að malla á hellunni í um 5 mínútur. Þá má setja skankana aftur útí og bera fram með kartöflumús.

Kartöflumús

 • Um 1,2 kg kartöflur
 • 30 g smjör
 • 150 ml mjólk
 • 80 ml rjómi
 • 1 msk. sykur
 • Salt, pipar og timian eftir smekk
 • Rifinn parmesan, sé þess óskað
 1. Sjóðið kartöflurnar og takið annað hráefni til.
 2. Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar má flysja þær og setja í góðan pott við lágan hita.
 3. Ég notaði kartöflustappara en það er líka hægt að setja vel soðnar kartöflur í hrærivél og gera þetta þar.
 4. Stappið saman kartöflur og önnur hráefni. Kryddið til eftir smekk og gott er að rífa parmesanost, bæði saman við músina og aftur yfir hana sé þess óskað.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is