Einstök leggur lóð sín á vogarskálar uppgangs áfengislauss bjórs

Ljósmynd/Aðsend

Einstök er eitt fjögurra brugghúsa sem valin hafa verið af Big Drop, leiðandi framleiðanda áfengislauss bjórs í Bretlandi, til þátttöku í samstarfsverkefni um bruggun á norrænum bjór undir 0,5% áfengisstyrkleika.

Verkefnið er annað í röð slíkra alþjóðlegra samstarfsverkefna á vegum Big Drop sem notið hafa leiðsagnar Melissu Cole sem er þekktur sérfræðingur um bjór. Verkefnunum er ætlað að sýna fram á hve langt þróun áfengislágs bjórs er komin og möguleikana sem hann býður upp á.

Framlag Einstök er kókoshnetu-stout sem er fyrsti 0,5% bjórinn frá fyrirtækinu. Auk hans kynnir Big Drop nú ylliberja-IPA frá Svíþjóð, einiberja-rúgs-IPA frá Finnlandi og ferskju-„Melba Pastry Sour“ frá Noregi.

„Það er okkur hjá Einstök sannarlega mikill heiður að vera valin til samstarfs í þessu merkilega verkefni Big Drop og hinna norrænu brugghúsanna. Arctic Beach kókoshnetu-stout, sem vísar til svörtu sandstrandanna okkar, er fyrsti bjórinn okkar sem skilgreina má sem áfengislausan en klárlega ekki sá síðasti,“ segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Einstök Ölgerð.

Rob Fink, stofnandi og forstjóri Big Drop, bætti við: „Þetta eru allt heimsklassabrugghús sem við höfum skemmt okkur vel við að töfra fram bragðmikinn bjór með og brugga hann með náttúrulegum hætti án þess að nota einhver óþarfa gerviefni til að fjarlægja áfengið. Niðurstaðan er einfaldlega frábærlega bragðgóður áfengislaus bjór  það er frábær bjór sem svo vill til að er án áfengis. Okkar starf snýst allt um nýsköpun og við vonumst til að þessar nýjungar, sem aðeins verða í boði í skamman tíma, færi fólki sem elskar góðan bjór nýjar og spennandi upplifanir.“ 

Arctic Beach-bjórinn er á leið til landsins og verður fáanlegur á næstu vikum í verslunum Hagkaups og jafnvel víðar.

1. Big Drop & Einstök „Arctic Beach“ kókóshnetu-stout

  • Útlit og áferð: Svartur eins og nóttin.
  • Þétt, flauelskennd bragðupplifun. Blanda rjómakennds dökks súkkulaðis og ferskleika léttristaðra kókosflagna. Ristaðir malt- og hóflegir kókostónarnir færa bragðlaukana á strandarparadís meðan þú kúrir í sófanum.

2. Big Drop & Hop Notch (Svíþjóð): „Fläderlätt“ ylliberja-IPA

  • Útlit og áferð: Fölgyllt.
  • Ferskleiki í dós. Býður upp á mjög gott jafnvægi milli lyktar og bragðupplifunar. Notkun nýju bresku humlategundarinnar „Mozart“ býður upp á einstaka samsetningu af bitru greipaldini, tærum sítrusnótum og ylliberjum (e. elderflower).

3. Big Drop & Fat Lizard (Finnland): „Rye's Said Fred“ einiberja- og rúgs-IPA

  • Útlit og áferð: Gyllt.
  • Skemmtilega flókin blanda bragðtegunda, kryddtónar frá rúgnum mest áberandi. Ljúfir en látlausir graskenndir hnetutónar dansa við ákveðnari blómkenndari einiberjanótur. Ríku og ristuðu bragði fylgt eftir með ferskri blómkenndri bragðupplifun sem endar á ögn bitrari tónum.

4. Big Drop & Amundsen (Noregur): „Rush Rider ferskju-„Melba Pastry Sour“

  • Útlit og áferð: Bleikt kampavín.
  • Fágaður vöndur af djúpu og líflegu hindberjanammi með örlítið súrum undirtóni. Viðkvæmir lyktartónar leitast við að færa frískandi og skarpt bit áður en fersk en ákveðin vanillan springur út með ferskum berjum og ferskjuböku. Sakbitin sæla í dós.

Hægt er að fylgjast með á facebooksíðu Einstök Ölgerð 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is