Tryllt eldhús í sögufrægu stórhýsi á Austurlandi

Nýuppgert eldhús í sögufrægu húsi á Neskaupsstað.
Nýuppgert eldhús í sögufrægu húsi á Neskaupsstað. Mbl.is/Hákon Hildibrand

Við erum stödd í ótrúlegu eldhúsi sem á engan sinn líka – enda tilheyrir það Sigfúsarhúsi, sögufrægu stórhýsi í Neskaupstað. Hér býr Hákon Hildibrand, frumkvöðull, menningarfrömuður og dragdrottning, ásamt eiginmanni sínum Hafsteini Hafsteinssyni, myndlistarmanni og rithöfundi. Þeir eru eigendur Hildibrand hótels og Beituskúrsins í Neskaupstað.

Síðustu ár hafa Hákon og Hafsteinn verið að undirbúa nýtt og spennandi verkefni, „Queer in Iceland“, eða dvöl fyrir hinsegin listamenn. Leitin að rétta húsnæðinu bar loksins árangur og fundu þeir nægilega stórt hús til að búa í ásamt því að geta boðið upp á aðstöðu fyrir listafólk. „Við keyptum draumahúsið síðasta haust, en Sigfúsarhús var byggt er 1895 og þurfti algjöra endurnýjun til fyrri glæsileika. Við höfum með hjálp vina og fjölskyldu notað veturinn til að taka húsið í gegn og fært það nær uppaflegu horfi,“ segir Hákon í samtali.

18 fermetra eldhús
Það leynir sér ekki að eldhúsið er stórt og rúmgott, enda heilir 18 fermetrar sem áður skiptust niður í eldhús og búr en hefur nú verið sameinað í eitt rými. „Okkur hefur lengi dreymt um draumaeldhúsið, grand og stórt með miklu vinnuplássi og karakter. Þegar við keyptum húsið var eldhúsið illa nýtt og lögunin á því skrýtin þar sem gamla búrið var byggt inn í rýmið. Ég elska gömul búr og hélt að ég myndi aldrei geta rifið slíkt út  en í þessu tilfelli var það ekki spurning,“ segir Hákon og bætir því við að breytingarnar hafi gefið þeim heildstæðara rými með opnun inn í borðstofu. Eins hafa þeir komið upp bar úr stofunni sem snýr inn í eldhús, en það hefur einnig verið draumur hjá þeim.

Fengu fagmann til að teikna breytingarnar
Hákon og Hafsteinn hófu framkvæmdir í september síðastliðnum, þá með sýn á hvernig eldhúsinnréttingu þeir vildu fá og með ýmsar pælingar varðandi uppröðun og notagildi. Þeir fengu síðan Guðbjörgu Önnu Árnadóttur „innréttasérfræðing“, eins og þeir sjálfir segja, til að koma austur og skipuleggja eldhúsið, þvottahúsið, baðherbergin og kaffistofu listamanna. „Það var algjör draumur að fá svona snilling til að útfæra og betrumbæta hugmyndirnar okkar með hliðsjón af notkun og þörfum, mæli með því heilshugar,“ segir Hákon. „Innréttingar voru pantaðar í október og við tók SLOWID-19 tími þar sem allt tók extra langan tíma í afgreiðslu, en við vorum bæði að kaupa efnivið hér heima og flytja inn í gengum Pólland,“ segir Hákon.

Eldhúsið var asbestklætt
Fljótlega þegar farið var að rífa út úr eldhúsinu kom í ljós að einhvern tímann hafði rýmið verið asbestklætt til eldvarna og þá stoppaði öll vinna í því meðan verið var að fá sérfræðinga til að fjarlægja asbestið. „Þvílíikt reglugerða- og leyfisfargan í kringum það mál, og tók um 10 vikur að fá leyfið. Eftir að asbestið var fjarlægt kom í ljós ástand veggja undir og enduðum við á að rífa alveg út í útveggi og byrja uppá nýtt. Í lok janúar var svo loks hægt að byrja að setja upp innréttingar. Við vorum með æðislegan yfirsmið í verkinu, Björgvin Hrannar Björgvinsson, sem gerði þetta meistaralega  enda engir veggir hornréttir í svona gömlu húsi og alls staðar halli og skekkjur sem þurfti að vinna með,“ segir Hákon sem bætir við að útlitið hafi tekið smá breytingum í ferlinu, þar sem ekki fékkst allt sem áætlað var í upphafi – en lokaniðurstaðan er engu að síður glæsileg og fullkomlega í anda hússins og húsráðenda.

Heimilið eins og umferðarmiðstöð
Aðspurður segir Hákon mikið vera um gestagang og heimilið sé oft á tíðum eins og á umferðarmiðstöð. „Ég kann bara að elda ofan í heilan her og það hentar mér ákaflega vel að vera með nóg pláss þegar ég gerist stórtækur í bakstri, sultugerð og ýmiskonar framleiðslu. Þá er bekkjaplássið eins og á góðu hóteli, extra djúpt, eða 80 cm. Inni í mér býr nefnilega gömul sveitakerling sem brýst stundum fram í dragi og skellir í stóran kleinupott. Þegar við byrjum að taka á móti hópum af listamönnum í húsið þá verður ómssandi að hafa gott eldhús sem gaman er að taka á móti fólki í og auðvelt að elda ofan í marga,“ segir Hákon að lokum.

Hvaðan koma græjurnar?

  • Innrétting: IKEA.
  • Vaskur og blöndunartæki: Vaskur IKEA, blöndunartækin Mexen flutt inn frá Póllandi.
  • Eldavél: SMEG opera 120 cm, keypt notuð.
  • Háfur: Galvamet ítalskur framleiðandi, sérinnflutt.
  • Eldhúsborð og -stólar: Stólar ILVA, eldhúsborðið er austfirsk smíði frá sirka 1880, og var okkur gefið það úr dánarbúi á Stöðvarfirði.
  • Lýsing: Flutt inn frá Póllandi.
  • Gólfefni: Vínildúkur fluttur inn frá Póllandi.
Stórkostleg breyting frá því sem áður var.
Stórkostleg breyting frá því sem áður var. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Hér er haldið í gamla tíma - þar sem saga …
Hér er haldið í gamla tíma - þar sem saga hússins fær að njóta sín í bland við nýtt. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Eldhúsið er 18 fermetrar að stærð.
Eldhúsið er 18 fermetrar að stærð. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Lita- og efnisval hentar húsinu vel. Takið eftir opinu sem …
Lita- og efnisval hentar húsinu vel. Takið eftir opinu sem vísar inn í stofu. En hinum megin við vegginn er bar að finna. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Barinn í húsinu með innsýn í eldhúsið.
Barinn í húsinu með innsýn í eldhúsið. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Mbl.is/Hákon Hildibrand
„Ég kann bara að elda ofan í heilan her og …
„Ég kann bara að elda ofan í heilan her og það hentar mér ákaflega vel að vera með nóg pláss þegar ég gerist stórtækur í bakstri, sultugerð og ýmiskonar framleiðslu", segir Hákon í samtali. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Hákon og Hafsteinn - húsráðendur að Sigfúsarhúsi.
Hákon og Hafsteinn - húsráðendur að Sigfúsarhúsi. Mbl.is/Hákon Hildibrand
Eldhúsið eins og það leit út fyrir breytingar.
Eldhúsið eins og það leit út fyrir breytingar. Mbl.is/Hákon Hildibrand
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert