Ofur-morgunverðurinn sem sérfræðingarnir mæla með

Ljósmynd/María Gomez

„Mér finnst hann svo góður að ég myndi þess vegna hafa hann í eftirrétt,“ segir María Gomez matarbloggari um þennan einfalda en á sama tíma dásamlega chia-graut sem hún setti saman fyrir muna.is.

Ljósmynd/María Gomez

María bendir þar á að chia-fræ séu ein þau næringarríkustu sem völ er á, bæði stútfull af vítamínum og omega-fitusýrum. Því sé tilvalið að byrja daginn á graut sem þessum og fylla tankinn af næringu og góðum  trefjum. „Þar sem chia-fræ hafa þann eiginleika að tífalda stærð sína þegar þau blandast við vökva, eru þau afar mettandi og halda manni söddum vel og lengi. Ég tala nú ekki um ef þið fáið ykkur lífrænt ræktað hnetusmjör, örfáar hnetur og svo ávexti með. Fullkomin og mettandi fæða á nokkrum mínútum.“

María segir tilvalið að gera grautinn fyrir fram eins og kvöldið áður.
„Ég notaðist við hráefni frá MUNA sem er allt lífrænt ræktað án þess að vera of frekt við budduna. Ég elska að geta keypt lífrænt á viðráðanlegu verði.“

Ljósmynd/María Gomez

Súperauðveldur chia-grautur
 • 2-2,5 dl haframjólk
 • 1/2 dl chia-fræ 
 • 1/2 tsk. sítrónusafi
 • 1/4 tsk. vanilludropar
 • Ristaðar kókosflögur
 • Sykurlaus jarðarberjasulta
 • Hnetusmjör
 • Kasjúhnetur
 • Hampfræ
 • Kakónibbur
 • Kókosbiti
 • Fersk jarðarber
 • Fersk bláber


AÐFERÐ

 1. Byrjið á að blanda saman haframjólk, agave-sírópi, sítrónusafa og vanilludropum.
 2. Setjið næst chia-fræin út í og hrærið vel saman.
 3. Látið standa í minnst 10 mínútur eða yfir nótt þess vegna, í kæli þá.
 4. Setjið svo í botninn á krukku eitt lag af ristuðum kókosflögum (getið líka notað glas eða bara skál).
 5. Setjið svo eitt lag af sultu þar ofan á.
 6. Setjið svo vel af chia-grautnum yfir og toppið með hnetusmjörinu, hampfræjunum, hnetum, jarðarberjum, bláberjum og kakónibbum.
 7. Spari set ég svo stundum nokkra bita af kókosbitasúkkulaðistykkinu ofan á.
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is