Draumavikumatseðill Sólveigar Andersen

Mathöll Höfða nýtur mikilla vinsælda, enda fjölbreyttir staðir á besta …
Mathöll Höfða nýtur mikilla vinsælda, enda fjölbreyttir staðir á besta stað í bænum. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Þessa vikuna velur Sólveig Andersen, eigandi Mathallar Höfða, fyrir okkur vikuseðilinn – en Sólveig færir okkur spennandi matseðil og spennandi fréttir úr „höllinni“. Þegar við náðum tali af Sólveigu var hún nýkomin heim frá Spáni, þar sem hún naut lífsins og drakk sól í lítratali – endurnærð og full af orku. „Tímasetningin var fullkomin fyrir þetta frí, því við misstum af öllu leiðindaveðrinu hér í júní og komum heim með fullan tank af D-vítamíni,“ segir Sólveig.

Það eru spennandi tímar hjá Mathöll Höfða, en um miðjan mánuðinn stækkar Mathöllin og um leið bætast við tveir nýir staðir segir Sólveig okkur. „Það er Pastagerðin, en hún hefur slegið í gegn með pastanu sínu sem er ferskt pasta framleitt af starfsfólkinu sjálfu og geggjaðar sósur. Einnig er að opna hjá okkur Dragon Dim Sum, en eigendurnir að þeim stað eru líka með Matbar og eru mjög metnaðarfullir matreiðslumenn. Þetta er eini alvöru dumplings-staðurinn á landinu og hlökkum við mikið til að fá hann í hópinn hjá okkur. Þá erum við komin með tíu staði í húsið, hvern með sitt sérsvið. Þetta er einmitt það skemmtilegasta við Mathallir, að þú getur fengið ljúffengan mat frá mismunandi aðilum undir sama þaki,“ segir Sólveig í samtali.

Sólveig segir okkur að þau hafi undanfarið verið með matreiðslumann frá Mexíkó til að taka allan matseðilinn á Culiacan í gegn. Á nýja matseðlinum eru t.d. tacos sem þau framleiða alveg frá grunni. Kokkurinn bakar sjálfur mjúkar glútenlausar korn-tortillur og hægeldar nautakjöt, eins mexíkóskt og það gerist. Það fer alls ekkert á milli mála að nýi matseðillinn verður að smakkast – enda erum við forfallnir taco-aðdáendur hér á Matarvefnum.

Hvað er svo á döfinni hjá Sólveigu út sumarið? „Stefnan er að vera dugleg að fara í útilegur í sumar, en síðustu helgi var ég í Húsafelli sem mér finnst algjör draumur. Ég ætla samt að vera í bænum helgina 15.-17. júlí því þá verður sumarhátíð í Mathöllinni. Við náðum aldrei að halda upp á afmæli Mathallarinnar því Covid skall á nákvæmlega einu ári eftir að við opnuðum. Þetta verður því eins konar afmælis-, stækkunar- og sumarhátíð“, segir Sólveig að lokum.

Mánudagur:
Þessi er snilld eftir helgina þegar maður á það til að tryllast aðeins í kolvetnunum. Þarna fær maður kolvetnafrí, en samt fisk og fullt af gúmmulaði.

Þriðjudagur:
Taco Tuesday er alveg heilagt fyrir mér. Við erum alltaf með taco á þriðjudögum og í þessari uppskrift er einmitt mælt með korntortillum. Við vorum að byrja að baka glútenlausar korntortillur á Culiacan.

Miðvikudagur:
Frekar einfaldur og flottur réttur fyrir alla fjölskylduna.

Fimmtudagur:
Þetta salat finnst okkur algjört æði. Partý hjá bragðlaukunum, mikið af grænmeti og kjúklingi. Er hægt að biðja um meira?

Föstudagur:
Föstudagspizzan er hefð á mínu heimili. Þá fá allir að velja sitt álegg og við tökum góðan tíma í að fletja út og setja saman. Stundum skellir maðurinn minn þeim á grillið en það er klárlega á óskalistanum að kaupa alvörupizzaofn á pallinn.

Laugardagur:
Þessi hljómar mjög vel, held reyndar að allt sem Jói Fel gerir sé gott. Góð steik og rauðvín á laugardagskvöldi – ég slæ ekki hendinni á móti því.

Sunnudagur:
Ég ætla nú ekki að ljúga því að ég sé alltaf með lambasteik á sunnudögum, en mikið væri ég til í það. Það er fátt betra en að enda vikuna með góðu lambalæri með miklu meðlæti.

mbl.is