Ómótstæðileg ostakaka að hætti Höllu Báru

Ljósmynd/Home & Delicious

Ein smekklegasta kona landsins, Halla Bára Gestsdóttir, er flestum flinkari í eldhúsinu og hér er hún með ostaköku sem ætti að koma flestum á óvart.

„Þetta er ansi skemmtileg útfærsla á ostaköku. Mjög einföld og má í raun heimfæra á ýmsa vegu og leyfa sköpunargáfunni að njóta sín. Rjómaostur er notaður hér en skyrið mætti sannarlega nota í staðinn. Pretzel er síðan „tvistið“ í staðinn fyrir hafrakökurnar,“ segir Halla og við hvetjum ykkur svo sannarlega til að prófa.

Jarðarberjaostakaka með pretzel-kurli

Pretzel-kurl

  • 250 g pretzelkringlur (saltkringlur)
  • 2 msk. sykur eða púðursykur
  • 80 g brætt smjör

Ostablanda

  • 80 g sykur
  • 220 g rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn
  • 1 tsk. vanilludropar

Berjablanda

  • 2 msk. jarðarberjasulta
  • 400 g jarðarber
  • kókosbollur, magn eftir smekk
  • fersk mynta

Pretzel-kurl

  1. Hitið ofn í 200 gráður. Myljið pretzel í matvinnsluvél eða í höndunum með því að berja það niður í poka. Ekki mylja það of fínt, leyfið grófari bitum að vera með.
  2. Setjið sykur eða púðursykur saman við ásamt bræddu smjöri. Hrærið og blandið vel saman. Það má gera í matvinnsluvél eða í skál og þá með höndunum með því að kreista allt saman.
  3. Dreifið úr blöndunni í ofnskúffu og stingið í heitan ofninn. Bakið í 10-12 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna.

Ostablanda

  1. Hrærið allt saman þar til blandan er mjúk og kekkjalaus.

*Í staðinn fyrir rjómaost má nota Íseyjar- eða KEA-skyr af ýmsum tegundum sem og mascarponeost frá Gott í matinn.

Berjablanda

  1. Skerið jarðarber í sneiðar og hrærið saman við jarðarberjasultuna.

*Í staðinn fyrir jarðarber má nota önnur ber og sultu úr þeim berjum. Einnig epli og þá eplamauk. Appelsínur og appelsínumarmelaði. Allt sem hugurinn girnist hverju sinni eða til er í ísskápnum.

Samsetning

  1. Setjið kurl í botninn, ostablöndu, kókosbollur (sem búið er að brjóta aðeins niður) og þá berjablöndu ofan á.
  2. Skreytið með pínu meira kurli og fallegri ferskri myntu.
  3. Kælið aðeins áður en borið fram.
  4. Það má setja þessa köku saman að vild. Í eina stóra skál eða fat, einnig fyrir hvern og einn. Kurlið getur sömuleiðis verið undir ostablöndunni eins og botn eða kökunni lagskipt.

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert