Vikuseðill Evu Maríu hjá Sætum syndum

Eva María „sætar“, eins og hún er oftast kölluð. Snillingurinn …
Eva María „sætar“, eins og hún er oftast kölluð. Snillingurinn á bak við Sætar syndir - eitt besta sælkerahús landsins er kemur að kökum og kræsingum. Kristinn Magnússon

Það eru fáir betri í að setja saman vikuseðilinn en matgæðingurinn og baksturssnillingurinn Eva María hjá Sætum syndum. Þeir sem til þekkja vita að hún töfrar fram listaverkakökur sem eiga engan sinn líka.

„Ég elska að dunda mér í eldhúsinu og finnst fátt skemmtilegra en að elda og svo borða góðan mat,“ segir Eva María í samtali. „Ég fæ svo mikla hugarró við að elda, það er svo gaman að búa til eitthvað dásamlegt úr einföldum hráefnum. Lífið er einfaldlega of stutt til að borða vondan mat – það er mitt móttó,“ segir Eva María og við tökum heilshugar undir.

Það er nóg að gera hjá Sætum syndum þessa dagana, þar sem allt er að vakna til lífsins eftir sumarið og Covid-dvala, en Eva María flakkar mikið á milli útibúa. „Ég byrja daginn milli átta og níu á morgnana í Hlíðasmára 19 þar sem öll framleiðslan okkar er og kem öllu í gang. Síðan er ég oftast mætt á kampavínskaffihúsið um hádegið og fer yfir vikuna og allt með starfsfólkinu þar. Vinnudagarnir eru fjölbreytilegir; ég er enn að baka kökur, búa til makkarónur og skreyta kökur en svo fer líka mikill tími í alla yfirumsjón eins og pantanir, bókhald og fjármál. Fundir með öðrum fyrirtækjum varðandi vörur og samstarf, og svo starfsmannamál. Þannig að dagarnir eru mjög breytilegir!

Það styttist í jólavertíðina og segir Eva María síðustu mánuði ársins annasama. „Við erum með sörur sem fara í sölu í öllum Hagkaupsbúðum á landinu og við framleiðum um 25.000 sörur fyrir hver jól. Hverri söru þarf að handdýfa í súkkulaði þannig að það eru ansi mörg handtök sem þarf til að klára þær. Eins er mikið af skemmtilegum verkefnum og samstarfi fram undan, get ekki sagt frá því eins og er en maður er alltaf að finna nýjar og skemmtilegar hugmyndir og vörur,“ segir Eva María að lokum.

Mánudagur:

Mér finnst alltaf gott að byrja vikuna á léttum og góðum fiski og þessi er unaðslegur, hef eldað þennan oft og hentar bæði sem kósí mánudagsmatur eða þá að djassa hann aðeins upp á föstudögum með góðu hvítlauksbrauði og smá freyðivíni.

Þriðjudagur:
Súpur eru oft fljótlegar og einfaldar í framkvæmd en notalegt að setjast niður núna þegar það er byrjað að kólna úti saman við matarborðið fjölskyldan og gæða sér á heitri súpu og spjalla um daginn sinn.

Miðvikudagur:
Kjötbollur elska allir í fjölskyldunni en þessar eru alveg svakalegar.

Fimmtudagur:
Ég elska pasta og elda mjög oft alls kyns pastarétti. Væri sennilega ekki góður kandídat fyrir ketó. Carbonara er svo einfalt, fljótlegt og ódýrt og einmitt líka réttur sem hentar fyrir börn og fullorðna. Rosa gott að vera með gott hvítlauksbrauð með þessum.

Föstudagur:
Þessum rétti kynntist ég í gegnum mágkonu mína en hann var eldaður á Hólmavík fyrir ansi mörgum árum og hann er það góður að þessi kemur alltaf upp í hugann þegar maður vill gera vel við sig en langar ekki í kjöt.

Laugardagur:
Risotto er eitt af því skemmtilegasta sem ég elda. Þessi réttur tekur góðan tíma en útkoman er svo sannarlega þess virði. Ég næ mér oft bara í barstól og sest við eldavélina með kampavínsglas í hendi og dunda mér við að elda þennan rétt en maður þarf að standa yfir honum og þetta er svona klukkutíma verk en vel þess virði. Ég passa mig alltaf að gera nóg af risotto því ég nýti afgangsrisotto í arancini daginn eftir. Arancini eru djúpsteikar risottokúlur en maður einfaldlega býr til kúlur úr köldu risotto, veltir upp úr eggi og raspi og djúpsteikir og ber fram með La Rustica -ósu (fæst í Krónunni) sem maður er búinn að hita og rífur parmesan yfir. Þarna fær maður tvær dýrindis máltíðir úr einni matseld.

Sunnudagur:
Það er gott að enda vikuna á góðu nauti en góð nautalund, franskar, béarnaisesósa og gott rauðvín eiga svo sannarlega við þar. Persónulega er ég mjög hrifin af trufflumarineruðum nautalundum sem fást í Kjötkompaníi. Ef fólk er í tímaþröng er auðvitað hægt að kaupa tilbúinn béarnaise-essence til að spara sér nokkur spor.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Mbl.is/Snorri Sturluson
mbl.is