Yngsti bakari landsins sendir frá sér bók

Hin 12 ára Elín Heiða Hermannsdóttir er um þessar mundir að senda frá sér matreiðslubók sem kallast Börnin baka. Þetta er fyrsta bók Elínar Heiðu, sem hún sendir frá sér í samstarfi við móður sína, matarbloggarann Berglindi Hreiðars, en hún er konan á bak við matarbloggið Gotterí og gersemar.

Berglind hefur sent frá sér matreiðslubækur undanfarin tvö ár og ákvað í ár að breyta til og fá tólf ára dóttur sína með sér í lið. Að sögn Berglindar var þetta heilmikil áskorun en um leið mikið ævintýri eins og gefur að skilja.

„Að koma saman matreiðslubók sem þessari er skemmtilegt verkefni og að vinna það með dóttur sinni gerir það enn skemmtilegra. Það er hins vegar einnig krefjandi og krefst þess að viðkomandi gefi sér tíma til þess að huga að öllum smáatriðum og sinni verkefninu af mikilli alúð. Sumarið okkar fór að mestu í bókagerð og Elín Heiða gat því oft ekki leikið sér við vini sína þar sem hún var inni að baka fyrir bókina. Við sáum því eflaust minna af sólinni en margir þetta sumarið,“ segir Berglind en bókin inniheldur uppskriftir ætlaðar krökkum og má búast við að þær mæðgur geri frábæra hluti í bókaflóðinu fyrir jólin en fyrir áhugasama er forsala hafin inni á Gotteri.is.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert