Kjúklingasalatið sem setti allt á hliðina

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er engu logið enda undirrituð ákafur aðdáandi góðra kjúklingasalata. Stundum geng ég meira að segja svo langt að sleppa kjúklingnum en það er nú önnur og villtari saga.

Þetta salat kom svakalega á óvart sem hljóta að teljast tíðindi þar sem lestur uppskriftarinnar gefur góð fyrirheit um útkomuna. Ég veit ekki hvort það eru döðlurnar eða hvað það var sem tók salatið og breytti því í rokkstjörnu en gott var það. Dressingin toppaði svo aftur flest.

Það er meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari tímalausu snilld og hafi hún kærar þakkir fyrir..

Kjúklingasalat með sætum kartöflum

Fyrir um 4 manns

Kjúklingasalat uppskrift

 • 1 stór sæt kartafla
 • 700-800 g kjúklingabringur
 • 1 haus blaðsalat
 • 100 g spínat
 • 1 rauðlaukur
 • 1 mangó
 • 50 g saxaðar Til hamingju döðlur
 • 60 g salatblanda frá Til hamingju
 • 40 g brotnar kasjúhnetur frá Til hamingju
 • 1 krukka fetaostur
 • Kóríander (má sleppa)
 • Isio 4 olía til steikingar
 • Kjúklingakrydd, salt, hvítlauksduft

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200°C.
 2. Flysjið kartöfluna og skerið í litla teninga. Setjið í eldfast mót/ofnskúffu, nokkrar matskeiðar af olíu yfir og kryddið eftir smekk. Bakið í ofninum í um 30 mínútur eða þar til kartöflubitarnir mýkjast, snúið nokkrum sinnum á meðan.
 3. Skerið á meðan kjúklinginn niður í bita og steikið upp úr olíu og kryddum, geymið.
 4. Skerið annað hráefni í salatið niður og setjið í fallega skál, blandið síðan öllu saman (kartöflum og kjúkling líka) og berið fram með salatdressingu (sjá uppskrift hér að neðan).

Salatdressing uppskrift

 • 200 g Hellmann‘s light majónes
 • 50 g sýrður rjómi
 • 2 rifin hvítlauksrif
 • 40 g hunang frá Bio Today
 • 2 tsk. sítrónusafi
 • 2 msk. saxað kóríander
 • Salt og pipar

Aðferð:

 1. Pískið allt saman í skál og geymið í kæli fram að notkun.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is