Lang besta sósan í boði Berglindar

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Berglind Hreiðars á Gotteri.is býður hér upp á lambalundir af bestu gerð sem hún ber fram með sveppasósu og algjörlega geggjaðri sætkartöflumús. 

Lambalundir með sætkartöflumús og sveppasósu

Lambalundir uppskrift

  • Um 1 kg lambalundir
  • 3 msk. Bezt á lambið krydd
  • 3 msk. ólífuolía

Aðferð:

  1. Veltið lundunum upp úr olíu og kryddi, plastið og leyfið að marinerast að minnsta kosti í klukkustund (yfir nótt væri líka í lagi).
  2. Grillið síðan á vel heitu grilli í 5-8 mínútur, fer eftir þykkt lundanna.
  3. Hvílið síðan í að minnsta kosti 10 mínútur áður en kjötið er skorið.

Sveppasósa uppskrift

  • 60 g smjör
  • 300 g sveppir
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk. hvítvín
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 400 ml vatn
  • 400 ml rjómi
  • 30 g parmesan
  • 1 msk. timian
  • Salt og pipar
  • 2 x Toro sveppasósubréf

Aðferð:

  1. Steikið sveppina upp úr smjöri þar til þeir mýkjast. Saltið og piprið eftir smekk og rífið hvítlaukinn saman við í lokin og steikið aðeins áfram.
  2. Hellið hvítvíninu yfir sveppina og leyfið því að sjóða niður (gufa upp) og bætið þá restinni af hráefnunum í pottinn og pískið sósubréfin saman við.
  3. Leyfið að malla og smakkið til með salti og pipar.

Sætkartöflumús uppskrift

  • Um 1100 g sætar kartöflur
  • 60 g smjör
  • 3 msk. hlynsýróp
  • 1 tsk. salt
  • ½ tsk. pipar
  • ½ tsk. cheyenne pipar
  • 60 g saxaðar döðlur
  • 100 g saxaðar pekanhnetur
  • 1 krukka fetaostur (bara osturinn)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar. Mér finnst best að flysja þær fyrst og skera í jafna bita, þá eru þær fljótari að sjóða.
  2. Setjið síðan kartöflubitana ásamt smjöri, sýrópi og kryddi í hrærivélarskálina og blandið saman.
  3. Færið næst yfir í eldfast mót og dreifið döðlum, pekanhnetum og fetaosti yfir og bakið við 190°C í um 10-15 mínútur eða þar til osturinn bráðnar og hneturnar fara að gyllast.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka