Óviðjafnanleg Búddaskál Lindu Ben

Ljósmynd/Linda Ben

„Hver elskar ekki ofureinfaldan, ótrúlega góðan, fljótlegan og hollan mat?“ spyr Linda Ben og við tökum að sjálfsögðu undir það. Sjálf segist Linda elska uppskriftir sem uppfylli öll þessi skilyrði. „Þessi sítrónu búddaskál með kínóa og grænmeti er einmitt akkúrat þannig, ofureinföld, ótrúlega góð, fljótleg og holl!"

Linda segir að það sé fremur stutt síðan hún uppgötvaði almennilega kínóa en síðan þá sé það í einstöku uppáhaldi hjá henni.

„Það tekur stuttan tíma að elda það, u.þ.b. 15 mín. Það er próteinríkt, inniheldur fullt af góðum vítamínum, steinefnum, trefjum og andoxunarefnum, sannkölluð ofurfæða. Það er ekki bragðmikið og gengur því með ótrúlega mörgu. Áferðin á því minnir svolítið á hrísgrjón og pasta, nema að grjónin eru mun smærri. Dóttir mín sem er 2½ árs og getur verið mjög vandlát þegar kemur að mat, elskar kínóa, og mér finnst það segja mikið um ágæti þess.“

Linda segir að auðvelt sé að leika sér með þennan rétt og nota það grænmeti sem til er hverju sinni. „Ég held mig samt yfirleitt við að smella kjúklingabaunum með til að fá meiri fyllingu í réttinn. Sítrónuolían og ólífurnar finnst mér líka algjörlega ómissandi en þær koma með svo ferskt og gott bragð.“

„Ég vil rétt benda á hversu gott það er fyrir okkur og náttúruna að velja lífrænt. Bæði í ferskvörum, eins og ávöxtum og grænmeti, og hilluvörum, eins og ólífum, baunum og kornvörum. Það er meðal annars ekki notað neitt skordýraeitur við framleiðslu lífrænna vara en það hefur verið sýnt fram á hversu ótrúlega skaðlegt það er fyrir okkur og náttúruna.“

Ljósmynd/Linda Ben

Sítrónubúddaskál með kínóa og grænmeti

  • 2 dl kínóa frá Muna
  • 1 msk bragð- og lyktarlaus kókosolía frá Muna
  • 300 g aspas
  • 1 krukka kjúklingabaunir frá Muna
  • 2 gulrætur
  • 100 g kirsuberjatómtar
  • 1 sítróna
  • Salt og pipar
  • Sítrónuolía frá Muna
  • Sesamfræ

Aðferð:

  1. Setjið 2 dl kínóa í pott og bætið 4 dl af vatni út í, sjóðið rólega með lokið á pottinum í uþ.b. 10 mín, takið lokið af pottinum og haldið áfram að sjóða þar til allt vatnið hefur gufað upp. Fylgist vel með og passið að brenna ekki kínóað.
  2. Brjótið harða endann af aspasnum.
  3. Setjið kókosolíu á pönnu og steikið aspasinn í u.þ.b. 5 mín á meðal hita. Bætið kjúklingabaununum út á og kryddið með salti og pipar. Rífið gulræturnar út á pönnuna og steikið í u.þ.b. 5 mín, kryddið með salti og pipar.
  4. Rífið börkinn af sítrónunni út á pönnuna og kreistið safann úr henni, skerið tómatana í fernt og setjið á pönnuna til að hita þá.
  5. Setjið kínóa í skálar og skiptið grænmetinu á milli skálanna. Dreifið sesamfræjum yfir, u.þ.b. 1 tsk. yfir hverja skál og hellið örlítilli sítrónuolíu yfir.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert