Hversdagsrétturinn sem allir elska

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er á ferðinni réttur sem passar alltaf – hvort heldur sem er í kvöldmatinn, í nestið eða í hádeginu. Vefjur eru merkilega magnað fyrirbæri þar sem hægt er að setja nánast hvað sem er inn í þær og rúlla upp. Hér er það Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem fer á kostum og býr til BLT-vefju sem minnir eiginlega mest á góðan Subway. Ekki spillir fyrir að hún notar léttmajónes frá Hellmann's en það inniheldur nánast engar hitaeiningar sem þýðir að nú getum við sukkað í majónesi án þess að allt fari á hliðina. 

BLT-vefjur

Uppskrift dugar í 4 vefjur

 • 4 x Old el Paso-vefja (stærri gerðin, seldar 6 í pakka)
 • Hellmann's lighter than light-majónes
 • 1 box silkiskorin skinka
 • 4 x ostsneiðar (ferkantaðar úr boxi)
 • 8 steiktar beikonsneiðar (krönsí)
 • tómatsneiðar
 • blaðsalat
 • salt + pipar

Aðferð:

 1. Leggið vefjurnar á bretti/borð og smyrjið miðjuna með majónesi, 1-2 msk. eftir smekk.
 2. Skiljið smá pláss eftir á báðum endum til að geta brotið upp á vefjuna og rúllað upp með báða enda lokaða.
 3. Raðið næst öðru áleggi á miðjuna, saltið og piprið eftir smekk.
 4. Brjótið upp endana og rúllið eins þétt og þið getið.
 5. Skerið vefjuna í tvennt í miðjunni og njótið!
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is