„Þú verður Liverpool-goðsögn að eilífu“

Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum eftir síðasta leik tímabilsins í …
Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum eftir síðasta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í maí. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist munu sakna Georginio Wijnaldum, sem samdi í dag við franska stórliðið París Saint-Germain, sárt og að hann yfirgefi félagið sem goðsögn þess.

Sem lið kvöddum við Gini eftir lokaleik tímabilsins. Það var opinbera kveðjustundin á vellinum með heiðursverði og svo var einkasamkvæmi hjá okkur líka um kvöldið.

Það var erfitt fyrir okkur alla vegna þess hversu mikils hópurinn metur þessa stórkostlegu manneskju. Hann hefur verið hluti af lífi okkar allra svo lengi. Það er ekkert í hans fari sem ég mun ekki sakna,“ sagði Klopp í samtali við opinbera heimasíðu Liverpool.

Wijnaldum var á meðal fyrstu leikmanna sem Klopp keypti til Liverpool þegar hann kom frá Newcastle United sumarið 2016. Saman unnu þeir ensku úrvalsdeildina, Meistaradeild Evrópu, heimsmeistarakeppni félagsliða og evrópska ofubikarinn.

„Ég mun sakna leikmannsins sem hann er brjálæðislega mikið, hann býr yfir getu í hæsta klassa og er einn klárasti spilari sem ég hef nokkru sinni haft þau forréttindi að þjálfa. Hans framlag var út úr kortinu mikið, draumur þjálfarans.

En sem manneskja mun hann skilja jafn mikið eftir sig. Þú gætir ekki óskað þér að hitta meira gefandi manneskju. Gini er mjög sterkur og með sterkar skoðanir, en hans vilji er einungis að hjálpa liðinu, ávallt. Liðsfélagar hans bæði dáðust að honum og virtu hann,“ bætti hann við.

Að lokum sagði Klopp að Wijnaldum myndi hrífast af PSG og borginni og að allir þar í borg muni sömuleiðis hrífast honum. Kvaddi Klopp svo miðjumanninn knáa með stærsta hrósi sem hugsast getur:

„Bros hans lýsti upp vinnustaðinn okkar. Hann var risastór hluti af því hvernig hjarta okkar slær.

Bless Gini. Þú komst, þú sást, þú vannst allt. Þú ert Liverpool-goðsögn nú og að eilífu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert