Býður 1 milljarð punda í Iceland

Iceland Foods
Iceland Foods

Malcolm Walker, forstjóri og stofnandi Iceland Foods verslunarkeðjunnar í Bretlandi, hefur óskað eftir því að kaupa keðjuna á ný á 1 milljarð punda, 177 milljarða króna. Walker á 24% en Landsbanki og Glitnir afganginn af hlutafénu eftri gjaldþrot Baugs Group og tengdra félaga. Hafa bankarnir hafnað tilboði hans og segjast ekki vilja selja núverandi stjórnendum keðjunnar hana á 1 milljarð punda. 

Fjallað er um þetta í  The Sunday Telegraph en í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá tilboði Walker.

Yrði söguleg endurkoma

Segir í Sunday Telegraph að ef bankarnir selja Walker hlut sinn yrði það ein sögulegasta endurkoma í smásölusögunni.

Heimildir blaðsins herma að annað tilboð hafi borið frá einhverjum sem er lýst sem fjárfestingasjóði en viðkomandi hefur boðið 1,4 milljarða punda í keðjuna.

Walker stofnaði Iceland árið 1970 og breytti því í verslunarveldi. Hann var hins vegar látinn hætta sem stjórnarformaður keðjunnar í janúar 2001 eftir að fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun einungis nokkrum dögum eftir að hann seldi hlutabréf sem metin voru á 13,5 milljónir punda. 

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, rannsakaði viðskiptin en sagði að ekki væri hægt að finna neitt athugavert við viðskiptin. Lýsir Sunday Telegraph því að Walker hafi verið afar ósáttur við að hafa verið rekinn frá fyrirtækinu og beindist reiði hans einkum að Bill Grimsey, sem tók við sem forsjóri Iceland keðjunnar af honum í uppreisn sem var gerð er Walker var í fríi. 

Íslendingar tóku keðjuna yfir

Árið 2005 yfirtóku Íslendingar með Jón Ásgeir Jóhannesson í fararbroddi keðjuna en yfirtakan var leidd af Baugi. Greiddu þeir 326 milljónir punda fyrir móðurfélag Iceland, Big Food Group, sem einnig átti Booker verslunarkeðjuna og Woodward Foodservice. Íslendingarnir fengu síðan Walker til starfa á ný sem forstjóra Iceland.

Þegar Baugur yfirtók keðjuna hafði salan dregist saman um 10% hjá Iceland en á fyrstu tveimur árunum eftir yfirtökuna jókst hún um 16%.

Alls rekur Iceland 750 Iceland verslanir í dag og 30 Cool Trader verslanir.

Bankar á bak við tilboðið

Eru um fjórir mánuðir síðan Walker gerði íslensku bönkunum tilboð og heimildir Telegraph herma að það séu bankar frekar en einkafjárfestar sem standa á bak við tilboðið. Fjallar blaðið um náin tengsl Walker og Jóns Ásgeirs en talið var á sínum tíma þegar Jón Ásgeir og fjölskylda ætlaði að kaupa Haga á ný að Walker myndi koma að fjármögnun kaupanna. Ekkert varð hins vegar af kaupunum og eru Hagar enn í eigu Arion banka. Til stendur að selja Haga og skrá í Kauphöllina á Íslandi.

Fer langt með að greiða Icesave-skuldina

Jón Ásgeir hætti sem stjórnarformaður Iceland fyrr á árinu eftir að slitastjórn Glitnis höfðaði mál gegn honum vegna tveggja millarða Bandaríkjadala sem hann er sakaður um að hafa tekið út úr bankanum ásamt viðskiptafélögum sínum, samkvæmt frétt Telegraph.

Segir Telegraph að salan á Iceland skipti Landsbankann miklu þar sem hún komi til með að greiða Icesave skuldina að mestu. Skuld sem hafi valdið deilu milli Íslands og Bretlands og Hollands.

Sjá nánar hér

Malcolm Walker, stofnandi bresku verslanakeðjunnar Iceland
Malcolm Walker, stofnandi bresku verslanakeðjunnar Iceland mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK