Ert þú leiðbeinandi minn?

Stígum fram er komin út á íslensku.
Stígum fram er komin út á íslensku.

Bókin Stígum fram eða Lean In, eins og hún heitir á frummálinu, kom út á íslensku í síðustu viku. Bókin hefur farið sigurför um heiminn og er nú komin í þriðja sæti á metsölulista Eymundsson. Hér fyrir neðan er fimmti kaflinn í bókinni:

Þegar ég var barn var ein af uppáhaldsbókunum mínum bókin Are You My Mother?, sagan um ungann sem kom úr egginu og komst að raun um að hann var einn í hreiðrinu. Nýskriðinn úr egginu lagði unginn af stað til að leita móður sinnar og spurði kettling, hænu, hund og kú þessarar brennandi spurningar: „Ert þú móðir mín?“ Öll dýrin svöruðu: „Nei!“ Unginn varð æ örvæntingarfyllri og kallaði loks: „Ert þú móðir mín?“ að bíl, báti, flugvél og jafnvel gufugröfu, sem gat einungis svarað með háværu: „Fnæs!“ Unginn virðist dæmdur þar sem hann sat fastur í kjafti gröfuskóflunnar, þar til skóflan lyfti honum á undraverðan hátt upp í hreiðrið sitt aftur. Móðirin kom til baka og unginn sagði: „Þú ert fugl og þú ert móðir mín.“

Þessi barnabók endurspeglar á áhrifaríkan hátt spurninguna á atvinnumarkaðnum: „Ert þú leiðbeinandi (mentor) minn?“ Þurfi einhver að spyrja þeirrar spurningar er svarið sennilega neikvætt. Þegar einhver finnur rétta leiðbeinandann er það augljóst og spurningin verður að staðhæfingu. Sjaldnast virkar að elta eða þvinga fram slík tengsl, en samt sé ég konur sífellt reyna að gera það. Þegar ég flyt ræður eða mæti á fundi er sláandi fjöldi kvenna sem kynnir sig fyrir mér og spyr á sama andartaki hvort ég vilji vera leiðbeinandi þeirra. Ég man ekki eftir einum einasta karlmanni sem hefur spurt mig hins sama (þótt karlmenn hafi beðið mig að leiðbeina eiginkonum sínum eða kærustum).

Þessi spurning eyðileggur alveg stemninguna – og má líkja henni við að snúa sér hugsi að einhverjum, sem þú ert á stefnumóti við, og spyrja: „Hvað ertu að hugsa?“ Allar konur í yfirmannsstöðum hafa talað um þetta við mig og fá flóð af samskonar beiðnum. Viðbrögð þeirra eru einróma: „Ó, ég veit aldrei hvað ég á að segja þegar fólk sem ég veit engin deili á biður mig að verða leiðbeinandi sinn.“ Það felst ákveðið skjall í svona samskiptum, þótt þau séu vandræðaleg. Jafnvel fjölmiðlarisinn Oprah Winfrey, sem hefur kennt heilli kynslóð svo mikið, viðurkennir að sér finnist óþægilegt þegar einhver biður hana að verða leiðbeinandi sinn. Hún skýrði þetta einu sinni svona: „Ég leiðbeini þegar ég sé eitthvað og segi: Ég vil sjá þetta vaxa.“

Að hluta höfum við kallað þetta yfir okkur sjálfar. Á síðustu tíu árum hefur umræðan um leiðbeinendur og stuðningsaðila verið aðalumræðuefni á öllum námskeiðum sem snúa að starfsframa kvenna. Hún er líka í brennidepli í bloggum, dagblaðagreinum og rannsóknarskýrslum. Margar þessara ungu kvenna eru því bara að bregðast við þessum síðendurteknu ráðleggingum um að ef þær vilji komast ofar í metorðastiga fyrirtækja verði þær að finna leiðbeinendur (fólk sem gefur þeim góð ráð) svo og stuðningsaðila (fólk sem notar áhrif sín til að mæla með þeim).[i]

Áherslan sem lögð er á að finna leiðbeinanda kom berlega í ljós þegar ég sneri aftur í Harvard Business School til viðtals vorið 2011. Deildarforsetinn Nitin Nohria bauð mér, og það var hann sem sat með mér á sviðinu og tók við mig viðtalið. Fyrsta spurning hans snerist um Facebook og hvernig það væri að vinna fyrir Mark. Ég sagði honum að ég elskaði það, nema þegar samstarfsmenn mínir segðu hluti eins og: „Sheryl, getur þú litið á þetta? Við þurfum að vita hvað eldra fólki finnst um þessa aðgerð.“ Við töluðum um Arabíska vorið og ýmis önnur málefni sem þá voru á döfinni. Nohria deildarforseti spurði mig svo um konur á vinnumarkaði. Ég veit ekki alveg hvað kom yfir mig, en ég sneri mér að áheyrendum, þagði smástund og svaraði svo af grimmum heiðarleika: „Haldi núverandi tilhneiging á vinnumarkaði áfram mun einn þriðji ykkar kvenna, eftir fimmtán ár héðan í frá, vinna fulla vinnu og þið verðið nánast allar í vinnu hjá gæjanum sem situr við hliðina á ykkur nú.“

Það varð grafarþögn í stórum salnum. Ég hélt áfram: „Mér þykir leitt ef þetta hljómar harðneskjulega eða kemur einhverjum á óvart, en þetta er staðan eins og hún er í dag. Ef þið viljið að útkoman verði önnur þurfið þið að gera eitthvað í því.“

Andrúmsloftið var þvingað þegar Nohria deildarforseti lauk viðtalinu og sneri sér að áheyrendum og bauð upp á spurningar og svör. Nokkur fjöldi karla hljóp að hljóðnemanum og lagði fram úthugsaðar stórhuga spurningar eins og: „Hvað lærðir þú hjá Google sem þú nýtir þér hjá Facebook?“ og „Hvernig rekurðu þrepaskipt fyrirtæki og tryggir stöðugleika hjá forriturum ykkar?“ Svo stóðu tvær konur upp. Sú fyrri spurði: „Telur þú að það sé í lagi að vinna fyrir fyrirtæki sem er í samkeppni við fyrirtækið sem þú vannst fyrir áður en þú fórst í viðskiptaskólann?“ Sú síðari spurði: „Hvernig get ég fundið leiðbeinanda?“ Ég missti hjartað í buxurnar.

Karlmennirnir beindu sjónum að því hvernig ætti að reka fyrirtæki og konurnar að því hvernig þær ættu að stjórna starfsferli sínum. Karlarnir vildu svör og konurnar vildu fá leyfi og aðstoð. Ég gerði mér grein fyrir því að leitin að leiðbeinanda í atvinnulífinu er nú orðin sambærileg því að bíða eftir draumaprinsinum. Við vorum allar aldar upp með ævintýrinu um „Þyrnirós“, sem gefur í raun konum þau ráð að ef þær bara bíði, þá muni prinsinn koma, þær verði kysstar og þeim sveiflað upp á hvíta hestinn svo þær geti lifað hamingjusamar til æviloka. Nú eru ungar konur sannfærðar um að ef þær bara geti fundið rétta leiðbeinandann verði þeim ýtt upp stigann og sveiflað inn í hornskrifstofuna, þar sem þær lifa hamingjusamar til æviloka. Enn einu sinni erum við að kenna konum að vera of háðar öðrum.

Til að hafa allt á hreinu snýst málið ekki um það hvort mikilvægt sé að vera með leiðbeinanda. Leiðbeinendur og stuðningsaðilar geta skipt sköpum svo einhver framgangur verði á starfsferlinum. Bæði karlar og konur sem eiga sér stuðningsaðila eru líklegri til að sækjast eftir nýjum verkefnum og launahækkun en starfsfélagar þeirra af sama kyni sem ekki eru með stuðningsaðila. Til allrar óhamingju fyrir konur eiga karlar oft auðveldara með að öðlast og viðhalda slíkum samböndum. Nýleg rannsókn gefur til kynna að karlar séu mun líklegri en konur til að hafa stuðningsaðila og að þeir sem njóti stuðnings séu mun ánægðari með árangur sinn í starfi.

Þar sem erfiðara er fyrir ungar konur að finna leiðbeinendur og stuðningsaðila er meira um að þær stigi fram og leiti þeirra. Yfirleitt klappa ég fyrir framsækinni hegðun, en stundum ratar þessi orka ekki rétta leið. Alveg sama hversu mikilvægar þessar tengingar eru er ólíklegt að þær þróist út frá því að spyrja einhvern sem er þér nánast ókunnugur: „Viltu vera leiðbeinandi minn?“ Sterkustu slík sambönd byggjast á raunverulegum og oft verðskulduðum tengslum, sem báðir aðilar skynja.

Ég hef verið svo heppin að hafa öfluga leiðbeinendur og stuðningsmenn allan minn starfsferil. Í þessari bók er langur þakkarlisti yfir nöfn þeirra sem hafa verið svo örlátir að leiðbeina mér og ráðleggja. Á fyrsta ári í háskóla sat ég í tímum hjá Larry Summers sem fjallaði um hagfræði opinbera geirans. Hann bauðst til að leiðbeina mér í lokaritgerð minni – nokkuð sem fáir Harvard-prófessorar bjóðast til að gera fyrir háskólastúdenta í grunnnámi. Allt frá þeim tíma hefur Larry spilað stóra rullu í lífi mínu. Ég kynntist Don Graham, stjórnarmanni Washington Post Company, fyrir meira en fimmtán árum þegar ég vann í DC og hann hefur hjálpað mér í sumum af erfiðustu kringumstæðunum á starfsferli mínum. Ef það væri ekki fyrir hvatningu og stuðning frá Pat Mitchell, framkvæmdastjóra Paley Center, hefði ég kannski aldrei talað opinberlega um konur í atvinnulífinu. Þessi þrjú, meðal margra annarra, hafa hvatt mig, kynnt mig fyrir fólki og kennt mér með fordæmi sínu. Viska þeirra hjálpaði mér að forðast mistök – og vinna úr þeim sem ég var ekki nógu klár að forðast.

Í staðinn hef ég reynt að leiðbeina öðrum, þar með talið vinum vina minna, og, eftir því sem ég verð eldri, börnum vina minna. Ég fæ mikla ánægju út úr því að fylgjast með frama Emily White, sem byrjaði að vinna með mér strax eftir háskólanám og sér nú um öll samskipti Facebook við farsímafyrirtækin. Þegar ég kynntist Bryan Schreier fyrst hafði hann hvorki unnið í tæknigeiranum né ferðast til annarra landa, en hann sýndi óvanalega leiðtoga- og greiningarhæfileika. Ég réð hann til að hjálpa til við rekstraruppbyggingu Google víða um heim og hann fór fram úr öllum væntingum. Mörgum áður síðar, þegar hann vildi leita inn á önnur svið sem fjárfestir, kynnti ég hann fyrir núverandi viðskiptafélögum hans hjá Sequoia Capital. Hann er nú sérlega farsæll áhættufjárfestir og ég get séð áhrifin sem hann hefur á fyrirtækin sem hann veitir ráðgjöf. Ég er heppin að hafa Emily og Bryan og marga aðra hæfileikaríka einstaklinga í lífi mínu.

Rannsóknir sýna að leiðbeinendur velja skjólstæðinga í samræmi við frammistöðu þeirra og eftir því hversu efnilegir þeir eru. Ósjálfrátt fjárfestir fólk í þeim sem bera af vegna hæfileika eða sem munu virkilega njóta hags af aðstoðinni. Leiðbeinendur halda áfram að leggja sitt af mörkum ef þeir sem leiðsagnarinnar njóta nýta tímann vel og taka jákvætt í ábendingar. Samskiptin geta leitt til vináttu, þótt grunnur þeirra sé faglegur. Sé gengið út frá þessu held ég að við höfum sent röng skilaboð til ungra kvenna. Við þurfum að hætta að segja þeim: „Finndu þér leiðbeinanda og þú munt skara fram úr.“ Í staðinn þurfum við segja þeim: „Skarið fram úr og þið munuð finna leiðbeinanda.“

Clara Shih er frábært dæmi. Ég hitti Clöru fyrir fimm árum á ráðstefnu og var strax hrifin af hugmyndum hennar um samfélagsmiðla. Hún skrifaði síðar áhugaverða bók um viðfangsefnið og stofnaði Hearsay Social, hugbúnaðarfyrirtæki sem hjálpar fyrirtækjum að halda utan um áhrif sín á samfélagsmiðlunum. Annað slagið hafði Clara svo samband við mig, alltaf með áhugaverðar ábendingar eða úthugsaðar spurningar. Hún bað aldrei um að við hittumst til að „spjalla saman“. Hún spurði mig aldrei neins sem hún hefði ekki getað fundið svör við á eigin spýtur. Þegar ég var að hætta í stjórn Starbucks árið 2012 lét ég þá hafa nokkur nöfn sérfræðinga í samfélagsmiðlum sem gætu komið inn í stjórnina í minn stað, þar á meðal nafn Clöru. Þá var hún einungis tuttugu og níu ára, en henni var boðið í stjórnina.

Þótt það gangi nánast aldrei að biðja einhvern ókunnugan að gerast leiðbeinandi þinn getur það skilað árangri ef þú nálgast viðkomandi með ákveðnar úthugsaðar spurningar. Garrett Neiman náði á mér eftir að ég hélt ræðu í Stanford til að skýra fyrir mér að hann hefði stofnað CollegeSpring, fyrirtæki sem væri ekki rekið í hagnaðarskyni og veitti kennslu um fjarfundabúnað og ráðgjöf fyrir tekjulága nemendur. Hann óskaði eftir að fá að hitta mig og tók skýrt fram að hann þyrfti aðeins á fáeinum mínútum af tíma mínum að halda til að biðja mig að kynna sig fyrir fólki sem gæti hjálpað honum að stækka fyrirtæki sitt. Hann hafði unnið heimavinnuna sína og vissi að mér er mjög umhugað um menntun. Á fyrsta fundi okkar og í öllum samskiptum síðan hefur Garrett sýnt tíma mínum mikla virðingu. Hann er líflegur, einbeittur og kurteis. Og hann fylgir málum alltaf eftir og lætur mig vita um árangur af samræðum okkar.

Hægt er að ná athygli eða ímyndunarafli einhvers á einu augnabliki en einungis þegar það er vel skipulagt og sniðið að þeim einstaklingi. Að nálgast einhvern með óljósa spurningu eins og: „Hvernig er menningin hjá Facebook?“ sýnir meiri fáfræði en áhuga á fyrirtækinu, þar sem hægt er að finna hundruð greina sem veita svörin. Undirbúningur er einkar mikilvægur þegar leitað er eftir starfi. Þegar ég yfirgaf fjármálaráðuneytið gaf Josh Steiner, fyrrverandi starfsmannastjóri þess, mér frábært ráð um hvernig leita ætti að starfi. Hann sagði mér að finna út hvað ég vildi geraáður enég færi að hitta fólk sem væri í aðstöðu til að ráða mig. Á þann hátt myndi ég ekki sóa þessu eina tækifæri í að leita almennra upplýsinga, heldur geta rætt um ákveðin tækifæri sem þeir byðu upp á.

Hlutverk leiðbeinandans er oft gagnkvæmara samband en það virðist vera, einkum í kringumstæðum þar sem fólk vinnur nú þegar í sama fyrirtæki. Sá sem nýtur leiðsagnar fær oft beina aðstoð, en leiðbeinandinn nýtur líka góðs af, til dæmis í gegnum nytsamlegar upplýsingar, meiri hollustu frá samstarfsfélögum og ánægju og stolti. Félags- og sálfræðingar hafa löngu komið auga á djúpa þörf okkar til að taka þátt í gagnkvæmum athöfnum. Sú staðreynd að mannfólkinu finnst það skuldbundið til að endurgjalda greiða hefur verið rökstudd í nánast öllum samfélögum og rennir stoðum undir ýmiss konar félagsleg samskipti. Samskiptin milli leiðbeinanda og þess sem nýtur leiðsagnar eru þar engin undantekning. Séu þau byggð á réttum grunni blómstra allir.

Erin Burnett, sem nú er vel þekktur fréttamaður CNN, þakkar Willow Bay, sem lengi var sjónvarpsfréttamaður og ritstjóri, fyrir að hafa leiðbeint sér þegar hún hóf feril sinn. Willow var þá nýráðin aðalfréttaþulurMoneylineen hafði ekki mikla reynslu af fjármálum. Erin hafið unnið hjá Goldman Sachs, sem gerði það að verkum að hún var tilvalin sem aðstoðarmaður Willow. Metnaður, vinnusiðferði og hæfileikar Erin gerðu það að verkum að Willow þótti mikið til hennar koma. Í starfinu fékk Erin að fylgjast með klókum, reyndum fréttamanni í návígi. Hvor um sig naut ávinnings af sérfræðikunnáttu hinnar.

Justin Osofsky vakti athygli mína fyrir mörgum árum hjá Facebook þegar ég var að undirbúa mig fyrir fyrsta yfirmannafund okkar með Walt Disney-fyrirtækinu. Öll teymin okkar, þar með talin söludeild, viðskiptaþróunardeild og markaðsdeild, höfðu lagt fram hugmyndir um samstarf, en enginn hafði samræmt þær, sem gerði það að verkum að kynning okkar var laus í reipunum og ómeðfærileg. Í stað þess að leggja bara fram sinn hluta kynningarinnar tók Justin frumkvæðið að því að kalla allan hópinn saman og samþætta allar hugmyndirnar. Frá þeim tíma hef ég verið „leiðbeinandi“ hans, sem í þessu tilviki þýðir að ég leita oft til Justins þegar leysa þarf vandamál. Þetta hjálpar fyrirtækinu og skapar honum stöðugt ný tækifæri.

Snilldarframmistaða verður oft til þess að vekja athygli yfirmanna en er samt ekki eina leiðin til að finna leiðbeinanda. Ég hef séð lægra setta starfsmenn ná af hvatvísi sinni stuttri stund með virtum og uppteknum yfirmanni á göngunum til að leita ráða. Samskiptin ganga hratt fyrir sig. Eftir að hafa fylgt þeim ráðum fylgir hinn verðandi nemi hlutunum eftir með því að þakka fyrir sig og notar um leið tækifærið til að leita frekari leiðsagnar. Án þess að gera sér grein fyrir því verður yfirmaðurinn viðriðinn málið og fær áhuga á starfsframa þessa lægra setta starfsmanns. Orðið „leiðbeinandi“ er aldrei í umræðunni. Samskiptin eru mun mikilvægari en stimpillinn sem á þau er settur.

Stimpilinn sjálfan má svo túlka á marga vegu. Í mörg ár hafði ég auga með einstaklega hæfileikaríkri ungri konu í teyminu mínu hjá Google og ráðlagði henni í hvert skipti sem hún þurfti að taka stórar ákvarðanir. Ég notaði aldrei orðið „leiðbeinandi“, en ég eyddi miklum tíma í að styðja hana og styrkja. Ég varð því undrandi dag nokkurn þegar hún lýsti því yfir að hún hefði „aldrei verið með leiðbeinanda eða nokkurn sem hefði virkilega borið hag hennar fyrir brjósti.“ Ég spurði hana hvað leiðbeinandi væri í hennar huga. Hún útskýrði að það væri einhver sem hún talaði við í að minnsta kosti eina klukkustund á viku. Ég brosti og hugsaði með mér:Það er ekki leiðbeinandi – það er sálfræðingur.

Fáir leiðbeinendur hafa tíma til að halda stanslaust í hönd einhvers. Flestir takast þeir á við mikið álag í starfi. Sá sem nýtur leiðsagnar og er jákvæður og vel undirbúinn getur lýst upp daginn þinn. Af sömu ástæðu ættu þeir sem njóta leiðsagnar að forðast að kvarta látlaust við leiðbeinandann. Sé tími leiðbeinandans notaður til að meta tilfinningar getur falist sálræn hjálp í því, en betra er að einbeita sér að ákveðnum vandamálum með raunverulegum lausnum. Flestir þeir sem geta tekið að sér hlutverk leiðbeinandans eru leiknir í að leysa vandamál. Fáið þeim því vandamál til að leysa. Stundum eiga efnilegar konur erfitt með að biðja um hjálp því þær vilja ekki líta út fyrir að vera hjálparvana. Ein eðlilegasta tilfinning í heimi er sú að vera óviss um hvernig halda skal áfram. Þannig líður mér nánast alltaf. Sé leitað eftir tillögum er það ekki merki um veikleika, heldur oft fyrsta skrefið að því að finna úrlausn.

Tengsl milli leiðbeinenda og stuðningsaðila verða oft milli einstaklinga sem hafa sameiginleg áhugamál eða þegar nýliðarnir minna þá eldri á þá sjálfa. Þetta þýðir að karlmenn hneigjast oft til þess að leiðbeina yngri mönnum sem þeir eiga auðvelt með að tengjast. Þar sem það eru svo miklu fleiri karlmenn en konur í efstu þrepum hverrar atvinnugreinar heldur hinn margrómaði karlaklúbbur áfram að blómstra. Og þar sem það eru frekar fáar konur í forystuhlutverkum eiga ungar konur ekki auðvelt með að fá stuðning, nema karlmenn sem hærra eru settir leggi líka sitt af mörkum. Við þurfum að benda karlmönnum í forystuhlutverkum á þennan skort og hvetja þá til að víkka út hringinn sinn.

Dásamlegt er þegar eldri karlmenn í stjórnunarstöðum leiðbeina konum og jafnvel enn betra þegar þeir verja þær eða veita þeim stuðning. Sérhver karlmaður í forystuhlutverki sem vill í alvöru vinna að meira jafnrétti í heiminum getur gert þetta að forgangsmáli hjá sér og verið þannig hluti af lausninni. Í raun ætti það að vera heiðursmerki fyrir karlmenn að styðja við konur. Og þar sem við vitum að mismunandi sjónarhorn auka afköstin ættu fyrirtæki að hlúa að og verðlauna slíkt atferli.

Auðvitað eru alltaf einhver varasöm atriði sem taka þarf á, þar á meðal áætlaður kynferðislegur núningur í samskiptum karla og kvenna. Eitt sinn meðan ég starfaði í fjármálaráðuneytinu ferðuðumst við Larry Summers saman til Suður-Afríku, þar sem við hreiðruðum um okkur í dagstofunni í hótelsvítunni hans til að vinna að ræðu hans um fjármálastefnu sem halda átti næsta dag. Þreytt eftir flugið og ómeðvituð um tímamismuninn tókum við allt í einu eftir því að klukkan var þrjú að nóttu. Við vissum bæði að það liti hræðilega út ef einhver sæi mig yfirgefa hótelsvítuna hans á þeim tíma sólarhrings. Við ræddum kostina. Kannski hann ætti að kanna hvort það væri einhver á ganginum? Svo gerðum við okkur grein fyrir því að við vorum í klemmu, því það er enginn munur á því að reyna að komast óséður úr hótelherbergi einhvers seint um nótt og því aðyfirgefahótelherbergi einhvers seint um nótt. Ég skálmaði því út í (sem betur fer) mannlausan ganginn og komst í herbergið mitt óséð.

Yngri konur á vinnumarkaði og karlar í yfirmannsstöðum forðast oft leiðbeinenda- eða stuðningssambönd af ótta við hvað aðrir myndu halda. Rannsókn sem birt var í Center for Work-Life Policy og Harvard Business Review greindi frá því að 64 prósent karla sem starfa sem varaforsetar eða ofar í metorðastiganum eru hikandi við að eiga maður-á-mann-fund með konu í lægri stöðu. Og helmingur kvenna í lægri stöðum forðast að sínu leyti að eiga í nánum tengslum við karla í yfirmannsstöðum. Þessum undanfærslum þarf að linna. Persónuleg tengsl leiða til verkefna og stöðuhækkana, svo það þarf að vera í lagi fyrir karla og konur að eyða óformlegum tíma saman, á sama hátt og karlar gera. Litið er á karlmann í yfirmannsstöðu og karlmann í undirmannsstöðu sem sitja saman á bar sem um leiðsögn sé að ræða. Leiðsögn getur líka farið fram á milli karlmanns í yfirmannsstöðu og konu í undirmannsstöðu sem sitja saman á bar … en það lítur út eins og stefnumót. Sú túlkun heldur aftur af konum og býr til tvöfalda klemmu. Reyni konur að skapa gott samband við karlkyns leiðbeinanda eiga þær á hættu að verða aðalumtalsefni vinnustaðarins. Reyni konur að komast efst í metorðastigann, án stuðnings frá öðrum, hægir oft á starfsframa þeirra. Við getum ekki gert ráð fyrir að samskipti karla og kvenna séu alltaf á kynferðislegum nótum. Og allir sem að málinu koma þurfa að haga sér fagmannlega, svo konum – og körlum – finnist þau örugg undir öllum kringumstæðum.

Bob Steel, sem starfaði í framkvæmdastjórn Goldman Sachs undir lok síðustu aldar, kom auga á þetta vandamál og kom með aðdáunarverða lausn. Steel, sem sjálfur var faðir þriggja stúlkna, sagði á þjálfunarnámskeiði innan bankans að hann væri með „einungis morgun- eða hádegisverðarstefnu“ gagnvart starfsmönnum, því honum fyndist óþægilegt að fara út að kvöldi til með kvenkyns starfsmönnum en vildi veita báðum kynjum aðgang að sér. Sharon Meers, sem vann hjá Goldman á þessum tíma, sagði að nokkurt fjaðrafok hefði myndast í kringum ákvörðun Steels, en henni fannst fordæmi hans frábært. Allt sem getur leitt til jafnra tækifæra fyrir karla og konur á rétt á sér. Sumir ná þeim árangri með því að setja sér stefnu um engan kvöldverð; aðrir geta sett sér stefnu um kvöldverð-með-hverjum-sem-er. Hvort heldur sem er þurfum við verklag sem má nota jafnt fyrir bæði kynin.

Mörg fyrirtæki eru farin að færa sig frá óformlegum leiðbeinendum sem treysta á frumkvæði einstaklingsins yfir í skipulögð námskeið. Þessi formlegu leiðbeinenda-/stuðningsverkefni geta skilað ótrúlegum árangri. Uppbyggileg námskeið losa líka konur í undirmannsstöðum undan þeim þrýstingi að þurfa að spyrja: „Ert þú leiðbeinandi minn?“ Ein rannsókn sýndi að konur sem fundu leiðbeinendur í gegnum formleg námskeið voru helmingi líklegri til að fá stöðuhækkun en konur sem fundu sér leiðbeinendur á eigin spýtur.[ix] Áhrifamestu námskeiðin sýndu karlmönnum fram á þörfina á að leiðbeina konum og koma á viðmiðunarreglum um viðeigandi hegðun. Þessi námskeið geta verið tilvalin leið til að koma ákveðnu samræmi á samskipti milli karla í yfirmannsstöðum og kvenna í undirmannsstöðum.

Almenn leiðbeinendanámskeið nægja ekki ein og sér en nýtast vel ef þeim er blandað saman við annars konar þróunarvinnu og þjálfun. Gott dæmi erLeading to WIN Women‘s Initiativehjá Deloitte. Fyrirtækið hafði þegar komið á fót verkefni til stuðnings kvenkyns starfsmönnum, en konur skorti á þeim tíma enn í efstu þrep fyrirtækisins. Þetta ýtti við Chet Wood, forstjóra Deloitte Tax, að spyrja: „Hvar eru allar konurnar?“ Sem svar við þeirri spurningu setti Deloitte á laggirnar þróunarverkefni fyrir stjórnendur árið 2008. Verkefnið beindi sjónum að kvenkyns stjórnendum innan skattadeildarinnar sem áttu í vændum stöðuhækkun. Hverri konu var útvegaður stuðningsaðili, fékk stjórnendamarkþjálfun, fékk að vera í skuggaráðuneyti framkvæmdastjórnarinnar og tók að sér alþjóðleg verkefni. Tuttugu og ein kona tók þátt í upphafshópnum og af þeim hafa átján fengið stöðuhækkun.

Eins hjálpleg og svona formleg verkefni geta verið standa þau ekki alltaf til boða og stundum eru yfirmenn ekki fáanlegir til að veita leiðsögn. Góðu fréttirnar eru að leiðsögn má fá víða. Þegar ég gekk fyrst til liðs við Facebook var ein af mínum helstu áskorunum sú að setja upp nauðsynlega viðskiptaferla án þess að skaða óþvingaða menningu fyrirtækisins. Fyrirtækið var rekið á miklum hraða, mistök voru ásættanleg og margir voru hræddir um að ég myndi ekki bara eyðileggja teitið, heldur líka bæla nýsköpunina. Naomi Gleit hafði gengið til liðs við Facebook beint úr grunnnámi í háskóla nokkrum árum áður. Sem einn af fyrstu starfsmönnum Facebook hafði hún djúpan skilning á því hvernig starfsemi fyrirtækisins fór fram. Við Naomi urðum nánar. Ég þori að veðja að flestir, þar með talið Naomi sjálf, töldu að ég væri að leiðbeina henni. Hið rétta er að hún leiðbeindi mér. Hún hjálpaði mér að innleiða þær breytingar sem nauðsynlegar voru og tók fram fyrir hendurnar á mér þegar ég stefndi í ranga átt. Naomi sagði mér alltaf sannleikann, jafnvel þegar hún taldi að það yrði mér erfitt að heyra hann. Hún gerir það enn þann dag í dag.

Jafningjar geta líka leiðbeint og stutt hver annan. Sagt er að „öll ráð séu sjálfsævisöguleg“. Vinir sem staddir eru á svipuðum stað á starfsferli sínum geta oft veitt hver öðrum betri og nytsamari ráð. Nokkrir af eldri leiðbeinendum mínum réðu mér frá því að taka starfið hjá Google árið 2001. Á sama tíma sáu allir jafnaldrar mínir tækifærin í Kísildalnum. Jafnaldrar eru líka í skotgröfunum og skilja hugsanlega vandamál sem yfirmenn skilja ekki, einkum þegar þau vandamál eru búin til af yfirmönnunum sjálfum.

Sem fulltrúi hjá McKinsey & Company var fyrsta verkefni mitt í teymi sem í var karlkyns stefnumótunarstjóri (SMS) og tveir aðrir karlkyns fulltrúar, Abe Wu og Derek Holley. Þegar SMS vildi tala við Abe eða Derek gekk hann yfir að skrifborðum þeirra. Þegar hann vildi tala við mig sat hann við skrifborðið sitt og kallaði: „Sandberg, komdu hingað!“ í tóntegund sem maður myndi nota til að kalla á barn eða hund. Ég fékk grænar bólur í hvert sinn sem þetta gerðist. Ég sagði aldrei neitt, en dag nokkurn fóru Abe og Derek að kalla hvor annan „Sandberg“ í sömu háu tóntegundinni. Hinn sjálfumglaði SMS virtist ekki taka eftir því. Þeir héldu áfram. Þegar það leiddi til ruglings að hafa of marga Sandberga ákváðu þeir að aðgreina sig. Abe fór að kalla sig „asíska Sandberg“, Derek uppnefndi sig „glæsilega Sandberg“ og ég varð „Sandberg Sandberg“. Samstarfsmenn mínir sneru hræðilegum kringumstæðum mér í hag. Þeir stóðu með mér og fengu mig til að sjá hið hlægilega við kringumstæðurnar. Þeir voru bestu leiðbeinendur sem ég hefði getað fengið.

En sjaldan er ein báran stök, því í þessu sama verkefni vildi aðalmaðurinn í viðskiptavinahópnum endilega koma mér og syni sínum saman. Hann lýsti þessum ásetningi sínum yfir fyrir framan teymi sitt aftur og aftur. Ég vissi að hann meinti þetta sem hrós, en það gerði lítið úr faglegu valdi mínu. Hvernig gat ég fengið viðskiptavini mína til að taka mig alvarlega ef yfirmaður þeirra var sífellt að minna alla á að ég væri á sama aldri og sonur hans – og að ég ætti að fara á stefnumót með honum? Dag nokkurn safnaði ég kjarki og bað um að fá að tala einslega við hann. Ég sagði honum (kurteislega) að mér fyndist ekki viðeigandi að hann héldi áfram að minnast á son sinn. Hann eyddi því með hlátri og hélt áfram viðteknum hætti.

Eftir að hafa reynt að takast á við málið sjálf fór ég til yfirmanns míns – hins eina sanna „Sandberg“-hrópandi SMS. Hann hlustaði á kvörtun mína og sagði mér svo að ég ætti að hugsa um hvað ég væri „að gera með því að senda þessi merki“. Jebb, þetta var mér að kenna. Ég sagði hinum tveimur Sandbergunum frá þessu og þeim fannst þetta algjört hneyksli. Þeir hvöttu mig til að ganga framhjá SMS-inum og tala við einn af aðaleigendunum, Robert Taylor. Robert skildi undir eins vanlíðan mína. Hann sagði mér að þeir sem væru öðruvísi (hann var af afrísk-amerískum uppruna) þyrftu stundum að minna fólk á að sýna sér virðingu. Hann sagðist vera ánægður með að ég skyldi sjálf hafa talað við viðskiptavininn og að hann hefði átt að taka mark á mér. Í framhaldinu talaði hann við viðskiptavininn og útskýrði fyrir honum að þessari hegðun þyrfti að linna. Hann talaði líka við yfirmann minn SMS um tillitslaus viðbrögð hans. Ég var yfir mig þakklát fyrir þá vernd sem Robert veitti mér. Ég vissi nákvæmlega hvernig unganum leið þegar hann fann að lokum móður sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál