„Ég er heilluð af Marel, Wow air og Nova“

Sandra Ósk fer sínar leiðir og er áhugaverður leiðtogi í …
Sandra Ósk fer sínar leiðir og er áhugaverður leiðtogi í leit að vinnu. Ása Steinarsdóttir

Framadagar eru haldnir með pompi og prakt fimmtudaginn 8. febrúar næstkomandi í Háskólanum í Reykjavík. Þar koma saman yfir 80 fyrirtæki úr öllum greinum landsins að kynna starfsemi sína og atvinnumöguleika. Verkefnastjóri Framadaga er að þessu sinni Sandra Ósk og heillaði hún blaðamann upp úr skónum með mjög óvenjulegri fréttatilkynningu og aðferðum sem ekki þykja venjulegar en greinilega virka.

Vildi valdefla aðra í svipaðri stöðu

Aðspurð um tilurð þess að hún tók að sér þetta verkefni segir Sandra að hún hafi verið að leita sér að rétta starfinu í byrjun síðasta árs og hafi farið eftir hefðbundnum leiðum. 

„Mér fannst bara ekki vera að virka fyrir mig. Ég vildi með þessu verkefni, valdefla ungt fólk til að finna sér réttu vinnuna, kynnast fyrirtækjum á sem flestum sviðum og tengja aðila á rétta staði með leiðum sem ég hef trú á,“ segir hún. 

Sandra segir viðburðinn stílaðan á ungt fólk sem sé að ljúka námi og farið að huga að næsta skrefi, en að sjálfsögðu eru allir velkomnir en aðal skipuleggjandi dagsins er AIESEC, samtök sem sérhæfa sig í leiðtogaeflingu ungs fólks.

Sandra stýrir hópi af alþjóðlegu teymi sem kemur að undirbúningi viðburðarins. „Það hefur verið mögnuð reynsla að leiða þennan hóp í sex  mánuði. Ég er kennari að mennt sjálf og starfaði sem slíkur frá 23 ára aldri. Einnig er ég Dale Carnegie þjálfari og lauk nýverið MPM námi frá HR. Í þessu verkefni hef ég getað notað alla mína reynslu, bæði úr starfi og náminu og það hefur gengið ótrúlega vel að ná til fyrirtækjanna í landinu sem hafa svo sannarlega áhuga á að kynna starfsemina sína fyrir ungu kynslóðinni.“

Á meðal fyrirtækja á Framadögum verða Marel, NetApp, Vodafone, Samskip, Stjórnarráðið, Icelandic Startups, Rannís og Wow Air svo einhver séu nefnd. Einnig stóru verkfræðistofurnar sem og fyrirtæki sem eru að sækja í iðnmenntað fólk að sögn Söndru.

Sett í kassa

En hvernig hefur reynsla hennar verið af því að sækja um stöður sjálf? „Hún hefur verið áhugaverð en ég er hugsi með margt í þessu ferli. Sem dæmi þá erum við með þá hugsun í skólakerfinu að við viljum leyfa einstaklingnum að vaxa og dafna á eigin forsendum, vera skapandi og einstakur á sinn hátt. Þetta er rauður þráður í gegnum skólagönguna og í þessu kerfi hef ég 10 ára reynslu í starfi. Svo þegar maður kemur út á vinnumarkaðinn og byrjar að sækja um störf, finnur maður hvernig það ferli ýtir töluvert á það að setja fólk aftur inn í einhvern kassa, að vera svona eða hinsegin, gerðu þetta en alls ekki hitt. Maður fær mörg misjöfn ráð sem beina manni í allskonar áttir sem veldur því að maður verður áttavilltur. Það er því mikilvægt að hafa bein í nefinu í þessu ferli,  passa að vera maður sjálfur en hugsa einnig um hvernig maður vill koma fyrir og hvaða hughrif maður vill skilja eftir hjá fólki sem maður byggir upp tengsl við í atvinnuleitinni,“ segir hún og bætir við:

„Sem dæmi þegar við sjáum atvinnuauglýsingar þar sem auglýst er eftir aðila með framúrskarandi samskiptahæfileika, leiðtogahæfni o.s.frv. er algengt að um stöðurnar sækja kannski 200 manns. Fólk með félagsfræðilegan bakgrunn, virðist detta fljótt út í þessu umsóknarferli, og þar með er ekki verið að setja í forgrunn hæfni til að mæta fólki þar sem það er, eða hæfni í persónulegum samskiptum.“

Með óbilandi ástríðu fyrir að hjálpa fólki

Hvernig starfi leitar þú að?

„Ég er með óbilandi ástríðu fyrir að hjálpa fólki, vinna með því og að valdefla það til góðra verka. Ég vann um árabil með börnum með hegðunarvanda, börn sem voru sett á hliðarlínuna í samfélaginu og höfðu oft stimpil fyrir að vera óþekk eða erfið. Þaðan kviknaði ástríðan mín fyrir því að mæta fólki þar sem það er og hjálpa þeim að ná árangri á sinn hátt í lífinu.“

Sandra segist því koma úr grein þar sem mikill skortur er á starfsfólki. Hún er hrifin af nýjungargjörnum fyrirtækjum, sem eru tilbúin að fara nýjar og öðruvísi leiðir til að mæta þörfum viðskiptavina sinna.

„Ég er heilluð af Marel, Wow air og Nova svo eitthvað sé nefnt. Þau eru að mínu mati einstök á sínu sviði þegar kemur að þjónustu og tækni.“

Komið vel undirbúin á Framadaga

Hvað vill Sandra segja við þá aðila sem eru að leita sér að starfi og hafa hug á að mæta á Framadaga?

„Verið vel undirbúin þegar þið mætið á fimmtudaginn. Komið endilega með ferilskrána ykkar og sækið um hjá þeim fyrirtækjum sem ykkur líkar vel við. Verið dugleg að spyrja og komast að því hvaða fyrirtæki eru á ykkar línu. Sýnið einlægan áhuga og stofnið til samtals á þeim básum sem þið heimsækið. Takið Framadögum með opnum hug því markmiðið með honum er að tengja fólk við réttu störfin.“

Sandra bendir á heimasíðu Framadaga  þar sem hægt er að finna nánari upplýsingar um viðburðinn.

En hvernig lýsir Sandra sér í atvinnuviðtali með einni setningu?

„Ef ég ætti að lýsa mér, þá myndi ég segja að ég væri drífandi og fær í að láta hlutina gerast. Ég hef með árunum eflt hæfni mína svo um munar í því að fá fólk til að vinna saman að ákveðnum markmiðum. Bæði með því að æfa mig í að vera betri í samskiptum sjálf, að mæta fólki þar sem það er en einnig með því að æfa leiðtogahæfni mína. Ég tek fólki eins og það er, og vinn út frá því. Reyni að skilja fólk og verkefni og vinn þannig hlutina áfram.“

Það er án efa ekki ein setning sem lýsir þessari orkumiklu framakonu að fullu, en við hvetjum alla í atvinnuleit að láta sig ekki vanta á Framadaga næstkomandi fimmtudag. Já og auðvitað fyrirtæki sem eru að leita sér að framúrskarandi samskiptamanneskju og leiðtoga að skoða ferilskrá Söndru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál