Njóttu lífsins núna, þetta er ekki æfing!

Rósa María Ingunnardóttir er ótrúlega sterk og reynslumikil kona.
Rósa María Ingunnardóttir er ótrúlega sterk og reynslumikil kona. Eggert Jóhannesson

Rósa María Ingunnardóttir er ótrúlega sterk og falleg kona. Hún er ein af þeim sem þú myndir vilja sigla með í lífsins ólgusjó, því hún kann að sigla í allskonar veðrum. Í viðtalinu lýsir hún því hvernig kulnun í starfi getur verið gjöf ef þú vinnur rétt úr því.

Rósa María er kerfisstjóri Kynnisferða. Hún á eina dóttur, sem heitir Katrín Ýr og er 17 ára gömul. Áhugasvið Rósu Maríu er vítt og breytt. Hún er ein af fáum konum sem blaðamaður hefur talað við sem er með svona langan lista af því sem hún elskar að gera. Ástæðan er án efa að finna í lífssögu þessarar sterku konu. 

Með margskonar áhugamál

„Ég hef áhuga á að ganga fjöll, hjóla skoða hella, ferðast og fara jöklaferðir. Einnig nýt ég þess að skíða og skauta svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún.

Hefðbundinn dagur í lífi Rósu er þannig að hún mætir til vinnu klukkan átta á morgnana. En eftir vinnuna fer hún út að hjóla, í fjallgöngu, sund, eða hvað annað sniðugt sem henni dettur í hug. „Ef það er vont veður þá fer ég stundum í hellaferð. Það er sjaldan dagur sem ég geri ekki neitt. Ég er alltaf á flakki. Ég hitti mikið vinkonu mínar og dreg þær með mér upp á fjöll. Helgarnar fara mestar í að njóta hjá mér. Að keyra eitthvað í burt og skoða náttúru íslands. Eða 5-6 tíma fjallgöngur,“ segir hún.

Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

„Eftir mikla vinnu í sjálfri mér þá komst ég að því einn daginn að mig vantar ekkert, mig langar í fullt en ekkert sem mig vantar. Ég gleymi aldrei þeim degi sem ég uppgötvaði að ég gæti gert það sem ég vil, ég þyrfti bara að gera það. Stundum þurfti ég að safna fyrir því, stundum bara skrá mig og mæta og þá fann ég frelsið. Frelsi til að gera það sem mig langar. Það skiptir miklu máli. En auðvitað er dóttir mín það allra mikilvægasta. En hún er bara fullkomin að mínu mati. Mjög heilbrigð og reglusöm stúlka sem gengur vel í lífinu og í skólanum.“

Að lifa í augnablikinu

Rósa María telur mikilvægast að geta verið í augnablikinu, að njóta og lifa hverja mínútu. „Móðir mín var vanmáttug gagnvart lífinu og mjög oft óttaslegin. Því miður þá endaði lífsganga hennar með krabbameini sem var erfitt að ganga í gegnum með henni. En þessi lífsreynsla kenndi mér að ég verð að taka aðra afstöðu til lífsins og leyfi mér því ekki að óttast neitt í dag. Ég vil frekar þakka og lifa í kærleikanum.“

Aðspurð um hvað hún ætlar að gera í sumarfríinu sínu segir hún.Ég ætla að ganga hringinn í kringum Mont Blanc. Ég stefnir að því að fara í 4 daga göngu um Herðubreið og kverkfjöll. Síðan langar mig að hjóla um allt land og auðvitað að njóta.“

Upplifði kulnun í starfi

Það er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar spjallað er við Rósu Maríu að hún hafi upplifað kulnun í starfi. „Ég varð fyrir mörgum áföllum á stuttum tíma, ég var í slæmu ástarsambandi og ein með stúlkuna mína. Áföllin höfðu áhrif á andlega og líkamlega heilsu mína eins og við upplifum svo mörg sem eigum þessa sögu. Ég hreinlega gat bara ekki meira. Ég gat ekki mætt í vinnu, ég gat ekki farið út húsi eða framúr rúmi. Hausinn á mér var á fullu allan sólahringinn og ég grét mikið. Ég vildi ekki hitta fólk, ég vildi stundum ekki vera til. En þetta var ekki það sem ég vildi, það var það eina sem ég vissi.“

Hvaða áhrif hafði þetta ástand á líf þitt?

„Ég þurfti að hætta að vinna, sem var erfitt en samt það besta sem ég gerði á þeim tíma. Það var mikil skömm og vonleysi að þurfa að taka þetta skref. En eitthvað hjálpaði mér áfram. Ég vissi bara að ég vildi ekki vera á þessum stað, ég reyndi að fara á námskeið og leita mér aðstoðar eins og ég gat.

Tekjumissir og einangrunin mikil

Tekjumissir var mikill, einangrunin varð mikil og skömmin líka. Vonleysi helltist yfir mig og mér fannst ég ekki geta eða kunna neitt á þessum stað í lífinu.“

Hvernig tókstu á við þessa áskorun?

„Ég var lengi hjá sálfræðing, ég var einnig hjá Virk sem aðstoðaði mig að komast aftur á fætur, og fara í nám. Eitt af því besta sem ég hef gert er að taka Strong áhugasviðsprófið sem ég gerði á þessum tíma. Það hjálpaði mér að finna hvað mig langaði til að gera í lífinu og hvað mig langaði að verða. Ég fór í nám og vann hörðum höndum að komast hingað sem ég er í dag.

Nám er gríðarlega mikil vinna, dýrt og erfitt. En maður uppsker það sem maður sáir. Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið.

Útivera hjálpaði mikið

Útivera hefur einnig hjálpað mér gríðarlega mikið. Það hefur oft verið erfitt að koma sér út. En eftirá þá er það best.“

Rósa er ein af þeim sem á fjölmörg áhugamál sem …
Rósa er ein af þeim sem á fjölmörg áhugamál sem hún sinnir daglega. Eggert Jóhannesson

Hvernig kemur Virk að málum sem þessum?

„Fyrst var það frekar erfið reynsla að koma inn til þeirra. Ég var í endalausum viðtölum og greiningum. Þau buðu mér að fara á hin ýmsu námskeið, sum þeirra voru alls ekki að henta mér. En þegar ég fór að sjá smá ljós og í samráði við ráðgjafa og sálfræðing þá fundum við saman hvað hentaði mér. Þau aðstoðuðu mig með sundkort, sálfræðing, námskeið, nám, áhugasviðspróf og fleira. Ég á þeim mikið að þakka, þau höfðu trú á mér allan tímann. Ég mætti í alla tíma þó það hefði verið áskorun fyrir mig á þeim tíma. En bara að þau höfðu svona mikla trú á mér var það sem hjálpaði. Mér fannst öllum vera sama um mig nema þeim. Vinnan var mikil og erfið. En ljósið stækkaði með hverri vikunni sem leið. Þó svo ég væri komin á vinnumarkað þá héldu þau áfram að vera í sambandi og halda utan um mig. Það var mikil umhyggja og styrkur í því.“

Hvetur þá sem eru með einkenni kulnunar áfram

Hvaða ráð gefur þú þeim sem finna fyrir einkenni kulnunar í starfi?

„Ég vil bara hvetja þá til að fá aðstoð, því hana er að finna. Fáðu aðstoð við að finna hvað þig langar til að gera með líf þitt, allir eiga sér drauma, vonir og þrár. Mig grunaði aldrei að ég kæmist á þann stað sem ég er í dag. Í dag er ég að lifa mína drauma, þeir hafa ræst því ég hef látið þá rætast. 

Eins vil ég nefna að ég fór í gegnum mitt verkefni án þess að fá lyf, en með góða aðstoð frá sérfræðingum. Þannig upplifði ég allar tilfinningar sem var auðvitað áskorun, en ég mæli með því. Ég ákvað að skilja ekkert eftir, þar sem ég vildi klára þennan kafla í lífinu mínu eins vel og hægt var. Áfallameðferð MDR er það besta sem ég hef gert. Þó það hljómi kannski ekki þannig, en svona vinna gerir þig ótrúlega sterkan þegar þú hefur farið í gegnum hana, lært og eflst.“

Ég get allt sem ég vil

Hvað gaf þessi reynsla þér sem þú nýtir daglega?

„Hún gaf mér þá reynslu að ég set mér markmið og næ þeim í dag. Ég get allt sem ég vil og langar. Draumar geta ræst og ég er mun sterkari en ég held. Hreyfing hjálpar líka. Að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Að rífa mig ekki niður.“

Hvernig geta áskoranir gert mann sterkari í dag heldur en í gær?

„Það er þegar þú sigrar áskoranirnar, kemst á toppinn, sama hversu erfiðar þær eru. Ég var ekki viss um að ég kæmist Hvannadalshnjúk því mér fannst ég ekki hafa nógu mikið þol. Hugurinn bar mig alla leið, ég er en að lifa á því að hafa komist á toppinn, fyrst ég gat þetta þá get ég allt. Ég var síðust upp, en fyrst niður og ég reif mig ekki niður fyrir það.“

Eitthvað að lokum?

„Njóttu lífsins núna, þetta er ekki æfing.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál