Einfaldar leiðir til að auka tekjurnar

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Margir eru í þeim sporum að geta ekki aukið tekjurnar á núverandi vinnustað. Þar geta legið ýmsar ástæður að baki. Ein gæti verið sú að fyrirtækið hefur ekki bolmagn til að greiða hærri laun en þú sættir þig við núverandi launakjör í von um að bráðum komi betri tíð,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching í sínum nýjasta pistli: 

Önnur ástæða gæti verið að þú gegnir stjórnendastöðu og kemst hvorki hærra í metorðastiganum né á launaskalanum. Launin eru jafnvel samkeppnishæf á markaði – en greiðslubyrði þín er það þung að lítið má út af bera. Þetta á sérstaklega við á þessum árstíma þegar jólahátíðin er á næsta leiti og útgjöldin meiri en ella. Það er nefnilega sama hversu há launin eru, það getur reynt á þolrifin að hafa aðeins úr ákveðnu að moða.

En hvað er til ráða til að auka tekjurnar?

Sumir vinna aukavinnu til hliðar við aðalstarf. Þessi vinna er þá gjarnan unnin á kvöldin og/eða um helgar. Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa vankosti í för með sér, til dæmis mikið álag og takmarkaðan hvíldartíma. En þetta er þó leið til að auka tekjurnar og margir velja hana, að minnsta kosti tímabundið.

Önnur leið til að auka tekjurnar hefur færst í aukana á undanförnum árum og hún er sú að leigja út íbúðarhúsnæði sitt að hluta til. Þessi leið er sérstaklega vinsæl hjá þeim sem deila forræði og hafa börnin hjá sér aðra hverja viku. Þá viku sem fólk er barnlaust, flytur það þá gjarnan út úr húsnæði sínu og leigir það út til ferðafólks í nokkra daga í senn. Þessi leið er vel til þess fallin að auka tekjurnar en hentar þó ekki öllum.

Deilihagkerfið býður ýmsa aðra valkosti til tekjuöflunar og ein er sú að leigja út bílinn sinn. Þá geta þeir sem eru bíllausir eða jafnvel ferðamenn tekið einkabíla á leigu, allt frá nokkrum klukkustundum og upp í nokkra daga. Þessi leið hefur til dæmis notið vinsælda í Skandinavíu á undanförnum árum. Þar er einnig vinsælt að leigja út tæki og tól sem aðrir gætu haft not fyrir, svo sem eins og saumavélar, vélsagir, borvélar, snjómoksturstæki og annað í þeim dúr.

Til sölu

Önnur leið til tekjuöflunar er að taka til í geymslunni, bílskúrnum, skápunum og/eða á háaloftinu. Þar getur leynst ýmislegt sem má koma í verð, eins og til dæmis húsgögn, fatnaður, bækur, málverk, skartgripir, búnaður til íþróttaiðkunar og svo mætti lengi telja. Þetta er einnig umhverfisvæn leið, því með því að selja það sem þú notar ekki, geturðu stuðlað að því að minna sé framleitt.

Þeir sem eru lagnir við prjónaskap, útsaum, smíðar og annað slíkt, geta selt afurðir sínar til að drýgja tekjurnar.

Er hægt að lækka kostnað?

En hvort sem þér hugnast einhver af áðurtöldum aðferðum til fjáröflunar eður ei, er alltaf gott að skoða kostnaðarhliðina reglulega. Er ef til vill kominn tími til að skipta um síma- og netþjónustu? Eða væri ráð að hafa samband við tryggingafélagið og endurskoða þjónustuna? Ertu áskrifandi að þjónustu sem þú notar ekki?

Eyðir þú peningum í eitthvað sem þú gætir sleppt (þó ekki væri nema tímabundið) í þeim tilgangi að lækka kostnað? 

Peningar á lausu

Sumir eru með lausafé í vösum, milli sætanna í bílnum, í krukkum og annars staðar. Það er góð regla að safna saman lausafé að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti. Ein leið er að fá sér sparibauk. Önnur leið er að safna lausafénu saman og nota það í ákveðnum tilgangi. Til dæmis til að kaupa jólagjafir!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál