Er hægt að upplifa gleði og hugarró mitt í stormi og rigningu?

Gunna Stella heilsumarkþjálfi.
Gunna Stella heilsumarkþjálfi.

„Þegar ég hlusta á það sem er að gerast í kringum mig og horfi á það sem er í gangi í þjóðfélaginu hljómar innra með mér rödd. Einfaldaðu, einfaldaðu, einfaldaðu. Oft gerum við okkur ekki grein fyrir því að við flækjum lífið að óþörfu. Jú, það er mikið að gera. Það þarf mörgu að sinna en mitt í storminum og rigningunni er hægt að finna gleði og hugarró,“ segir Gunna Stella heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:  

Þegar ég hóf göngu mína í átt að einfaldara lífi fyrir nokkrum árum þá var líf mitt eins og líf flestra. Ég hafði nóg að gera, mörgu að sinna og verkefnin hlóðust upp. Ég óskaði þess oft að það væru fleiri klukkustundir í sólarhringnum og oftar en ekki kom það niður á svefninum hvað það var mikið að gera. En svo gerðist eitthvað innra með mér. Það var rödd sem fór að hrópa „einfaldaðu“. Ég hugsaði með sjálfri mér: það hlýtur að vera önnur leið. Upp úr því hófst vegferð mín í átt að einfaldara lífi. 

Einfaldara líf snýst í raun og veru um það að láta það sem skiptir okkur mestu máli hafa forgang en fjarlægja það úr lífi okkar það sem vinnur gegn því.

Ég upplifði svo oft  hér áður fyrr að ég hefði ekki tíma til að sinna því sem hjarta mitt þráði og mér fannst það svo leiðinlegt. Eftir því sem ég las meira um mínimalískan lífsstíl og eftir því sem ég uppgötvaði betur að þetta gæti einfaldað líf mitt þá þráði ég það meira. En til þess að við náum markmiði okkar í því að einfalda lífið þurfum við að hafa ástæðu fyrir því. Það er mjög mikilvægur hluti þess að ná árangri. 

Ég hef sett á blað nokkrar ástæður fyrir því að ég vildi hafa lífið einfaldara. 

Ástæður:

Ég þráði að hafa meiri tíma fyrir börnin mín. 

Ég þráði að hafa meiri tíma til að sinna fólki. 

Ég þráði að geta skipt um vinnu og hjálpað einstaklingum að upplifa heilbrigðara líf.

Ég þráði að geta menntað mig meira.

Ég þráði að geta borgað niður skuldir. 

Ég þráði að hafa meiri fjármuni til að ferðast. 

Einfaldara líf fyrir mig er að geta sinnt því sem hjarta mitt brennur fyrir. Einfaldara líf er það að geta sest niður og drukkið kaffibollann minn án þess að hafa áhyggjur af því sem ég þarf að gera næst. Einfaldara líf er það að njóta dagsins og vera glöð og ánægð í því starfi sem ég sinni. Einfaldara líf er það þegar ég get notið þess að sinna fjölskyldu minni og börnum án þess að bíða bara eftir að dagurinn líði og allir fari að sofa. Þannig eru ekki allir dagar en þeim fjölgar stöðugt og ég er ótrúlega þakklát fyrir það.  

Ég þrái að fleiri upplifi lífið einfalt þó svo það sé nóg að gera. Eins og einn góður vinur minn sagði: Lífið getur verið einfalt þó svo það sé mikið að gera.“ Það er einmitt það sem ég vil að þú upplifir. Mitt í storminum og regninu geturðu upplifað sátt og gleði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál