Áhyggjuefni að konur staldri styttra við

Vala Pálsdóttir og Erla Tryggvadóttir.
Vala Pálsdóttir og Erla Tryggvadóttir. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Auður, blað sjálfstæðiskvenna, kemur út í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Blaðið, sem er tileinkað konum, fer vítt og breitt yfir sviðið og er veglegt að efnistökum. Meðal efnis er rifjuð upp saga þeirra kvenna sem ruddu brautina í stjórnmálum í upphafi síðustu aldar. Rætt er við við forystukonur úr stjórnmálunum sem og kröftugar konur úr atvinnulífinu. Viðskipti, umhverfismál, nýsköpun og útivist eru meðal efnis og fjöldi mynda prýðir blaðið.

Á forsíðunni eru tvær yngstu ráðherrar lýðveldissögunnar, þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. 

„Við erum auðvitað talandi dæmi um að flokkurinn stendur konum opinn,“ segir Þórdís Kolbrún þegar hún var innt eftir hvort flokkurinn standi konum opinn. Áslaug Arna tekur í sama streng en lýsir jafnframt yfir áhyggjum.

„Það er áhyggjuefni að konur, hvar í flokki sem þær eru, skuli staldra styttra við í stjórnmálum en karlar. Stjórnmálin í heild sinni þurfa einnig að horfa til þess að hvetja konur til að láta til sín taka á þessum vettvangi. Þar hefur Landssamband sjálfstæðiskvenna unnið gott starf á liðnum árum,“ segir Áslaug Arna.

„Við fórum af stað með metnaðarfullar hugmyndir, því ef þú teygir þig tunglsins þá nærðu til stjarnanna. Úr varð veglegt 48 síðna blað með fjölbreyttu efni. Við hefðum hæglega getað haldið áfram því af nægu er að taka,“ segir Erla Tryggvadóttir ritstjóri blaðsins. 

Þegar kom að því að gefa blaðinu nafn var leitað í trúnaðarhóp sjálfstæðiskvenna og bárust margar góðar tillögur. Hjördís Jensdóttir, öflug sjálfstæðiskona úr Reykjavík, lagði til nafnið Auður. Hún vísaði til mannauðsins í flokknum og svo auðvitað til brautryðjandans Auðar Auðuns, sem var fyrst kvenna borgarstjóri og fyrsta konan sem tekur sæti ráðherra.

„Við leituðum til sjálfstæðiskvenna með nafn á blaðið óskuðum eftir tillögum. En eftir því sem blaðið þróaðist og tók á sig mynd þá vorum við sammála um það að það kæmi ekkert annað nafn til greina,“ segir Erla. „Já, þegar maður rifjar upp sögu flokksins þá er svo augljóst hversu samofin kvennabaráttan er sögu flokksins. Konur hafa alltaf verið hjartsláttur í starfi flokksins.  Svo fyllist maður innblæstri yfir öllum þessum mögnuðu konum sem ruddu brautina, svo sem Ingibjörgu H. Bjarnason, Guðrúnu Lárusdóttur og Auði Auðuns.“

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, telur mikilvægt að konur tali fyrir þeim málefnum sem þær brenna fyrir.

„Ég er stolt af þeim fjölda kvenna sem kemur fram í blaðinu, sannkallaður auður. Blaðið endurspeglar ólíkar raddir kvenna og sýnir hve mikilvægt er að þær heyrist,“ segir hún. 

Auði, blaði sjálfstæðiskvenna sem Landssamband sjálfstæðiskvenna gefur út, verður dreift á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, miðvikudaginn 6. nóvember. Einnig verður hægt að nálgast blaðið rafrænt á vef Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is