Freyja fór í MBA til að staðna ekki

Freyja Leópoldsdóttir, sölu-og markaðsstjóri S4S.
Freyja Leópoldsdóttir, sölu-og markaðsstjóri S4S.

Freyja Leópoldsdóttir er nýr sölu-og markaðsstjóri S4S sem rekur 15 verslanir eins og Ellingsen, Steinar Waage, Air, Ecco, Sketchers, Kox, Kaupfélagið og Toppskóinn svo einhverjar séu nefndar. Hún er ofurskipulögð B-týpa sem dreymir um að koma allri fjölskyldunni í mótorsport. 

„Það eru mjög spennandi tímar fram undan og mörg áhugaverð verkefni en árið 2020 verður ár breytinga í neti og verslunum en við erum meðal annars að undirbúa fríðindaklúbb S4S auk þess sem það er stanslaus þróun á netverslununum,“ segir Freyja í samtali við Smartland. 

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Ætli það sé ekki aðallega að hafa trú á sjálfri sér, metnað, áhuga og vera mjög skipulögð. Það að umkringja sig góðu fólki og skapa sér gott tengslanet er einnig mikilvægt, en ég hef meðal annars verið meðlimur í FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu, og kynnst mörgum frábærum konum þar.“

Hvernig er þinn ferill?

„Eftir að hafa unnið í verslunarstörfum með framhaldsskóla vann ég á leikskóla og byrjaði að mennta mig í þeim geira en fann að það var ekki alveg rétti staðurinn fyrir mig og hóf fljótlega störf hjá Arion banka. Þar leit ég mikið upp til markaðsdeildarinnar og endaði á að fara í nám í markaðsfræðum í Danmörku, föður mínum til mikillar gleði en hann er sjálfur markaðsmaður og rak auglýsingastofu til fjölda ára. Eftir nám hóf ég störf hjá Bílaumboðinu Öskju og hef séð um markaðsmálin þar síðan, þar til ég ákvað að skipta um starfsvettvang og hóf störf hjá S4S nú um síðustu mánaðamót,“ segir hún. 

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Nei í rauninni ekki, en ég upplifði mig aðeins staðnaða á ákveðnum tímapunkti og skráði mig þá í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík. Ég tók fyrsta árið samhliða fæðingarorlofi en ég eignaðist mitt þriðja barn fyrstu kennsluhelgina í september í fyrra. Ég hef lært gríðarlega mikið í þessu námi og er mjög þakklát fyrir það sem það hefur gefið mér, en það verður líka kærkomið að útskrifast í vor.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan gefur mér gríðarlega mikið, en ég er hugmyndarík drífandi og elska að vinna vinnu þar sem hugmyndirnar mínar lifna við og ég get fylgt verkefnum eftir frá A til Ö. Viðburðastjórnun og kerfisinnleiðingar eru sérstök áhugamál í vinnunni. Flestir í dag verja miklum tíma í vinnunni dag hvern og því mikilvægt að hafa gaman þar og vera sáttur við það sem maður er að gera.“

Freyja er hér ásamt manni sínum, Eiríki Lárussyni, og börnum …
Freyja er hér ásamt manni sínum, Eiríki Lárussyni, og börnum þeirra þremur, Ísmey, Leópold og Bjarti.

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Ekki beint, ég hef alltaf unnið mikið en ég er þannig í eðli mínu. Ég er full af orku en ég mætti alveg kunna betur að slaka á inn á milli. Ég er algjör nautnaseggur heima hjá mér og líður hvergi betur heldur en þar, en ég er þó með langtímamarkmið um að vera duglegri að rækta hugann með hugleiðslu og jóga og er nú þegar farin að koma börnunum mínum inn í það hugarfar, dóttir mín sem er 6 ára fór t.d. á hugleiðslunámskeið um daginn. Mér finnst frábært að við séum að kenna nýjum kynslóðum betur að rækta sálina, en skólar eru margir hverjir með jóga og hugleiðslukennslu.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Já því miður. Konur eiga erfiðara með að vaxa í starfi, en þær eru heldur ekki nógu duglegar að sækjast í hærri störfin. Oft skortir sjálfstraust sem virðist vera meira hjá karlmönnum. Sem betur fer finnst mér þó tímarnir vera að breytast.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Kannski ekki ákveðna fyrirmynd en það eru margar flottar konur sem ég lít upp til hér á Íslandi sem og erlendis. Konur sem eru komnar langt í frama, eru með mikla útgeislun, duglegar og drífandi.“

Ertu með hugmynd hvernig bæði er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Ég held að meira gegnsæi í launum sé eitt af því sem hægt er að gera til að útrýma launamuninum.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég skrái nánast allt líf mitt í dagatal auk þess að halda utan um verkefni í skipulagskerfum. Ég fer yfir dagatalið alltaf áður en ég fer að sofa og aftur þegar ég vakna, og renni síðan yfir verkefni dagsins og forgangsraða. Ég er mikið á fundum og mikið með verkefni á skilafrestum þannig að enginn dagur er eins og oft talsvert stress að ná að klára allt.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég er svo heppin að maðurinn minn er A týpa á meðan ég er B, hann vaknar því með börnunum töluvert á undan mér. Ég er yfirleitt á seinustu mínútunum á morgnana, fer á fætur eins seint og ég kemst upp með, klára að gera börnin tilbúin í dagvistun og skóla og maðurinn minn keyrir 2 þeirra. Ég geri mig síðan tilbúna og keyrir þriðja barnið í dagvistun og er mætt í vinnuna rúmlega 8.30.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Hann teygist alltaf fram á kvöld. Ég er yfirleitt komin heim um fimm, elda matinn og eyði tíma með börnunum. Þau eru öll sofnuð um átta og þessa dagana nýti ég kvöldin í að læra, auk þess að klára tölvupósta og önnur verkefni sem hafa ekki náðst yfir daginn.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Að nýta tímann með fjölskyldunni, ferðast innanlands og utan og auk þess erum við erum með mörg áhugamál tengd útivist sem því miður hafa setið aðeins á hakanum undanfarið eftir að ég fór í nám, en við erum mjög spennt að taka upp þráðinn að nýju næsta sumar.

Ég er með mótorhjólapróf og var mikið í mótókrossi fyrir „nokkrum“ árum síðan og mig langar að koma fjölskyldunni í þá íþrótt þegar börnin eru orðin aðeins stærri. Þá er sérstaklega skemmtilegt að Ellingsen ætlar að vera leiðandi í rafhjólum og er ég mjög spennt að koma mér á fullu inn í það.“

Hvert er þitt fyrsta verkefni í nýju starfi?

„Fyrsta verkefnið var að skipuleggja konukvöld Ellingsen sem er í kvöld, fimmtudaginn 12. desember klukkan sex til níu. Það verður allt hið glæsilegasta, Sigga Kling mætir á svæðið, Heiðar Austmann sér um tónlistina, veitingar í fljótandi og föstu formi, gjafapokar, frábærir afslættir og fleira. Ég vona að ég sjái sem flesta þar.“

mbl.is