Ekki hræðast mistökin því þau eru gjafir

Gunnar Hansson leikari segir margt koma upp í hugann þegar nefna eigi nám eða námskeið sem breytti lífi hans. 

„Í rauninni eru það lítil atvik og lítil augnablik á hinum ýmsu námskeiðum og í verkefnum sem ég hef tekið þátt í sem hafa breytt lífi mínu hvað mest.

Þegar Hlín Helga Pálsdóttir, barnaskólakennari minn, hrósaði mér fyrir dönskustíl sem ég skilaði til hennar, sem gerði mig afskaplega stoltan og gaf mér mjög óvænt sjálfstraust og trú á að ég gæti verið góður í dönsku.

Þegar ég lærði, stuttu eftir útskrift úr Leiklistarskólanum, á spunanámskeiði hjá sænskum kennara, Martin Gejer, leyndardóma spunans. Að hræðast ekki að fara alveg óundirbúinn inn í spunann og sjá hvað gerist og umfram allt að hræðast ekki mistökin, því þau eru gjafir. Það verður fyrst gaman þegar einhver gerir mistök! Gríðarlega mikilvægt í starfi leikarans, að verða óhræddur við mistökin og reyndar nýtist það mér í flestum störfum sem ég hef tekið mér fyrir hendur.

Þegar ég lærði trúðstækni í Leiklistarskólanum, fyrst hjá Kára Halldóri Þórssyni og svo hjá Mario Gonzales, kennara frá Gvatemala. Tækni trúðsins er í mínum huga grunntækni leikarans. Hún kennir manni að einfalda hlutina, hreinleika, að einbeita sér að einu í einu. Og aftur að hræðast ekki mistökin.

Þetta eru nokkur atriði sem koma strax upp í hugann, en það eru mun fleiri augnablik þar sem hefur kviknað á peru í höfðinu á mér og ég hef lært hluti sem fylgja mér í mörgu sem ég geri enn í dag. Ég hef verið það heppinn að kynnast frábærum kennurum, leikstjórum og samstarfsfólki sem hafa kennt mér allt sem ég kann og ég ætla að halda áfram að læra af fólkinu í kringum mig. Lífið er námskeið,“ segir Gunnar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »