Aníta Sig: Hættu að vinna í þér!

Aníta Sigurbergsdóttir.
Aníta Sigurbergsdóttir.

„Við erum að drepa það safaríkasta í boðum og bönnum um hvernig á að vera til. Þar er ég engin undantekning. Búin að taka allan skalann og mæli alls ekki með því. Fyrir alla muni, hraðspólaðu yfir sjálfshjálpartékklistann og hoppaðu beint í að vera fabjúlös. Trúðu mér, það gæti bara verið lausnin á lífsgátunni held ég,“ segir Aníta Sigurbergsdóttir sér­fræðing­ur í leiðtoga­sál­fræði í nýj­um pistli á Smartlandi: 

Ekki gera eins og ég:

-Þræla í gegnum allar sjálfhjálparbækurnar með undirstrikunarpennann að vopni svo mér yfirsjáist nú ekki lykillinn að lífinu… tékk.

-Fela mig í helli í leit að tilgangi lífsins… tékk.

-Setja saman strategíska lífssýn, með SMART markmiðum og allt, fyrir hvern krók og kima lífsins… tékk.

-Innleiða alla árangurstaktík sem fundin hefur verið upp… tékk.

-Akademísk rannsókn og meistararitgerð um hvernig á að vera sjúklega frábær… tékk.

-Æfa þakklætisvöðvann upp í yfirgengna dramavæluveislu… tékk.

-Kryfja barnæskuna… tékk.

-Læra hugleiðslu og núvitund fyrir svakalega langt komna í mómentinu… tékk

-Rugla botnlaust í mér með alls konar andlegu sukki… tékk.

Varð ég einstaklega æðisleg og Instavæn á þessu öllu saman? Ehhh… nei, eiginlega ekki. Varð frekar leiðinleg týpa. Þessi heilaga og hundleiðinlega þú veist. Ég sver ég er ekki að ýkja. Mjög glatað móment í mínu lífi.

Viltu sannleikann? Auðvitað viltu hann án sykurs og allt (en samt ekki). Allur þessi sjálfshjálpartékklisti minn var lítið meira en frábærlega góð og gild afsökun fyrir því að vera ekki fabjúlös. Takk fyrir pent með andköfum og allt. Ég var ekki fabjúlös… ó mæ god, það er auðvitað dauðasynd eitt og sér.

Við erum svo upptekin af því að finna okkur. Finnst þér það ekki? Þú ert varla maður með mönnum þessa daga nema vera sjúklega tengdur sálinni með hjartastöðina á fullu blasti. Og ekki gleyma jóganu! Auðvitað er tékk á það líka. Annars væri ég pottþétt í tómu tjóni, talandi út um minn fagra og vel tónaða afturenda alla daga í mögnuðu egóflæði.

Og virkaði betur að hætta sjálfsvinnurugli og vaða frekar í urrandi sjúkheitum frá morgni fram á kvöld? … tékk, auðvitað. Svínvirkaði.

Í almáttugs bænum hættu nú að vinna í þér. Trúðu mér. Auðvelda leiðin er ekki að demba sér í leitina miklu að lífsplaninu og ástæðum alls sem ekki er gargandi snilld í lífinu.

Leiðindaþrennan sem gerir allt glatað:

  • Hættu að leita að öllu sem mögulega gæti verið að þér og misstu þig frekar í að vera æði.
  • Hættu að fínpússa og fullkomna einhverja ímyndaða bestu útgáfu af þér og lifðu drauminn í dag.
  • Hættu leitinni að hinum eina og sanna tilgangi sem er ekki til, og slepptu villidýrinu lausu í allt sem þú alltaf vildir upplifa.

Hættu þessu bara.

Það er alls ekki svo flókið að vera djúsí og æðislegur. Eiginlega ofureinfalt. Þú tekur grjótharða ákvörðun að fara aldrei aftur í leiðindaþrennuna sem gerir allt glatað.

Og hvað gerir þú í staðinn?

  1. Þú vogar þér ekki að velja minni útgáfu af þér í nokkrum aðstæðum.
  2. Þú vogar þér ekki að velja líf sem skilur eftir gat á hjarta í lok dags.
  3. Þú vogar þér alls ekki að setja brjálæðinginn í þér í búr… aldrei.

Allt annað er algjör vanvirðing við þann eðalmola sem þú ert.⠀⠀

HÉR get­ur þú fylgst með Anítu á Face­book. 

mbl.is