Elskar að finna einstaka muni á flóamörkuðum

Sidy og Dagrún hafa komið sér vel fyrir í Berlín.
Sidy og Dagrún hafa komið sér vel fyrir í Berlín.

Dagrún Aðalsteinsdóttir er sjálfstætt starfandi listamaður og sýningarstjóri. Hún hefur búið í Berlín undanfarin tvö ár en þar áður var hún á flakki í nokkur ár um Asíu. Þá átti hún í raun heima í ferðatösku, sem hefur gert það að verkum að hún kann ákaflega vel við sig í Berlín, í fallegri íbúð með unnustanum. 

Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga víðsvegar um heim, t.d. Singapúr, Rotterdam, Hamborg, Kína, Eþíópíu og á Íslandi. Í gegnum myndlistina hefur hún ferðast víða og skipulagt sýningarverkefni á heimsvísu.

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Ég er að vinna að nokkrum mismunandi sýningarverkefnum og endurskipuleggja verkefni sem frestuðust vegna Covid. Ég var til dæmis að vinna að sýningu sem átti að eiga sér stað í mars hjá Gerðarsafni en frestaðist fram á næsta ár. Allt í einu var mjög erfitt að sinna myndlistarverkefnum því þau fela oft í sér ferðalög. Ég fór því að einbeita mér að nýju verkefni Petit_Artprints sem er nýtt fyrirtæki.“ 

Hvar býrðu?

„Seinustu tvö ár hef ég búið í Berlín en þar áður var ég mikið á flakki og bjó nokkur ár í Asíu. Ég átti eiginlega heima í ferðatösku en er núna komin með mína eigin íbúð loksins og búin að finna mér samastað hér. Ég bý í Wedding sem er æðislegt hverfi þar sem öllum þjóðarbrotum ægir saman og hægt að fá ljúffengan mat frá Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. Ég bý hérna með kærastanum mínum, Sidy, sem er þýskur, og hann er búinn að vera að reka sitt eigið fyrirtæki sem selur te. Við eldum oft saman og erum oft að reyna að herma eftir matnum sem við höfum bragðað á veitingastöðum í borginni, t.d. marokkóskum mat eða indverskum.“

Hvað gerir heimili að fallegu heimili að þínu mati?

„Ég elska að fara á flóamarkaði hér í borginni sem selja notuð húsgögn þar sem er hægt að finna einstaka muni og falleg húsgögn. Mér finnst mjög falleg heimili sem eru með persónulegum stíl. Ég vil hafa heimilið mitt fullt af lit og með fallegum plöntum, þá líður mér vel. Einnig á ég marga muni frá ferðalögum mínum, t.d. kaffikönnu frá Eþíópíu og tesett frá Kína sem ég nota sem skrautmuni.“

Fyrirtækið Petit er hugsað sem umboðs- og heildsala sem sérhæfir …
Fyrirtækið Petit er hugsað sem umboðs- og heildsala sem sérhæfir sig í fjöldaframleiddum listmunum fyrir safna-, bóka- og hönnunarbúðir.

Skiptir list þig miklu máli?

„Já, ég hef byggt upp líf sem snýst aðallega um list; hvað ég vinn við, hvað ég geri í frítímanum mínum og hvar ég bý, ásamt því að stýra því oft hvert ég ferðast. Alls konar list hefur nært mig í gegnum tíðina; tónlist, myndlist, kvikmyndir og bækur.“

Hvað geturðu sagt mér um nýstofnað fyrirtæki þitt?

„Petit_Artprints er fyrirtæki sem sérhæfir sig í fjölrituðum listaverkum í formi myndlistarplakata. Hugmyndin á bak við Petit er að selja myndlist með svipuðum hætti og bækur og tónlist er seld. Fyrirtækið Petit er hugsað sem umboðs- og heildsala sem sérhæfir sig í fjöldaframleiddum listmunum fyrir safna-, bóka- og hönnunarbúðir. Auk þess er Petit einnig með netsölu þar sem fólk um allan heim getur pantað verk og fengið þau send heim. Mig langaði að gera myndlist aðgengilega fyrir almenning svo fólk gæti haft nútímamyndlist heima hjá sér.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?

„Stofan mín er uppáhaldsstaðurinn minn þar sem ég leggst í sófann minn og les bók eða glápi á bíómynd. Einnig er ég með svalir þar sem mér finnst mjög gott að byrja daginn á sumrin með tebolla eða kaffi.“

Hvað keyptirððu síðast inn á heimilið?

„Það voru reyndar mjög praktísk kaup en ég keypti mér uppþvottavél og sé ekki eftir því. En ég keypti líka um daginn hillur sem ég á eftir að koma upp þar sem mig langar að setja fleiri plöntur, ég fæ aldrei nóg af þeim.“

Selur Petit aðallega íslenska myndlist? 

„Petit er með stórt safn af verkum frá íslenskum listamönnum en einnig alþjóðlegum og er hugmyndin í framtíðinni að hafa hlutfallið 50/50. Það eru sífellt að bætast við verk í safnið og hægt að fylgjast með því á samfélagsmiðlum. Einnig er netsalan komin í loftið á heimasíðunni og við sendum út um allan heim.“

Petit er með stórt safn af verkum frá íslenskum listamönnum …
Petit er með stórt safn af verkum frá íslenskum listamönnum en einnig alþjóðlegum.
mbl.is