Hittir fólk utandyra og er hætt að knúsa

Eva María Jónsdóttir.
Eva María Jónsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eva María Jónsdóttir vinnur heima þessa dagana eins og margir landsmenn. Hún segir að áreitið sé miklu minna ef fólk sleppir notkun á samfélagsmiðlum. Hún leyfir sér að hitta fólk utandyra og gætir þess vel að passa upp á alla fjarlægð. 

„Ég bregst við veirunni með því að leggja mig fram um að fara eftir tilmælum og láta mér detta eitthvað í hug sem ég gerði ekki nema af því að hægt hefur á öllu og áreitið er minna, það er að segja ef maður sleppir samfélagsmiðlum að mestu leyti.

Ég hef leyft mér að hitta fólk utandyra á göngu en held fjarlægð og knúsa ekki lengur. Þetta virkar fyrir mig því ég hef enn fjölskyldu mína til að vera í snertingu við. Ég hugsa til þeirra sem eru einir og einmana og var að hugsa um að gerast símavinur til að gera eitthvert gagn í þessu ástandi.“

Hvað gerir þú til að brjóta upp daginn?

„Ég brýt upp daginn með því að fara út með hundinn, hitta dætur mínar, gríp í handavinnu, fer á róðravélina, hringi í mömmu og skrifa dagbók. Auðvitað geri ég líka alls konar minna uppbyggilegt en þetta, hangsa og þróa nánast með mér legusár af kyrrsetu.“

Hvað borðarðu í hádeginu þegar þú ert heima að vinna?

„Í hádegismat borða ég oftast afganga frá kvöldinu áður. Reyni að borða ekki mat sem var eldaður fyrir meira en sólarhring. Þetta getur verið baunakássa eða fiskur í rjómasósu, flatkökur eða hafragrautur ef ekkert er til, sem sagt mjög mismunandi og aðallega í stílnum sem hendir ekki mat. Ef ég væri ekki í kórónuveiruástandi mundi ég borða á kaffihúsum í hádeginu enda stundum kölluð kaffiterían á meðan aðrir eru vegeterían eða flexeterían eða annað í þeim dúr.“

Hvað gerirðu til að halda geðheilsunni í lagi?

„Geðheilsan er ágæt í kófinu. Til að rækta hana tala ég mikið um allt mögulegt sem herjar á hugann. Það getur verið þreytandi fyrir fólkið í kringum mig þannig að ég hef þurft að snúa mér meira að jógaástundun og öndunaræfingum til að gera upp mín mál og losa mig við þyngsli í huga og hjarta. En ég get líka fengið mikla lausn með því að lesa eitthvað og skrifa dagbók. Hún gengur öll út á þetta að láta ekkert súrna hið innra.“

Hreyfirðu þig eitthvað?

„Hundurinn sér að mestu um að maður hreyfir sig úti einu sinni til þrisvar á dag. Þá á ég það til að gera æfingar heima, hnébeygjur, planka eða róa á róðravél. Svo fann ég sippuband hérna um daginn og ætla að fara að vinna meira með það. Bubbi segir það svo gott fyrir fullorðna að sippa og því er auðvelt að trúa. Ég er svo með einn nemanda í einkatímum í jóga. Það er maður sem kenndi mér í menntaskóla sem nú er orðinn nemandi hjá mér. Með honum í tímanum er svo eiginmaður minn, sem er eins konar jógarótari sem stillir upp í tímann á stofugólfinu.

Hvernig hefur veiran haft áhrif á fjölskyldu þína?

„Veiran hefur haft þannig áhrif á okkur í fjölskyldunni að við erum meira saman og getum ekki flúið heimilið þótt mann langi það nú stundum þegar maður á erfitt með að leysa málin. Krakkarnir eiga það til að loka sig inni í herbergi og dvelja í símum sínum meira en mér finnst í lagi. En ég er að æfa að hafa ekki svona sterkar skoðanir á öllu sem allir gera. Ég held að þetta ástand knýi fólk til að taka meiri ábyrgð á eigin lífi og hamingju. Nú myndast á ný rými fyrir hluti sem eru ekki með læti eins og margt skapandi starf, hannyrðir, skriftir, lestur og dagdraumar, því dáið er allt án drauma.“

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum?

„Ég skora á Hörpu Rún Kristjánsdóttur skáldkonu að svara um líf í kófinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman