Geir Ólafs opnar sig um kvíðann

Geir Ólafsson var gestur Sölva Tryggva.
Geir Ólafsson var gestur Sölva Tryggva. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Geir Ólafs er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Eiginkona Geirs er frá Kólumbíu og Geir hefur því verið talsvert í höfuðborginni Bógóta. Í þættinum segir hann sögu af því þegar hann var fenginn til að syngja á tónleikum sem voru sýndir beint í ríkissjónvarpi Kólumbíu.

„Það endaði með því að ég var sendur á spítala með háfjallaveiki eftir að hafa tekið háa C-ið í þunna loftinu. Ég var bara nýkominn til Bógóta, sem er vel á þriðja þúsund metra yfir sjávarmáli, og það tekur líkamann yfirleitt nokkra daga að aðlagast. Þetta var mikið og stórt tækifæri fyrir mig, sem heppnaðist mjög vel, en þegar maður reynir svona mikið á sig getur það tekið toll og eftir tónleikana var ég sendur beint á spítala. Ég gat bara ekki andað og var mjög máttlaus með höfuðverki og sjóntruflanir, en reynslan af því að fara á spítala í Kólumbíu var frábær. Ég var látinn vera þar í tæpa tvo sólarhringa og þjónustan sem ég fékk var eiginlega bara mögnuð. Það var gengið úr skugga um allt saman og ég var rannsakaður í bak og fyrir og ég þurfti ekki einu sinni að borga nema mjög lítið.”

Geir segir reynslu sína af Kólumbíu frábæra, en auðvitað finni hann á köflum fyrir fátæktinni á ákveðnum svæðum.

„Kólumbíumenn eru ofboðslega gott fólk og það er tekið frábærlega á móti manni alls staðar. En maður sér auðvitað sums staðar hluti þarna sem myndu þykja mjög óeðlilegir hjá okkur. Það kemur reglulega fyrir á ákveðnum stöðum  þegar maður er að keyra að maður sér látið fólk í vegkantinum sem á eftir að sækja og svo sér maður á milli akreina á ákveðnum stöðum garða þar sem fólk býr í pappakössum með allt sitt hafurtask í svörtum plastpokum af því að það er mikil fátækt á ákveðnum stöðum.“

Geir talar í þættinum um baráttu sína við kvíða, sem hefur staðið allt síðan hann var lítið barn, þegar hann fékk fyrstu kvíðaköstin án þess að gera sér grein fyrir því hvað væri að hrjá hann:

„Ég er mikill kvíðasjúklingur og hef í raun verið það alveg síðan ég var 6 ára gamall. Það má segja að ég sé í meistaradeildinni í kvíðaröskun. Ég man eftir fyrstu kvíðaköstunum mínum strax þegar ég var sex ára og þá fékk ég líklega ekki þá hjálp sem ég hefði þurft. Að fá kvíðakast er eitt það óþægilegasta sem maður getur upplifað og maður ruglast í ríminu við að upplifa svona sem barn. En ég er mjög þakklátur fyrir það hvar ég er staddur í dag miðað við það hve slæmt þetta var orðið á tímabili. Mitt stærsta verkefni er að vera ekki hræddur við þetta þegar það kemur. En ég er búinn að sætta mig við að þurfa reglulega að leita mér læknishjálpar út af þessu,“ segir Geir.

Geir hefur sungið um allan heim og í þættinum segir Geir einnig sögu af því þegar hann var fenginn til að spila fyrir Vladímír Pútín og fleiri valdamenn í höll í Moskvu.

„Ég held að ég hafi gengið í gegnum svona 50 dyr og mér var alveg hætt að lítast á blikuna þegar ég var búinn að fara í gegnum helminginn af dyrunum. Sérstaklega af því að hverjum einustu dyrum var lokað og læst eftir að ég var kominn í gegn, þannig að ímyndunaraflið fór á fullt og ég fékk svakalega innilokunarkennd. En ég náði að halda ró minni af því að ég var með fleiri Íslendingum þarna. Ég er nógu kvíðinn fyrir, en hjartslátturinn rauk upp þegar ég var að fara að byrja að syngja og horfði á Pútín og félaga hans fyrir framan mig þunga á brún. En svo fór ég að syngja „My Way“ og þá byrjaði brosið að koma á varirnar og það létti yfir hópnum. Eftir á að hyggja var þetta mjög skemmtileg reynsla og ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að koma svona víða fram sem söngvari.“

Geir kom inn á svið íslenskrar tónlistar svo eftir var tekið. Í fyrstu voru ekki allir sáttir við hann, en með mikilli elju, góðu hugarfari og náungakærleik er í dag erfitt að finna manneskju sem ekki þykir vænt um Geir, sem stressar sig ekki mikið á slæmu umtali.

„Þeir aðilar sem eru að tjá sig um mann án þess að þekkja mann eru í raun bestu markaðsmenn sem til eru og ég hræðist ekki það sem fólk segir um mig. Ef maður kemur vel fram við náungann og talar ekki illa um fólk endar það á að ná í gegn.“

Í þættinum ræða Sölvi og Geir um tengingarnar við Kólumbíu, söng fyrir Pútín Rússlandsforseta, ofsjónir eftir mikla drykkju og fleira og fleira.

Þáttinn má finna á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is