Ætla að halda áfram að búa til klám

Edda Lovísa Björgvinsdóttir býr til klámefni sem hún selur á …
Edda Lovísa Björgvinsdóttir býr til klámefni sem hún selur á samfélagsmiðlinum OnlyFans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Edda Lovísa Björgvinsdóttir er ein þeirra Íslendinga sem búa til erótískt efni og birta á samfélagsmiðlinum OnlyFans. Fram hefur komið í fréttum að lögreglan sé með það í skoðun hvort efnið flokkist sem framleiðsla og sala á klámi. Fréttirnar fara ekki vel í Eddu Lovísu og vini hennar og ætla þau að halda áfram að búa til erótískt efni.

„Það er verið að gera vinnuna okkar ólöglega. Það er náttúrlega bara fáránlegt,“ segir Edda Lovísa. Hún segir klikkað ef það sé verið að setja þeirra vinnu í forgang hjá lögreglunni á meðan það séu barnaklámssíður þarna úti. 

Heldurðu að þetta tengist þessari miklu umræðu um OnlyFans núna?

„Já örugglega, líka af því við erum að græða góðan pening á þessu. Þeir eru örugglega ekkert svo sáttir við það að við fundum leið til þess að græða pening,“ segir Edda Lovísa. „Það sem þeir fatta ekki er að OnlyFans er ekki bara klámsíða. Það er líka fólk sem birtir bara æfingamyndbönd og myndir. Á að gera það ólöglegt líka?“

Vinirnir hafa ekki rætt við lögfræðing núna en töluðu við lögfræðing þegar efnið þeirra lak þegar þau voru að byrja í bransanum. Þau töluðu einnig við lögregluna, sem kippti sér ekki neitt upp við vinnu þeirra.

„Er þetta nokkuð ólöglegt?“ spurðu þau lögfræðinginn á sínum tíma. „Hann sagði nei. Að þetta væri ekki ólöglegt,“ segir Edda Lovísa. Lögfræðingurinn sagði að það væri ólöglegt að strippa en þeirra iðja væri ekki ólögleg. 

Þau ætla ekki að hætta að búa til efni þó svo umræðan sé komin á þetta stig. „Við ætlum bara að halda áfram að búa til efni. Við sáum einhverja frétt um að löggan ætlaði að handtaka okkur, setja okkur í fangelsi. Þið setjið ekki einu sinni fólk sem nauðgar í fangelsi. Ætlið þið í alvörunni að setja okkur í fangelsi?“ segir Edda Lovísa og segir að þeim vinunum finnist lögreglan eiga að forgangsraða öðruvísi. 

mbl.is