„Við hoppuðum í djúpu laugina þegar við fluttum til Svíþjóðar“

Kristín Couch, innanhússljósmyndari og listakona, flutti til Svíþjóðar fyrir þrettán …
Kristín Couch, innanhússljósmyndari og listakona, flutti til Svíþjóðar fyrir þrettán árum.

Kristín Couch, innanhússljósmyndari og listakona, flutti til Svíþjóðar fyrir þrettán árum ásamt eiginmanni sínum og barni þar sem þau hófu nýtt líf saman. Þau hjónin hafa farið í gegnum allskonar verkefni en eru í góðu sambandi í dag þar sem enginn tuðar í neinum. 

„Ég álpaðist á sveitaball á K-ið á sínum tíma með félaga úr Keflavík sem ég hafði kynnst á Ítalíu. Það var þá sem Gummi settist við hliðina á mér og höfum við verið saman síðan þá,“ segir Kristín Couch sem nú býr í fallegu litlu einbýlishúsi með krúttlegum garði í Bålsta, rétt fyrir utan Stokkhólm, ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Þórðarsyni sem hún hefur verið ástfangin af frá því á ballinu, í yfir 35 ár.

Þau Kristín og Guðmundur eru einstaklega samrýmd hjón. Þau hafa flutt á milli landa og lent í allskonar ævintýrum. Lífið hefur ekki alltaf leikið við þau, en þau eru samstíga og draga það besta fram í hvort öðru.

„Í raun erum við Guðmundur mjög ólíkir persónuleikar. Hann er meira jarðbundinn en ég og ég þarf að fá að fljúga eins og fugl. Lífið okkar hefur svo sannarlega ekki alltaf verið einfalt og ljúft, en við höfum getað farið í gegnum allt með því að bera mikla virðingu og traust til hvors annars, svo ég tali nú ekki um hvað við erum ástfangin.“

Kristín er á því að annaðhvort verða ástarsambönd betri með árunum eða að þau staðna og verða stundum verri.

„Við höfum verið svo heppin að ástin okkar hefur styrkst með árunum. Enn þann dag í dag, þá hlakkar mig til þess þegar hann kemur heim og það sama gildir um hann. Við erum ennþá að nota svefnherbergið,“ segir Kristín og hlær og bætir svo við „En við erum orðin rólegri og vanafastari en við vorum áður. Við tuðum kannski á tveggja ára fresti, en hvorugt okkar þolir tuð eða rifrildi, þó auðvitað hafi þau komið upp. Gummi er minn besti og kærasti vinur og svo eigum við tvær dásamlegar dætur saman, þær  Bríeti og Marín.“

Voru búin að styrkja bankana á Íslandi afar vel

Bríet eldri dóttir þeirra hjóna bjó í Svíþjóð áður en þau tóku ákvörðun um að flytja út með yngri dóttur sína.

„Fyrir svo tæpum 5 árum tókum við hjónin þá ákvörðun að kaupa lítið einbýlishús með garði í fallega bænum okkar. Bríet hafði þegar flutt hingað og langaði okkur að vera nær fjölskyldunni og börnum þeirra tveimur,“ segir Kristín og útskýrir hversu stutt sé í Stokkhólm með lestinni þar sem þau hjónin vinna bæði.

Þau Kristín og Guðmundur eru einstaklega samrýmd hjón. Þau hafa …
Þau Kristín og Guðmundur eru einstaklega samrýmd hjón. Þau hafa flutt á milli landa og lent í allskonar ævintýrum.

Kristín og Guðmundur fluttu til Svíþjóðar árið 2009, í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi.

„Okkur fannst við hafa styrkt bankana afar vel og fannst þetta orðið gott. Þetta gerðist allt mjög hratt. Við fengum leiguíbúð afhenda í september árið 2009, seldum raðhúsið okkar í Keflavík strax og gámurinn með búslóðinni kom síðan í október.

Bríet hafði þá þegar flutt til Stokkhólms í byrjun árs 2009 og við komum nokkrum mánuðum seinna.

Við hoppuðum í djúpu laugina svo að segja. Vorum bæði atvinnulaus í lok árs 2009. Maðurinn minn var svo heppin að fá vinnu eiginlega strax, enda einstaklega klár maður.

Hann vinnur í dag hjá Wallenberg Foundation sem „IT Chef“.“

Konur á fimmtugsaldri ekki vinsælar á vinnumarkaðnum

Kristín gafst ekki upp á að finna sér góða vinnu en segir töluverðan mun á því að vera kona á miðjum aldri að finna sér vinnu en karl á sama aldri, eða yngri kona.

„Konur á fimmtugsaldri eru ekkert vinsælar á vinnumarkaðnum, út af ástæðu sem ég skil ekki. Ég man að einn mánuðinn sótti ég um yfir 126 vinnur án árangurs. Því var ekki annað í boði fyrir mig en að byrja frá grunni. Fyrst starfaði ég í þrifum og síðan í veislugeiranum og þá sem þjónn. Ég vann í allskonar veislum, meðal annars í konungsveislum og hitti meira að segja sænska konunginn, við setningu nýrrar ríkisstjórnar. Það var áhugaverð lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað vera án.“

Árið sem Kristín varð fimmtug sendi Guðmundur henni atvinnuauglýsingu þar sem verið var að auglýsa eftir ljósmyndara.

„Ég sendi inn þá styðstu umsókn sem ég hef nokkurn tíma gert, þar sem ég var komin með algjört ógeð á að sækja um vinnur. Og viti menn, ég var ráðin! Hjá Lägenhetsbyte hef ég svo starfað undanfarin sjö ár. Ég þvælist um alla borgina og er að mynda íbúðir fyrir fyrirtækið. Hér eru leigusamningar öðruvísi en á Íslandi því Svíar bíða í fleiri ár, jafnvel áratugi eftir „First Hand Contract“ á leiguíbúðir. Fyrirtækið sem ég vinn fyrir býður upp á að fólk geti skipst á íbúðum án þess að missa þennan samning. Því má segja að ég hafi séð flest af því sem mannlífið býður upp á hér. Allt frá fátækustu heimilum til ríkra mannaheimila og svo allt þar á milli. Mér finnst þetta mjög skemmtileg vinna, þar sem ég nýti morgnana fyrir ljósmyndun og svo er ég heima eftir hádegið að framkalla.“

Kristín tekur einstaklega fallegar ljósmyndir og sér fegurð víða.
Kristín tekur einstaklega fallegar ljósmyndir og sér fegurð víða.

Lifir góðu fjölskyldulífi í Svíþjóð

Börnum þeirra hjóna gengur einnig vel. Það fer vel um Bríeti og fjölskyldu hennar í bænum. Hún er nýbúin að kaupa sér íbúð og komin í góða vinnu.

„Marín, yngri dóttir okkar, flutti til Ástralíu með kærastanum Kass og búa þau í Sidney ásamt hundinum sínum Winter. Hún útskrifast i vor með BS gráðu í örverulíffræði (e microbyoligy).“

Kristín segir lífið gott í Svíþjóð og endalaust hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera. Þau hafa farið í margar siglingar um Skerjagarðinn, eru dugleg að fara út út að borða og að skoða áhugaverð söfn. 

„Stokkhólmur er alveg ótrúlega falleg borg að mínu mati. Við fáum reglulega vini okkar í heimsókn og það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og gera hér. Veitingahúsin eru spennandi og sumrin eru alveg dásamleg að upplifa. Þá erum við mikið á ferðinni að gera eitthvað skemmtilegt. Við höfum smitast aðeins af fólkinu hér, en Svíar fara mikið út að ganga og höfum við hjónin að sjálfsögðu tekið upp þann góða sið.

Í raun notum við bílinn okkar lítið sem ekkert. Ég ferðast nær eingöngu með lestum og strætó og arka svo um borgina þegar ég er að taka ljósmyndir í vinnunni.“

Fann sig í stafrænni list

Hvað varð til þess að þú snérir þér að stafrænni list?

„Tildrög þess má rekja til þess tíma þegar ég fór á mitt fyrsta Photoshop námskeið, fyrir 22 árum. Eftir viku á námskeiðinu var ég farin að skapa einhverskonar verk. Ég hef allt mitt líf verið að teikna og mála og hef ég farið á ótal námskeið í þeirri listgrein. Mér fannst ég aldrei neitt sérstaklega góð í því. Með Photoshop opnaðist algjörlega nýr heimur fyrir mér. Ég lagði þetta á hilluna í mörg ár og snéri mér að ljósmyndun. Eftir að ég flutti hingað til Svíþjóðar þá uppgvötaði ég skóla á netinu þar sem hægt var að sérhæfa sig í að byggja listamannin upp í sér með Photoshop og þá var ekki aftur snúið.“

Verkin hennar Kristínar eru seld meðal annars í Cobra Art sem rekur 28 útibú víðsvegar um heiminn.

„Listin er algjörlega fyrir mig. Það hefur bara verið bónus að hún hefur vakið athygli og fólk hefur verið að fjárfesta í verkunum mínum. Verkin mín eru mjög fjölbreytt og ólík og höfða þess vegna til margra. Ég tók strax ákvörðun um það að vera ekki að herma eftir neinum og skapa minn eigin stíl.“

Verkin hennar Kristínar eru það sem kallast stafræn list og …
Verkin hennar Kristínar eru það sem kallast stafræn list og eru þau seld í gegnum cobra Art víða um heiminn.

Kristín hefur verið talsvert í fjölmiðlum en er ekki mikið fyrir að koma sjálfri sér á framfæri.

„Ég er með umboðsmann á Íslandi, hana Hebu Brandsdóttur sem sér um kynningarhliðina á listinni fyrir mig. Saman erum við að vinna í því að byggja upp vörumerkið KC ART.“

Halda í vinskapinn heima

Kristín segir gott hjónaband nærandi fyrir sálina og að nánd við barnabörnin sé eitthvað sem hún vildi alls ekki missa af.

„Ég get mælt með því fyrir alla að vera giftur besta vini sínum. Svo veit ég fátt skemmtilegra en að vera með barnabörnunum mínum, þeim Tinnu og Atla. Ég sæki Tinnu mína á hverjum degi eftir skóla og við gerum eitthvað skemmtilegt saman og stundum gerum við bara ekki neitt. Atli kemur síðan með mömmu eða pabba að sækja systur sína og fær oft poka með bakkelsi sem amma er búin að baka. Hann elskar það.

Við erum dugleg að hafa samband við vini okkar og er fjarlægð á milli landa ekkert að trufla það. Það hefur oft verið mikið stuð í gegnum netið á þessum skrýtnu tímum síðustu ár en við erum ánægð með að hafa tekið það skref á sínum tíma að flytja hér út og láta drauma okkar rætast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál