„Gestirnir lærðu dans fyrir brúðkaupið“

Sigurður Helgason og Áslaug Björk Ingólfsdóttir giftu sig með pompi …
Sigurður Helgason og Áslaug Björk Ingólfsdóttir giftu sig með pompi og prakt í Dómkirkjunni. Það var mikið dansað í veislunni og lærðu bæði brúðhjón og gestirnir dans í tilefni dagsins. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Áslaug Björk Ingólfsdóttir og Sigurður Helgason lögfræðingar giftu sig með pompi og prakt þann 17. ágúst í Dómkirkjunni. Það var mikið dansað í veislunni og lærðu bæði brúðhjón og gestirnir dans í tilefni dagsins. 

Áslaug Björk segir dásamlegt að rifja upp brúðkaupið frá því í fyrra. Að athöfnin hafi verið einstök, veislan skemmtileg og gestirnir hafi einnig slegið í gegn.

„Dagurinn var bjartur og fallegur. Ég byrjaði daginn á því að fara í sund og fór svo heim til foreldra minna, þar sem ég gerði mig til ásamt systrum mínum. Yngri systir mín var búin að útbúa morgunmat, hugsaði út í öll smáatriði og spilaði t.d. uppáhaldslagalista mannsins míns á Spotify. Við borðuðum svo morgunmat í rólegheitunum með foreldrum okkar. Fljótlega kom ljósmyndarinn okkar hann Laimonas, hjá Sunday & White. Hann hefur svo þægilega nærveru að það var eins og fjölskylduvinur væri mættur heim. Hann myndaði allt hátt og lágt og fór t.d. í göngutúr um bæinn þar sem hann tók fallegar myndir af Dómkirkjunni. Í hádeginu komu eldri systur mínar og það var svo gaman að njóta undirbúningsins í rólegheitunum með þeim. Þær minntu mig á að njóta stundarinnar. Siggi gerði sig til heima hjá okkur og gekk svo yfir til foreldra minna um miðjan daginn. Þar hittumst við í garðinum uppáklædd og tilbúin í daginn. Það var dýrmæt stund. Síðan fórum við með ljósmyndaranum og tókum nokkrar myndir. Við vildum heldur gera það þannig en að láta gestina bíða á milli athafnar og veislu.“

Falleg ljósmynd á brúðkaupsdaginn.
Falleg ljósmynd á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Tilfinningaríkt að ganga inn kirkjugólfið

Áslaug Björk rifjar upp tilfinninguna að ganga inn kirkjugólfið.

„Ég er mjög tilfinningarík og þegar kirkjudyrnar opnuðust og orgelið ómaði, ég sá kirkjuna fulla af fjölskyldu okkar og vinum og manninn minn uppi við altarið réði ég ekki við tilfinningarnar lengur. Ég fann einstakan samhug frá allri kirkjunni. Enda eigum við gott fólk í kringum okkur og mágur minn og Þórunn systir Sigga sáu um hljóðfæraleik í kirkjunni og Guðbjörg vinkona mín söng. Við erum þeim svo þakklát og þessi stund var enn persónulegri fyrir vikið. Presturinn okkar hún Elínborg Sturludóttir var jafnframt frábær. Ég man eftir að hafa setið í kirkjunni og fengið tilfinningu sem hvorki er hægt að lýsa með orði né myndum.“

Hún segir Perluna einstakan stað að gifta sig á.

„Í kjölfarið héldum við í Perluna, þar sem við skáluðum, borðuðum góðan mat og dönsuðum fram á nótt.

Við getum innilega mælt með veitingastaðnum Út í bláinn. Bæði starfsfólkinu, matnum og þjónustunni. Viðmót þeirra og fagmennska er frábær og maturinn svakalega góður. Það var magnað að fylgjast með sólsetrinu úr Perlunni og staðurinn var engu líkur. Það var dýrmætt að vera saman komin með fjölskyldu og vinum og í veislunni sannaðist það enn og aftur hvað við eigum góða að. Frábærir vinir okkar stjórnuðu veislunni með glæsibrag og erum við þeim mjög þakklát. Það var gaman að rifja upp ýmislegt í gegnum ræður fjölskyldu og vina, frænkur Sigga komu okkur á óvart með því að syngja Stuðmannalag og spila á úkúlele og þegar út á dansgólfið var komið byrjuðu allir gestirnir að dansa sama dansinn sem þau höfðu æft í laumi fyrir brúðkaupið! Það var magnað og skapaði mikla gleði. Við höfðum síðan sjálf æft smá dansatriði og dönsuðum fyrst hinn hefðbundna brúðarvals en skiptum svo yfir í fjörugan „jive“ sem var mjög skemmtilegt og skapaði góða stemningu fyrir dansgólfið. Við höfum lengi verið í dansi hjá Jóhanni Erni hjá Dans og jóga. Hann er algjörlega frábær og konan hans hún Thea sömuleiðis en hún kennir jóga. Við vorum sammála um að ekki væri hægt að halda gott brúðkaup án Jóa og danstakta hans og fengum hann því til þess að kenna gestunum nokkur vel valin zumba-spor. Það sló í gegn og gerði það að verkum að gestirnir voru óhræddir við að koma út á dansgólf. Í kjölfarið fengum við Pétur og Hörð, sem eru ungir og hæfileikaríkir söngvarar og hljóðfæraleikarar sem kalla sig Tjörnes, til þess að halda uppi stuðinu og spila.“

Brúðhjónin í förðun á brúðkaupsdaginn.
Brúðhjónin í förðun á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Byrjaði að skipuleggja brúðkaupið snemma

Hún segir kvöldið hafa liðið hratt og þau hafi elskað að vera á dansgólfinu.

„Það var áskorun að koma sér af dansgólfinu og heim þegar leikar stóðu hæst.

Ég hafði síðan séð það fyrir mér að það væri gaman að enda kvöldið með stjörnuljós í hendi en það fór ekki betur en svo að ég keypti svo mörg stjörnuljós að úr varð stjörnuljósasprenging við Perluna um miðja nótt! Gleðin var svo mikil að það skipti nákvæmlega engu og þetta er gott dæmi um það að smáatriðin skipta engu máli og það er ekki hægt að plana allt fyrir fram.“

Hvernig lýsir þú undirbúningi brúðkaupsins?

„Undirbúningurinn var nokkuð langur og mjög skemmtilegur en líka stressandi inn á milli. Það er frekar mikil samfélagsleg pressa í kringum brúðkaup ef það má orða það svo. Útlitið á að vera á ákveðinn hátt og mikið er gert úr öllu. Það er síðan auðvelt að gleyma sér á samfélagsmiðlum og þar fær maður ýmis skilaboð um það hvernig hitt og þetta eigi að vera og hvernig þú eigir að líta út.“

Áslaug Björk segir að hún hafi fengið einkennilegar auglýsingar til sín í gegnum samfélagsmiðla fyrir brúðkaupið.

„Ég fékk t.a.m. auglýsingu um að nú væri rétti tíminn til þess að fara í fitusog og strekkingu fyrir stóra daginn. Þetta er auðvitað galið og að sjálfsögðu á maður að loka augunum fyrir þessu. Það eina sem skiptir máli er hvernig þér líður og hvernig þú vilt fagna þessum tímamótum. Það þarf alls ekki að skipuleggja brúðkaup með miklum fyrirvara eða gera mikið úr þeim. Hvernig sem þetta er gert er þetta alltaf dýrmæt stund og gleðileg og það er það eina sem skiptir máli. Ég mæli með því að finna brúðarkjól með góðum fyrirvara. Ég fann hann á endanum á netinu og fékk Malen hjá Eðalklæðum til þess að sníða hann að mér og gera slör. Mér fannst mjög hátíðlegt að vera með slör í kirkjunni og í upphafi veislunnar og mæli innilega með Malen, en hún er fagmanneskja fram í fingurgóma. Hún saumaði gullfallega kjóla frá grunni á tengdamömmu mína og ömmu Sigga.“

Brúðarvöndur í ljósum tónum.
Brúðarvöndur í ljósum tónum. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Dans skiptir miklu máli í veislunni

Áslaug Björk segir mikilvægt að skipuleggja brúðkaupið með góðum fyrirvara.

„Við pöntuðum kirkjuna með um árs fyrirvara og salinn með um 10 mánaða fyrirvara. Annað skipulögðum við svo með styttri fyrirvara og í okkar tilfelli gerðist mest einum til tveimur mánuðum fyrir brúðkaupið.

Það var gaman að deila skipulaginu með fjölskyldu og vinum. Mánuði fyrir brúðkaupið fórum við í kvöldverð í Perlunni með foreldrum okkar og smökkuðum ýmislegt af matseðlinum. Það var góð stund og gerði þetta allt svo raunverulegt.“

Áttu góð ráð fyrir þá sem eru að fara að gifta sig?

„Við mælum innilega með því að læra að dansa. Við mælum með því að hafa samband við Jóa hjá Dans og jóga og fara á námskeið hjá þeim og/eða í einkatíma. Síðan mælum við með því að fá hann til þess að taka nokkur zumba-spor í veislunni. Það skapar frábæra stemningu!

Að sama skapi mælum við með því að ráða góðan ljósmyndara og helst allan daginn.“

Hvað myndir þú alltaf gera aftur?

Við vorum himinlifandi með daginn og við það að rifja þetta allt upp vill maður helst endurtaka leikinn á nákvæmlega sama máta! Það eina sem við höfum hugsað eftir á er að það hefði verið gaman að hafa enn fleiri með okkur, til dæmis vinafólk foreldra okkar og fleiri vini, en eins og margir sem skipulagt hafa stór brúðkaup þekkja er erfitt að setja saman gestalista.“

Hverju myndir þú sleppa?

„Við myndum vilja sleppa streitunni sem stundum fylgdi undirbúningnum og minna okkur á að það er fólkið sem skiptir máli, ekkert annað. Þess fyrir utan dettur okkur ekkert í hug sem við myndum sleppa.“

Það er fallegt að nota blóm í hnappagatið á brúðkaupsdaginn.
Það er fallegt að nota blóm í hnappagatið á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Tilfinningar sjást á ljósmyndunum

Hvaða máli skipta ljósmyndir af deginum stóra?

„Mér finnst ljósmyndirnar skipta miklu máli og finnst sérstaklega dýrmætt að eiga þær núna til þess að rifja þennan frábæra dag upp. Maður skynjar hreinlega stemninguna og tilfinningarnar í gegnum myndirnar. Ljósmyndarinn Laimonas hjá Sunday & White Photography er metnaðarfullur og leggur sig allan fram. Það hafa margir nefnt það hve hart hann lagði að sér og það sást langar leiðir. Hann lagði mikið upp úr því að hitta okkur fyrir brúðkaupsdaginn og kynnast okkur. Þannig varð allt persónulegra. Hann er með frábært auga, var með okkur allan daginn og náði því að fanga hann í heild sinni, undirbúninginn, athöfnina, veisluna, fólkið og umhverfið. Við mælum eindregið með honum.“

Hvað gerir þú við ljósmyndirnar?

„Við höfum búið til myndabækur og látið ramma einhverjar myndir inn. Það er gaman að rifja daginn upp þannig. Við notuðum myndirnar líka í þakkarkort til gestanna. Laimonas tók fjölmargar myndir og setti þær upp á vefsíðu fyrir okkur. Hún er falleg og henni getum við deilt með vinum og fjölskyldu.“

Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »