Hvernig er hægt að losna við sveppasýkingu?

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð út í þráláta sveppasýkingu. 

Sæl Inga,

Hvað er til ráða við þrálátri sveppasýkingu í slímhúð? Er að taka Bio Kult og ógerilsneytt eplaedik auk þess sem ég sleppi sykri, hvítu hveiti og mjólkurvörum.

Kveðja,

Sigríður

Sæl Sigríður og takk fyrir spurninguna.

Þetta er vandamál sem fjölmargar konur kannast við og mjög gott að fá þessa umræðu inn hér.

Þegar kemur að sveppasýkingum þá duga yfirleitt engin vettlingatök, þar sem þetta ástand getur verið mjög þrálátt. Aðalatriðið er að svelta þessa vágesti til bana, með því að fóðra ekki sýkinguna með uppáhaldsmatnum. Það virðist sem sýkingar af þessu tagi þrífist óhemju vel á sykri (öllum sykri, ekki bara hvítum), hvítu mjöli (sérstaklega hveiti), geri og svo ýmsu fleiru sem getur verið einstaklingsbundið.

Það getur tekið þónokkurn tíma að losna við sveppasýkingu, en þó eru til nokkur ráð og hjálparefni sem geta flýtt fyrir og auðveldað ferlið.

Þú talar um að nota eplaedik, það getur verið hjálplegt en þó virðist stundum sem það geti líka gert illt verra og mín reynsla hefur sýnt mér að það eru ýmis önnur ráð betri.

Ég ráðlegg mjög oft GSE (grape fruit seed extract), hvítlauk í hylkjum, oregano í hylkjum og svo öfluga blöndu vinveittra meltingargerla (oft kallaðir asídófílus). Einnig hjálpar oft að taka inn jurtir eða meltingarhvata sem fást í heilsubúðum til að auðvelda meltinguna.

Fleiri jurtir og efni geta að sjálfsögðu hjálpað, en ég byrja oftast á þessu.

Mataræðið er sem áður sagði lykillinn að árangri.

Það er æskilegast að sleppa öllum sykri, einnig ávöxtum í allavega 3-4 vikur og fara svo mjög varlega eftir það. Nota frekar Stevíu eða sleppa bara öllum sætindum þennan tíma. Eins er með hvítt hveiti og ger, en oft þarf hreinlega að fara varlega í allan kornmat.

Svo er mikið atriði að sleppa þeim fæðutegundum sem þú finnur að fara illa í þig.

Ef ástandið lagast ekkert þrátt fyrir allt, þá myndi ég ráðleggja þér að leita þér hjálpar með þetta og fá meiri ráðgjöf sniðna að þínum þörfum.

Gangi þér vel með þetta!

Bestu kveðjur,

Inga næringarþerapisti.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ingu spurningu HÉR. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál