Sykurlaus- einn dag í einu!

Agnes Kristjónsdóttir.
Agnes Kristjónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er svo ótrúlega fegin að vera aftur komin í sykurlausa gírinn. Þegar ég er í honum líður mér allri einhvern veginn svo miklu betur. Ekki það að ég sé orðin sykurlaus alla ævi. Nei mér finnst bara gott að geta tekið pásur inn á milli frá þessu efni. Ég myndi seint segja að þessar pásur væru auðveldar fyrir mig til að byrja með en þetta hefst þegar viljinn er fyrir hendi. Það er ég búin að reyna,“ segir Agnes Kristjónsdóttir einkaþjálfari í World Class og STOTT PILATES kennari í pistli um sykurleysi: 

Súkkulaði er minn helsti veikleiki með Nóakroppið ofarlega á listanum þegar ég vil hugga mig í bland við hrákökur og heilsunammi ýmiskonar. Í seinni tíð er ég þó farin að kunna æ betur að meta dökka lífræna súkkulaðið og öll þessi eðalsúkkulaði af hollara tagi sem eru svo vönduð og falleg. Sérstaklega þar sem maður eins og David Wolf ofurfæðugúru, sem ég lít upp til, segir dökkt súkkulaði vera ofurfæðu sem borða megi daglega. En það breytir því ekki að ég veit ég að það er hverjum manni hollt að skoða sykurvenjur sínar, rétt eins og að skoða drykkjuvenjur og mataræðið yfirhöfuð. Ég er löngu hætt að nota áfengi. Sykraður appelsínulíkjör var einmitt aðal drykkurinn minn en það er önnur saga.

Ég hef oft hugsað um það að þegar ég var barn og unglingur var sykur svo stór partur af matarvenjunum og maður spáði ekkert í þetta atriði. Maður fékk fimm eða sex sykurmola í appelsínuna hjá ömmu. Eftir skóla var það skúffukaka og mjólk, mamma var dugleg að baka allskonar góðgæti eða að splæst var í súkkulaðisnúð. Svo var endalaust verið að búa til karamellur og kornflekskökur að ógleymdu einhverju sem við kölluðum monnkís og var sykur og kakó hrært saman. Þess utan var það fríhafnarsælgætið en nokkrar vinkvenna minna áttu feður sem sigldu á millilandaskipum og er ógleymanlegur sælgætislagerinn á þeim bæum.

Svo var það þegar ég fór að vinna á veitingastaðnum Á næstu grösum rúmlega tvítug að aldri og fór að hugsa fyrir alvöru um heilsuna að ég fór að læra um skaðsemi hvíts sykurs. Ég kynntist sykurlausri sultu í fyrsta sinn og allskonar heilsuráðum til að minnka sykurlöngun. Drekka sítrónuvatn með cayenne pipar og olífuolíu, baka sykurlausar kökur  með carobi og döðlum og fleira í þeim dúr. Hægt og rólega fóru upplýsingarnar um skaðsemi óhóflegrar sykurneyslu að síast inn, maður lærði að lesa á umbúðir matvæla og þar fram eftir götunum.

Það var á þeim tíma sem ég tók upp hollt og gott matarræði en ég hef í gegnum árin oft átt erfitt  með að hafa stjórn á sykurlönguninni. Mér tókst það stundum nokkra daga í einu en ekki meira. Svo var það fyrir tveimur árum að mér tókst að hætta alveg í öllum sykri í tæpt ár og leið stórkostlega vel.

Fyrir það fyrsta losnaði ég við löngunina, fann hvernig maginn var minna útþembdur og skapið betra.  Það var margt fleira gott en síðast en ekki síst minnkaði mittismálið sem var mjög gott enda vitum við að kviðfitan er sérlega hættuleg. Ég er um þessar mundir að dusta rykið af því sem ég gerði til að ná þessu takmarki og þetta er það sem ég gerði:

Ég hætti að borða sykur einn dag í einu. Stundum einn klukkutíma í einu. Hugsaði með mér að þetta væri ekki að eilífu og ég myndi einn daginn fá súkkulaði aftur.

Ég átti alltaf lítinn sjóð á mér af einhverju þegar sykurinn kallaði t.d eftir mat. Þá var ég með 2-3 döðlur eða rúsínur, hafði alltaf epli eða perur á mér og svo var ég alltaf með hnetukrukku við höndina. Í hana setti ég girnilegar hnetur og rúsínur til að maula eftir æfingar eða þegar ég var svöng í bílnum. Ég passaði að borða girnilegan morgungraut með berjum og eða epli og hafa máltíðir allar litríkar og bragðgóðar. Á kvöldin var það poppkorn eða epli með hnetusmjöri. Svo til að byrja með afþakkaði ég öll boð þar sem kökur voru á boðstólunum; já bara svona rétt eins og að sá sem er nýhættur að nota áfengi mætir ekki á barinn. Svo reyndi ég að fara snemma að sofa líka. Eftir tvær vikur hafði löngunin minkað um meira en helming og eftir mánuð var ég hætt að hugsa um þetta. Núna er ég komin með nokkra daga án sykurs og er smá pirruð en veit að það líður hjá. Það eina sem þarf er viljinn og löngunin til að breyta. Gangi þér vel! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál