Hvað segir blóðsykurinn um þig?

Ljósmynd/Samsett

Áhugavert er að fá að vita hvað annað fólk gerir til þess að lifa heilsusamlegra lífi. Sumir þrá að æfa af kappi og öðrum finnst best að sinna heilsunni með því að liggja uppi í sófa og lesa.

Það er ekki til nein uppskrift að hinu fullkomna lífi en það er mín tilfinning að fólk sé orðið meðvitaðra um hvað jafnvægi skiptir miklu máli. Þegar streitan er mikil í líkamanum þá sækja margir meira í sætindi og vín. Allt til þess að fólk geti haldið áfram að keyra áfram endalaust. Hlaupa hraðar. Verða flottari.

Á síðasta ári jókst umræðan um blóðsykur. Fólk fór í ríkara mæli að láta mæla gildin í blóðinu sem gerði það að verkum að fólk sá svartáhvítu hvernig ástandið á líkamanum var. Ef fólk er með of háan blóðsykur er líklegra að það fái sykursýki 2. Fólk sem hefur fengið þær upplýsingar að blóðsykurinn sé of hár hefur getað lagað líkamlegt ástand sitt með því að breyta mataræðinu.

Nútímafólk á það til að borða of mikinn sykur og of mikið af kolvetnum á kolvitlausum tíma sólarhringsins. Þessi sami hópur á það til að borða of lítið af fitu og próteini. Það er þó í mörgum tilfellum hægt að borða allt sem fólk vill ef það borðar matinn sinn í réttri röð. Það er til dæmis engin tilviljun að í mörgum löndum er hefð fyrir því að borða salat með ediki og ólífuolíu á undan matnum. Fólk sem hefur tamið sér slíkar matarvenjur hefur oft betri stjórn á blóðsykrinum. Eftir salatið er best fyrir blóðsykurinn að borða prótein og fitu og ljúka máltíðinni á einföldum kolvetnum. Það er heldur ekki tilviljun að eftirmaturinn er eftirmatur - ekki forréttur. Ef fólk byrjaði á því að borða eftirmatinn í forrétt þá eru líkur á því að blóðsykurinn myndi hækka verulega. Þegar blóðsykurinn hækkar eykst löngun í meiri sætindi.

Sykrað morgunkorn getur hækkað blóðsykurinn hjá sumum jafnmikið og ís með súkkulaðisósu. Ef fólk væri meðvitað um það myndi það líklega ekki gefa börnunum sínum slíkan morgunmat. Á síðasta ári prófuðu æ fleiri sílesandi blóðsykurmæli. Þessum litla hlut var stungið í handlegginn með lítilli nál með loki og svo var settur plástur yfir. Blóðsykurmælirinn var tengdur við símann og hann skannaður nokkrum sinnum á dag. Mælt er með því að fólk taki ljósmynd af öllu sem fer inn fyrir varirnar og skrái það niður í appi sem fylgir mælinum.

Sjálf hef ég prófað slíkan mæli. Það sem var mest sláandi var að vörur, sem eru seldar sem heilsuvörur, hækkuðu blóðsykurinn minn jafnmikið og bland í poka. Á þessum tveimur vikum sem ég var með mælinn á mér prófaði ég að borða allt sem mér datt í hug að væri sniðugt að mæla. Auk þess prófaði ég að drekka hóflega og óhóflega þær víntegundir sem mér hugnast að drekka á tyllidögum. Það sem kom í ljós var að örlítið rauðvín hefur ekki mikil áhrif á blóðsykurinn minn en mjög mikið magn af búbblum sprengir skalann. Ég hefði reyndar ekki þurft sílesandi blóðsykurmæli til þess að fá þær upplýsingar. Timburmennirnir sem heimsóttu mig daginn eftir hvísluðu því að mér að þetta væri ekki gott fyrir mig.

Þessar tvær vikur í samfylgd sílesandi blóðsykurmælis sögðu mér fleira en að ég hefði ekki sérlega gott af víndrykkju.

Ég prófaði að drekka kaffi með flóaðri haframjólk og líka kaffi með flóaðri G-mjólk. Síðarnefndi kosturinn hefur seint flokkast sem sérleg hollustuvara. Það kom hins vegar í ljós við þessar mælingar mínar að haframjólkin tryllti blóðsykurinn en G-mjólkin haggaði honum varla. Það kom líka í ljós að ef sætindi voru borðuð á fastandi maga hækkaði blóðsykurinn mikið en hann hækkaði bara örlítið ef sama óhollusta var borðuð eftir matinn. Eitt af því sem var kannski mest sláandi var að ávextir, sem ég hef lagt í vana minn að hakka í mig mér til heilsubótar, snarhækkuðu blóðsykurinn. Þessir sömu ávextir hækkuðu blóðsykurinn minna ef fita var borðuð með, eins og lífræn grísk jógúrt eða lífrænt ósætt hnetusmjör. Það sem blóðsykurmælirinn sýndi mér líka þegar það var mjög mikið að gera hjá mér þá var blóðsykurinn hærri. Þegar ég lá uppi í sófa um helgar og horfði á sjónvarpið, þá var hann í toppstandi. Mér fannst gagnlegt að fá þessar upplýsingar.

Ég er alls ekki hætt að drekka áfengi og ég er alls ekki hætt að borða sama sælgæti og sjö ára krökkum finnst gott. Það sem ég veit núna að það er betra að drekka á kvöldin – ekki á morgnana!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál