Verður ekki 10 kg léttari eftir 12 vikur

Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir.
Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þegar ég byrjaði í Lífsstílsbreytingu Smartlands var ég viss um að þetta yrði allt svo auðvelt, nú væri bara komið að mér að finna frelsið. En svo er þetta bara svo langt frá því að vera eitthvað auðvelt, það er margt sem ég þarf að læra eins og að breyta hugsunum, borða hollt og svo að koma ræktinni inn í dagsrútínuna. Ég tel mig reyndar vera komna á þennan stað að langa virkilega til að fara í ræktina og finn fyrir þeirri góðu líðan sem kemur upp eftir hverja æfingu og er það stórt skref upp á við,“ segir Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir sem tekur þátt í Lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins í sínum nýjasta pistli:

Mataræðið hefur hins vegar gengið upp og ofan, ég sagði það svo sem í byrjun að það að missa kíló væri auðvitað bara plús. Það sem ég vildi fá út úr þessi væri að tileinka mér að fara í ræktina nokkrum sinnum í viku og læra að umgangast mat á eðlilegan máta. Já og svo má auðvitað ekki gleyma að hætta Pepsi Max-drykkju, minnka nammiát og hætta öðrum gömlum ósið sem ég hef lengi átt erfitt með að losa mig við.

Ég ætlaði mér aldrei að hætta í sykri, hætta í hveiti og hætta í hinu og þessu, nema þá kannski lituðum gosdrykkjum. Heldur var planið að koma inn hollari fæðutegundum og fá sér kannski bara nammi einu sinni í viku. Ég vil geta fengið mér einn tvo mola án þess að fá samviskubit en ekki að gúffa í mig allri skálinni.

Eins og ég sagði þá hefur þetta gengið upp og ofan, ég reyni að vera meðvitaðri um hvað ég set ofan í mig og tek ekki með mér súkkulaðistykki heim eftir hverja verslunarferð. En svo koma bara erfiðari dagar inni á milli, erfiðleikar á börnunum, svefnlitlar nætur og veikindi og þá er oft svo auðvelt að velja bara eitthvert gums. Þrátt fyrir að vita hversu miklu betur það fer í líkamann að fá sér eitthvað hollt, sérstaklega þegar ástandið á manni er ekki hundrað prósent, þá er bara gumsið auðveldara val.

En lífsstílsbreyting er ekki breyting sem einstaklingur gerir í 12 vikur, heldur til frambúðar. Og þannig horfi ég á það, ég hef verið að taka hænuskref frá því í september í átt að heilsusamlegra lífi. Stundum hafa skrefin orðin mörg áfram og stundum hefur hænan tekið nokkur skref aftur á bak. En það er líka akkúrat málið, það er ekki hægt að breyta öllu einn, tveir og þrír, það verður að gerast hægt og rólega. Það er allavega mín upplifun og eitthvað sem ég tel að muni virka fyrir mig, eflaust virka aðrar aðferðir fyrir aðra sem er bara gott mál. Þetta er líka alltaf spurning um að láta hausinn fylgja með og hafa stjórn á hugsunum sínum.

Þó að ég komi ekki til með að klára þetta námskeið tíu kílóum léttari og mörgum sentímetrum minni, þá mun ég klára þetta námskeið uppfull af góðum lærdómi og með farmiða aðra leiðina til betralífsstílslands. Vegferð mín mun klárlega ekki enda við tólf vikurnar, ég mun halda áfram á þessari braut og hef trú á því að ég verði orðin ofur hraust, stælt og sexí áður en langt um líður. Ég er samt alveg ofursexí núna, langar bara að verða hraust og stælt líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál