Var 100 kíló en keppir nú í fitness

Lilja Ingvadóttir einkaþjálfari keppir á Iceland Open fitnessmótinu á laugardaginn.
Lilja Ingvadóttir einkaþjálfari keppir á Iceland Open fitnessmótinu á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Ingvadóttir einkaþjálfari í Sporthúsinu á áhugaverða sögu. Eftir að hafa alltaf verið allt of þung tók hún sig taki sem gerði það að verkum að hún ætlar að standa á sviði á laugardaginn þar sem fitnessmótið Iceland Open fer fram. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Lilja keppir í greininni en hún segist aldrei hafa lagt eins mikið á sig og núna. 

„Þessa síðustu viku fyrir mót er í nægu að snúast. Nú er ég að leggja lokahönd á sjálfa mig ef maður má orða það þannig. Eftir 16 vikna niðurskurð er komið að þessu og á þessum tímapunkti má ekkert klikka. Mataræðið þarf að vera 100% og það felur í sér að við tökum út öll auka- og sætuefni og innbyrðum bara algerlega hreinan mat. Það er búið að vera sama plan síðustu 10 dagana sem er fiskur, grænmeti, egg, eggjahvítur og möndlur sem svo sem einfaldar matargerðina mikið. Síðan er ég í vatnslosunarferli og þarf að hafa það allt undirbúið, allar vatnslosandi jurtir, vítamín, steinefni og fleira þarf að vera innbyrt upp á 10 svo allt gangi smurt.

Það þarf að æfa pósurnar fyrir keppnina upp á hvern dag þangað til það er alveg á kristaltæru og erum við með aukaæfingar fram á síðasta dag. Fyrir utan að maður æfir sig heima öllum stundum til að framkoma verði sem best, þú sýnir öryggi og útgeislun. Pósur skipta öllu. Þú verður að skila vinnunni þinni á sviðinu sem þú ert búin að svitna fyrir síðastliðin ár,“ segir Lilja.

Þessa síðustu daga er hún á fullu í alls konar stússi eins og augnháralengingum, húðstinningarmeðferðum og vafningum, vaxi, andlitsmeðferðum og nöglum svo eitthvað sé nefnt. 

„Inn á milli þarf að sjálfsögðu að taka lyftingaæfingar og brennslu, en þær eru með léttara sniði, enda orkan ekki alveg í hámarki. Ég legg áherslu á að ná góðri hvíld sem er ekki síður mikilvæg. Síðan endar vikan í brúnkumeðferð, hæðarmælingu, keppendafundi og kósí deginum fyrir mót, upp með fætur en þá einnig byrjar kolvetnahleðslan en þá innbyrði ég máltíðir með kolvetnum, hrísgrjónum, sætar kartöflur til að fá þessa fyllingu í vöðva á mótsdag. Það þarf að undirbúa hana alveg og hafa klára,“ segir Lilja. Hún er einkaþjálfari í Sporthúsinu en tekur sér tveggja daga frí fyrir mótsdaginn. 

„Skipulagið skiptir máli og stress er manns helsti óvinur. Fólk getur vatnast út af stressi eða þreytu,“ segir hún. 

Lilja hefur verið á sérstöku mataræði síðustu vikurnar til að …
Lilja hefur verið á sérstöku mataræði síðustu vikurnar til að ná sem mestum árangri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keppnisdagurinn sjálfur er ekkert grín. Lilja mun vakna klukkan þrjú aðfaranótt laugardagsins. Hún þarf að fara í hárgreiðslu og förðun en dóttir hennar, Ása Lind, sér um að græja móður sína fyrir stóra daginn. 

„Ég er heppin að hafa minn eigin förðunarmeistara,“ segir Lilja og hlær. Klukkan sjö um morguninn verður keppnisbrúnkan sett á allan líkamann og þegar það er klárt fer hún beint í bikiní. 

„Þegar ég verð komin í bikiníið leggst ég út af og hvíli mig þangað til ég fer á sviðið kl. 10.00. Mér finnst mikilvægast að sé ekkert stress og hafa nægan tíma í þetta.“

Lilja hefur áður keppt í fitness og þegar hún er spurð að því hvað hún sé að gera öðruvísi núna en áður segist hún hafa breytt um mataræði.  

„Núna tók ég svokallað „carb cycle“-mataræði á undirbúningstímanum, eða kolvetnahring á harðri íslensku. Allt uppsett í samráði við þjálfarann minn Konráð Gíslason sem einnig heldur þetta mót Iceland Open. Hann veit hvað hann syngur í þessu, veit hvað ég er klár í enda mikill reynslubolti og farinn að þekkja mín mörk. Kolvetnahringurinn snýst um að raða inn mismunandi hlutföllum af kolvetnum, próteinum og fitu á daga vikunnar. Sem dæmi þá tek ég hákolvetnadag á laugardögum sem inniheldur hrísgrjón eða sætar í máltíðum með kjúklingi eða fiski, grænmeti í meira magni, poppkex og lækka þar á móti fituinntöku. Ég tek svindlmáltíðina mína um kvöldið sem var yfirleitt steik og með því og flottur desert. Ég leyfði mér yfirleitt að fara út að borða því svindlmáltíðin má ekki klikka. Það er ekkert verra en léleg svindlmáltíð eftir góða viku í mataræðinu.

Nú eftir hákolvetnadag fylgja lágkolvetnadagar. Yfirleitt tveir í röð og þá eru skammtar litlir, bara fiskur, lítið grænmeti, möndlur, egg og lárpera. Ég byrjaði að hafa þetta þrískipt í upphafi undirbúningstímabils fyrir 16 vikum. Minnkaði svo skammtana á um það bil 3-4 vikna fresti og tók út hákolvetnadaginn á endanum. Þetta svínvirkar og hefur gengið ótrúlega vel, með því að keyra svona inn á milli meira af hitaeiningum og kolvetnum virðist virka vel á kerfið hjá mér. Það fer allt í gang og orkan mín hefur haldist ótrúlega vel og í góðu jafnvægi. Þetta plan tekur meiri tíma og það er smá vesen að undirbúa þetta. Fyrir mér var það mesta áskorun þótt ég hafi tekið mjög klassískt niðurskurðarmataræði áður án mikilla breytinga. Ég hef mikla trú á svona breytilegu mataræði, enda er það mikið að koma inn núna almennt. Þetta snýst um að henda ekki alveg út kolvetnum heldur keyra þau góðu inn á milli. Auðvitað er einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum. Það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega á einhvern annan. Maður finnur það fljótt út. En þetta snerist ekki um mataræði eitt og sér. Ég jók brennsluæfingar jafnt og þétt og tók meira út núna en ég hef gert áður,“ segir Lilja. 

Lilja fór reglulega í nudd og segir að það hafi gert kraftaverk. 

„Ég tek bæði betur á því á æfingum því blóðflæði til vöðva er miklu betra, bólgur og spenna nánast farið og vöðvarnir bara virka almennt betur og mér líður betur. Þetta þurfa allir að setja inn í sína rútínu.  Með því þá hef ég verið stíft í húðmeðferðum hjá Heilsu og útliti eða síðustu tvö ár. Þar fer ég reglulega í vafninga og SPM-nudd. Síðan bætti ég mjög öflugri meðferð inn hjá Húðfegrun. Meðferðin kallast húðþétting og sé ég mikinn mun á húðinni. Ég mæli 100% með því og hef prófað þetta allt. Þessi meðferð er mun öflugari en ég hef prófað hingað til,“ segir Lilja. 

Að stinna húðina hefur verið erfiðasta verkefnið í þessu ferli. Lilja nefnir húðina á lærum og rassi. 

„Maður er að missa slatta af fitu af þessum svæðum og húðin verður slopp, enda er ég ekki tvítug lengur þótt ég haldi það,“ segir Lilja og hlær og rifjar upp að hún hafi verið nánast 100 kg fyrir tíu árum.

„Ég þarf að leggja extra mikið á mig í þessum húðmeðferðum enda kemur árangurinn hægt og rólega inn og það er eilífðarvinna. Svo má ekki gleyma að allt sem maður innbyrðir hefur áhrif á húðina en ég byrjaði að taka inn AstaSkin sem örvar kollagen og elastin í húðinni að innan og það lofar mjög góðu. Þannig að það er öllu tjaldað til.

Með öllu þessu þá skiptir auðvitað hugarfarið mestu máli. Ég er að gera þetta núna í 5. sinn og ég er með öllu miklu rólegri og afslappaðri í huganum. Ég hef ótrúlega gaman af þessu, eiginlega meira núna en áður, enda væri ég ekki að þessu annars. Þetta verður einhvern veginn ekkert mál, líður ótrúlega vel og með orku og einbeitingu í botni. Öryggið er miklu meira og þá bara gengur allt smurt. Líkaminn man líka ef þú hefur gert slíkt áður og með hverju skiptinu þá verður þetta auðveldara og líkaminn fer í ákveðinn fasa.  Magnað fyrirbæri,“ segir hún og segir að hún sé lánsöm því hún eigi góða fjölskyldu, eiginmann og börn.  

Þótt Lilja sé einkaþjálfari sjálf þá ákvað hún að fara í einkaþjálfun til Konráðs Gíslasonar því hann er sérfræðingur í fitness-fræðum. Hún æfði því bæði hjá Konráð og líka sjálf.  

„Ég æfi sex sinnum í viku þar sem ég lyfti, skipti líkamanum niður á daga hvað ég æfi og passa að hafa alltaf dag á milli í hvíld á þann vöðvahóp. Svo fer ég þrisvar í viku á æfingar hjá Konráð en tek sjálf hina dagana í Sporthúsinu í Kópavogi. Ég hef lagt áherslu á fætur. Tek stóran fótadag með pressum, hnébeygjum og þungum lyftingum. Tek síðan rass, hliðar og aftanverð læri hina tvo dagana. Á milli fótaæfingadaga tek ég axlir tvisvar í viku og einu sinni í viku tek ég bak og nokkrar handaæfingar. Ég hef ekki hug á því að hafa stóran bicep,“ segir hún og hlær. Með þessu tekur hún kviðæfingar þrisvar í viku. 

„Ég æfi alla jafna allt árið. Ræktin er bara rútína eins og vakna og bursta tennur. Síðan tek ég brennslu eftir lyftingaæfingar í 20-30 mínútur. Ég reyni að halda því alltaf inni allt árið, og núna í undirbúningnum þá bætti ég inn 45-60 mínútna aukabrennslu sex sinnum í viku en hef ávallt einn hvíldardag.“

Sólarhring áður en Lilja fer á sviðið keyrir hún í sig kolvetni eins og hrísgrjón, sætar kartöflur og smá sælgæti. 

„Stundum ef maður er of flatur þá er engin fylling í vöðvum, þá þarf maður að henda í sig  1-2 hamborgurum og kannski einum djúsí sjeik til að fá þetta kikk inn og belgja aðeins út vöðvana því þeir auðvitað elska kolvetnin. Svo auðvitað á sjálfan keppnisdaginn þá er það Snickers eða eitthvað gott nammi rétt áður en þú ferð á svið og jafnvel eitthvað líka áður.  Allt er þetta metið jafnóðum en þetta snýst um að toppa á hárréttum tíma. Svo eftir keppni þá verður farið í góða nautasteik og með því,“ segir hún.  

En hvað gerist eftir mót?

„Eftir keppni þá minnka ég brennsluæfingar jafnt og þétt og byrja að vinna upp mataræðið bæði í innihaldi, næringarskiptingu og hitaeiningum. Ég fer að setja inn fleiri fæðutegundir hægt og rólega en ég mun halda áfram á kolvetnahringnum. Þá nær líkaminn að halda góðu jafnvægi og það verða engar sveiflur. Má segja að ég vinni þetta svo öfugt upp miðað við hvernig ég vann það niður á undirbúningstímanum. Skiptir ofboðslega miklu máli og þá reynir á sjálfsagann og þetta getur tekið svona 6-12 vikur. En ég er svo klár í það, enda löngu búin að taka mitt mataræði föstum tökum.“ 

Spurð um væntingar fyrir laugardaginn segist Lilja ekki vera með of miklar væntingar. 

„Maður veit aldrei hvað er leitast við hverju sinni, hvaða lúkk er í tísku þetta árið eða hverjar eru að keppa á móti þér. Það verða erlendir dómarar að dæma í þessari keppni, þannig að það verður bara spennandi að sjá hverju þeir eru að leitast eftir. Ég labba alltaf sátt inn á svið ánægð með þann pakka sem ég hef að færa og það skiptir öllu. Ég pæli aldrei í öðrum þegar ég er á sviðinu og reyni algerlega að fókusa á mitt. Málið er að enginn er eins. Það hafa allir kosti og galla og maður verður að hafa það í huga. Mikilvægt að þú sért yfirveguð og njótir þín – það skín mest í gegn og það er það sem dómarar sjá. Gullfallegar konur hafa ekki komist langt í keppni vegna þess að útgeislun og öryggi var lítið, þannig að allur pakkinn skiptir máli.

Svo verð ég í svo hrikalega flottu bikini sem var sérsaumað á mig af henni Hrönn Sig, okkar eina atvinnumanni í vaxtarræktarflokki og margföldum Íslandsmeistara. Hún er snillingur og hreinlega saumaði á mig draumabikinið og steinaði. Þetta er í alvörunni draumabikini, mig dreymdi það án gríns. Sagt er að sumt bara komi til manns í draumi og það gerði það hérna.  

Ég er búin að bæta mig mikið líkamlega og í öryggi, mun koma í mínu besta formi hingað til og algerlega ofar væntingum. En ég er búin að vera að vinna að þessum bætingum markvisst síðustu 10 mánuði. Ég vona að það skili sér í verðlaunasæti að sjálfsögðu,“ segir hún. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda