Kulnun – hvað er til ráða?

Finnur þú fyrir kulnun?
Finnur þú fyrir kulnun?

„Kulnun eða burnout hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Rætt er um kulnun sem alvarlegan heilsufarsvanda og skilgreinir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)  kulnun sem tilfinningalega örmögnun (Emotional exhaustion), bölsýni/neikvæðni (Depersonalization) og neikvætt mat á eigin getu (Reduced dimensions),“ segja Katrín Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, og Ragnheiður Kristín Björnsdóttir, hjúkrunarfæðingur og fjölskyldufræðingur, í nýjum pistli á Smartlandi: 

Hvað er það í okkar þjóðfélagi sem veldur því að fólk veikist vegna svokallaðrar kulnunar? Er það eðlilegt að sjúkrasjóðir séu að nálgast þolmörk vegna kulnunar starfsstétta eða stefni í þrot eins og sjúkrasjóður Kennarasambandsins?

Kulnun er heiti yfir ýmis einkenni líkamleg og tilfinningaleg sem orsakast af sjúklegri langvarandi streitu. Einkennin geta verið væg í byrjun en magnast og geta leitt til krónísks ástands sem stefnir heilsu fólks í hættu ef ekkert er að gert. Á endanum verður fólk óvinnufært sökum líkamlegrar og tilfinningalegrar örmögnunar. Einstaklingurinn getur upplifað meðal annars tilfinningalega þætti eins og orku og úthaldsleysi, þreytu, kvíða og gleðileysi. Bölsýni/neikvæðni, þar sem einstaklingurinn upplifir til dæmis neikvæðni og tortryggni í garð annarra. Neikvætt mat á eigin getu, margir einangrast, eru neikvæðir á eigin getu og eiga jafnvel erfitt með að leysa verkefni sem áður voru leyst án vandkvæða.

Streita er áreiti frá umhverfinu og hefur hún m.a. áhrif á innra jafnvægi einstaklingsins þar með talið ónæmiskerfið. Viðbrögð einstaklinga við streitu geta verið misjöfn og spila bjargráð þar stórt hlutverk, einnig er misjafnt hvaða þættir valda streitu hjá hverjum og einum. Streita hefur m.a áhrif á ósjálfráða taugakerfið og geta einstaklingar upplifað einkenni eins og meltingartruflanir, breytingu á öndun, hjartsláttartruflanir, hækkaðan blóðþrýsting, svima, höfuðverk og fleira.

Viðvarandi álag í vinnu kemur í veg fyrir að líkaminn nái að hvílast og endurnýja sig. Það er mikilvægt að það sé jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og að einstaklingar upplifi að þeir hafi einhverja stjórn á aðstæðum bæði í vinnu og einkalífi og að þeir fái viðurkenningu fyrir störf sín, skilning og stuðning þegar þess þarf.

Það sem oft vegur þyngst í þessari stöðu eru okkar eigin fordómar gagnvart okkur sjálfum. Það er erfitt að horfast í augu við það að vera ekki sá/sú sem samfélagið skilgreinir sem „flottan einstakling“ þegar kemur að okkur sjálfum, vinnu, heimili, börnum, maka, fjölskyldum og vinum. Við eigum erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að við erum mannleg og getum ekki haldið öllum þáttum lífs okkar áfram nema með því að hvílast, hreyfa okkur, borða rétt og fá tilfinningalega og félagslega næringu samhliða því að sinna skildum okkar hvað varðar okkar nánustu.

Mikilvægt er að vakna upp frá þeim „ofurhraða“ sem við keyrum á svo við vöknum ekki við það einn daginn að við erum að keyra á vegg og getum þá ekki snúið til fyrra lífs þó svo að löngun og vilji sé fyrir hendi.  

Hvatning okkar er sú að þú takir ábyrgð á sjálfum þér og hlúir að þér, það gerir það enginn annar.

Þann 22. ágúst halda greinarhöfundar námskeið um kulnun í húsnæði Lausnarinnar, fjölskyldu- og áfallamiðstöðvar, en nánari upplýsingar um námskeiðið og upplýsingar um skráningu er að finna á heimasíðu og Facebook-síðu Lausnarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál