Jóga fyrir þá sem eru í ofþyngd

Bríet segir að jóga sé fyrir alla, óháð aldri, stærð …
Bríet segir að jóga sé fyrir alla, óháð aldri, stærð eða stöðu. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Bríet Birgisdóttir er með Jóga+ tíma í Heilsu og spa ásamt Sesselju Konráðsdóttur. Þær leiðbeina fólki í ofþyngd í átt að betra lífi. Hún er hjúkrunarfræðingur, með meistaragráðu í lýðheilsufræðum. Hún starfar einnig sem heilsuráðgjafi fyrir efnaskiptaaðgerðir hjá Klíníkinni. Hún er á því að allir geti stundað jóga, óháð aldri, stærð eða getu.

„Til að byrja með þurfum við að aðlaga stöðurnar að styrk, liðleika og stærð þeirra sem koma til okkar og notum til þess jógabúnaðinn okkar. Þess vegna óskum við eftir að hafa hóp sem er að glíma við sams konar vandamál þannig að leiðbeiningar okkar passi sem flestum í hópnum,“ segir Bríet. 

Ráðgjafi fyrir efnaskiptaaðgerðir

Bríet segir að starf sitt sem heilsuráðgjafi fyrir efnaskiptaaðgerðir feli í sér að veita ráðgjöf til einstaklinga bæði fyrir og eftir aðgerð.

Ráðgjöfin er einstaklingsmiðuð og byggist á heildstæðri nálgun sem miðar að því að leiðbeina einstaklingum varðandi mataræði, bætiefni, lífsstíl, hreyfingu og hvíld bæði fyrir og eftir aðgerð.

Hún segir að ofþyngd eigi sér margar ólíkar ástæður. Því sé ekkert eitt sem virki á alla.

„Ofþyngd á sér mjög margar og mismunandi rætur og er flókið samspil hegðunar, umhverfis og erfða. Sumir hafa verið of þungir allt frá barnsaldri en aðrir hafa smátt og smátt verið að þyngjast í gegnum lífið, svo eru þeir sem glíma við sjúkdóma sem leiða til þyngdaraukningar. Tölur frá 2014 sýna að Íslendingar (fullorðnir) eru feitastir Norðurlandaþjóða þar sem tæplega 60% þjóðarinnar voru í ofþyngd eða með offitu. Offita getur verið hættulegur sjúkdómur, þegar við bætast aðrir fylgifiskar eins og sykursýki og hækkaður blóðþrýstingur er offitan orðin alvarlegur heilsufarsvandi sem er brýnt að taka á.“

Í Heilsu og spa er hægt að sækja áhugaverða tíma …
Í Heilsu og spa er hægt að sækja áhugaverða tíma í jóga fyrir fólk sem er yfir kjörþyngd. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Bríet er á því að margt sé hægt að gera til að styðja við þá sem eru í ofþyngd. „Stjórnvöld geta til að mynda haft áhrif á úrval og aðgengi að óhollustu í verslunum með reglugerðum og tilmælum (við sjáum hversu vel tókst til með sígarettur). Svo er auðvitað mikilvægt að stuðla að aukinni hreyfingu með því að viðhalda og skapa ný svæði sem hvetur fólk til að hreyfa sig og leika sér meira.

Einnig er mikilvægt að setjast ekki í dómarasætið og segja fólki í ofþyngd hvað það eigi að gera til að létta sig. Flestir sem eru í þessum sporum að vera of þungir, eru sérfræðingar um megrunarkúra, líkamsrækt og hvernig eigi að létta sig sem mest á sem skemmstum tíma. Við sem höfum ekki upplifað að vera of þung í samfélagi sem dýrkar grannan líkamsvöxt höfum heldur ekki rétt á að dæma fólk sem velur eða velur ekki að fara í efnaskiptaaðgerð. Við eigum að sýna hvert öðru virðingu og nærgætni án þess að dæma.“

Bríet hefur sjálf aldrei verið í betra formi en einmitt …
Bríet hefur sjálf aldrei verið í betra formi en einmitt núna. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Að breyta litlu hlutunum

Bríet er á því að fólk eigi ekki að fara í megrun eða átak. „Það besta sem þú getur gert er að byrja að breyta litlu hlutunum sem þú veist að þú getur gert án þess að það valdi þér miklum erfiðleikum andlegum/líkamlegum. Eins og til dæmis að drekka svart kaffi í stað café latte, velja magran ost á brauðið, leggja bílnum lengra frá búðinni og svo framvegis. Það eru litlu skrefin sem telja miklu meira en stóru átökin og þau eru mun líklegri til þess að fylgja þér sem eftir er af lífinu heldur en nokkur megrunarkúr.

Svo eru auðvitað og sem betur fer til fleiri valkostir en að gefast upp fyrir ofþyngdinni, það eru efnaskiptaaðgerðirnar. Þær geta haft mjög mikil áhrif á líf fólks, ekki bara það að grennast, heldur að fá betri heilsu og aukin lífsgæði. Margir losna þannig við hættulega fylgikvilla eins og sykursýki II og of háan blóðþrýsting. Ég hef séð marga fá lífið að gjöf að nýju eftir slíkar aðgerðir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »