Svona hugar ofurparið að heilsunni

Tom Brady og Gisele Bündchen borða hollt.
Tom Brady og Gisele Bündchen borða hollt. AFP

Tom Brady vann Ofurskálina um síðustu helgi og varð um leið sigursælasti leikmaður í sögu keppninnar. Hann má án efa þakka árangrinum heilsusamlegum lífstíl sem hann og konan hans, ofurfyrirsætan Gisele Bündchen, fara eftir. Líkaminn er vinnutæki þeirra beggja svo það skiptir þau öllu að nærast rétt. 

Kokkurinn Allen Campbell sá um að elda fyrir fjölskyldu Brady og Bündchen en hann ljóstraði upp leyndarmálinu á bak við ofurfæði ofurparsins í viðtali árið 2016

Sagði hann 80 prósent af því sem hjónin borðuðu vera grænmeti og brún hrísgrjón, kínóa, hirsi og baunir. Keypti Campbell bara það allra ferskasta. „Ef það er ekki lífrænt, nota ég það ekki,“ sagði kokkurinn. Hin 20 prósentin var kjöt alið á grasi, endur, kjúklingur og fiskur og þá aðallega villtur lax. 

Það er því ýmislegt á bannlista hjónanna þar á meðal hvítur sykur, hvítt hveiti og MSG. Campbell eldaði bara upp úr kókosolíu en notar ólífuolíu hráa. Brady borðar þó ekki allt grænmeti þótt lífrænt sé þar sem sumt getur verið bólgumyndandi. Þess vegna eru tómatar, paprikur, sveppir og eggaldin ekki á matseðlinum. Kaffi, koffín og mjólkurvörur eru einnig á bannlista.  

Tom Brady smellti kossi á Gisele Bündchen eftir að hafa …
Tom Brady smellti kossi á Gisele Bündchen eftir að hafa unnið Ofurskálina. AFP
mbl.is