Var 130 kíló: Léttist á því að borða heima

Meghan heldur úti Instagram-síðunni I Woke Up in Beast Mode …
Meghan heldur úti Instagram-síðunni I Woke Up in Beast Mode þar sem hún deilir heilræðum. skjáskot/Instagram

Áhrifavaldurinn Meghan heldur úti vinsælli Instagram-síðu undir nafninu I Woke Up in Beast Mode. Þar deilir hún með fylgjendum sínum hvernig hún breytti um lífstíl en eins og nafnið gefur til kynna var hún eitt sinn töluvert þyngri en hún er í dag. Á vef Women's Health segir hún frá því hvernig ein mikilvægasta breytingin í átt að réttu mataræði hafi verið þegar hún byrjaði að elda og borða heima. 

Meghan segist hafa verið um 130 kíló þegar hún útskrifaðist úr háskóla. Það gekk þó ekkert að léttast. Hún segir að hennar nánasta fólk hafi vitað að hún væri of þung og óhamingjusöm. Hún hélt þó óöryggi sínu fyrir sig en var þreytt á því að lífið væri erfiðara en það þyrfti að vera. Þegar árið 2016 gekk í garð ákvað hún að nota nýárið til breytinga. Það sem hjálpaði henni einnig var að kærasti hennar þurfti að læknisráði að breyta um lífstíl. Þau voru því í þessu verkefni saman.

Það sem breytti hve mestu í lífi Meghan var það að hún reyndi að borða alltaf heima. Áður borðaði hún nánast hverja einustu máltíð á skyndibitastað. Fékk hún sér þá stóra máltíð, eftirrétt og gos. Hún segist ekki endilega hafa borðað fullkomlega til að byrja með en það var þó mikil breyting frá skyndibitafæðinu. 

Meghan fór að lokum að telja kaloríur og byrjaði að hreyfa sig. Allt getur þó farið út í öfgar, áttaði en hún sig á að kaloríutalningin væri ekki merki um heilbrigði. Í dag er hún um tíu kílóum þyngri en í fyrra en viðheldur þó 50 kílóa þyngdartapinu frá því hún var hve þyngst.

Fyrst um sinn þorði hún ekki í ræktina og hræddist að svitna. Í dag er hún hins vegar dugleg að mæta í ræktina og er ekki hrædd við að að gera styrktaræfingar í stað brennsluæfinga eins og áður. 

Meghan er dugleg að sýna hvernig líkami hennar er. Hún hefur til að mynda sýnt magann á sér eins og hann er án aðhaldsfatnaðs. Hún vonast til þess að fólk sætti sig við líkama sinn og læri að elska líkama sinn fyrir það sem hann getur í stað þess að hata hann fyrir það sem hann er ekki. mbl.is

Bloggað um fréttina