Þorbjörg: Ofþyngdin er alheimsvandamál

Þorbjörg Hafsteinsdóttir varð sextug í vikunni.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir varð sextug í vikunni. Ljósmynd/Laufey G Sigurðardottir

Þorbjörg Hafsteinsdóttir varð sextug í vikunni og hefur sjaldan verið í betra formi. Lesendur Smartlands þekkja hana vel en fyrir um áratug skrifaði Þorbjörg bókina, 10 árum yngri á 10 vikum. Þorbjörg segir að ofþyngd fólks sé alheimsvandamál og að fólk verði að huga að mataræði sínu ef það ætlar að lifa betra lífi. 

„Allar eldumst við og verðum eldri með hverjum deginum sem líður. Að eldast vel og fallega þarf ekki að vera nein barátta. Hins vegar getur það verið meira eða minna erfið áskorun að takast á við afleiðingar af lífsstíl þar sem ellikerling hefur keyrt á framúrbrautinni í mörg ár. Of margar konur upplifa sig ekki sem hraustar, orkumiklar og glaðar en burðast með streitueinkenni, svefntruflanir og þreytu, verki og bólgur, skaddaða húð og djúpar hrukkur.

Of margar konur eru einnig í ofþyngd og aðalástæðan er ójafnvægi í mataræðinu þar á meðal of mikill sykur og brauð, skyndimatur og svo auðvitað hreyfingarleysi. Það er samt óréttlátt að gefa óstjórn á mataræðinu og sykrinum allan „heiðurinn“ af þessu alheims vandamál,“ segir hún.

Þorbjörg segir að það sé margt sem spili inn í eins og til dæmis streita, áföll, blóðsykurvandamál, ójafnvægi í hormóna- og í meltingarkerfinu.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir skrifaði bókina 10 árum yngri á 10 vikum …
Þorbjörg Hafsteinsdóttir skrifaði bókina 10 árum yngri á 10 vikum fyrir um áratug.

„Það hafa allskonar umhverfisþættir áhrif, til dæmis mikróplast, estrogenlík efni og eituráburður úr til dæmis grænmetis- og kornrækt. Þetta er sprengjukokteill í líkama kvenna. Við sjáum afleiðingarnar hjá konum á öllum aldri. Þær á barneignaaldri, með allar líkamsgerðir, geta ekki orðið ófrískar, þær á miðjum aldri fá fá brjóstakrabbamein og konur á breytingaraldri fá oft mörg, löng og erfið ár í hitakófi og óþægindum,“ segir Þorbjörg og bætir við: 

„Þær eru margar konurnar sem bera þessa byrði þegjandi og hljóðalaust og sætta sig við aðstæður og sumar taka inn alls konar uppskrifuð lyf með meira eða minna alvarlegum hliðarverkunum, sem bætast í safnið á því sem orsakar óeðlilega og of hraða öldrun. Æ, ég veit þetta lítur ekki vel út og er kannski smá svart en ég held samt ekki. Alla vega hef ég hitt allar þessar konur oft, síðustu 25 árin og þróunin er ekki að skána, þvert á móti,“ segir hún. 

Þorbjörg bendir á að þetta sé þó enginn heimendir og það sé alveg hægt að snúa við blaðinu. 

„Þetta þarf ekki að vera svona! Það er hægt að snúa blaðinu við og gera mun betur. Lausnin er ekki nema í um það bil 20 cm radíus frá þér! Ég veit það af eigin persónulegri reynslu og af þeim þúsundum kvenna, sem undir minni handleiðslu, tóku ákvörðun með vitund og hjarta ábyrgðina á sinni heilsu í sínar hendur og fengu nýtt líf. Með réttu mataræði og hreyfingu er hægt að ná verulegum bata og líða miklu betur og líta betur út. Bíddu nú við!

Má segja það upphátt? Að líta vel út, vera falleg og ungleg? Er þetta ekki æskudýrkun? Nei þetta er ekki æskudýrkun. Það er kominn tími til að við hættum að tengja fallegt útlit við skömm, lýtalækningar og bótox! Við erum komnar yfir það, „að fallegt útlit“ sé staðlað heiti yfir steríótýpu sem passar inn í eitt ákveðið hrukkufrítt og fullkomið form, hæð, þyngd, lit, aldur og framkomu! Hvaðan kemur fegurð? Að mínu áliti endurspeglar ytri fegurð, útgeislun og ljómi það sem býr innra með konu eða einstakling, sem hefur það gott líkamlega, andlega og félagslega. Hún er með góða sjálfsmynd og hvílir í sjálfri sér og hún upplifir sig sem sterka og sjálfstæða og fallega. Ég hef talað við margar konur sem eiga erfitt með að tengja sjálfa sig við fegurðina í sér og við powerið sitt. Það er ekki fyrr en þær eru búnar að henda sykrinum út og geta hugsað skýrt án liðverkja og hafa stjórn á mataræðinu og á hvert lífið stefnir að þær finna fyrir samkennd með sjálfri sér. Ég í fyrirrúmi! Það má!

Það er líka öllum frjálst ekki að skilgreina ástand eða útlit né gefa því nafn ef skoðunin er, að það þjóni engu og sé misjöfnun. Þá er hægt að segja bara „ég er“. Það þarf hvorki að titla það með fegurð, skömm eða lýsingarorðum og ef maður vill. Þá er hægt að bæta við því orði sem lýsir hvar maður er í dag, því við erum alltaf á hreyfingu, í umbreytingu eða í flæði ef þú vilt. Bara ef orðið sé jákvætt! #eger falleg, æðisleg, kær, sterk. Orð eru mikilvæg og fara beint inn á forrit heilans og framkalla tilfinningar sem við skilgreinum okkur ósjálfrátt við. Það er vissulega meira „power“ í að segja ég er falleg, flott og sterk heldur en að titla sig sem ljóta, feita, sem lúser og svo framvegis. Hvort sem heldur er, þá held ég að það sé aðkallandi núna að við gerum hreinlega byltingu,“ segir hún.

Þorbjörg segir að byltingin snúist um heilsu kvenna og hún segir að ketófæði henti mörgum mjög vel. 

„Konur á hreyfingu, í flæðinu, með ákveðna stefnu sem eru meðvitaðar um að lífið og líkaminn. Auðvitað er þetta allt undir stöðugum breytingum. Þær eru undir áhrifum og háðar hormónum, boðefnum í heila og þarmaflóru í meltingarkerfi, orkumyndum í hvatberum, næringarefnum, fitusýrum, ketónum, amínósýrum, sögðum orðum, ósögðum orðum, sólarbirtu, tunglinu, flóði og fjöru, umhverfinu og almættinu allt í kringum okkur! Tökum það sem er okkar og látum hitt vera sem ekki þjónar okkur, hinum og jörðinni. Allar viljum við vera orkumiklar, hraustar og skýrar í kollinum, vera glaðar og hamingjusamar og lifa lengi.

Allar viljum við finna styrkinn í líkamanum sem elskar að hreyfa sig, ganga, synda og stunda jóga. Allar viljum við finna fyrir jafnvægi og ró í huga og tengja við sjálfið okkar og hjartað. Allar höfum þörf fyrir að það sé tilgangur með þessu lífi og að við gegnum mikilvægu hlutverki,“ segir hún og bætir við að það sé mikilvægt að byrja á matnum:

„Byrjum á matnum því hann er mikilvægasti grunnurinn fyrir allt hitt! Ketóflex mataræðið hentar stórum hópi. Þetta er ekki flókið! Þetta er hins vegar afar áhugavert og skemmtilegt ferðalag! Ég mæli með þessu við þá sem vilja toppheilsu.“

mbl.is