Hver er rót meðvirkni?

Kjartan Pálmason, guðfræðingur og meðferðaraðili hjá Hamskiptum.
Kjartan Pálmason, guðfræðingur og meðferðaraðili hjá Hamskiptum.

Kjartan Pálmason, guðfræðingur og klínískur meðferðaraðili hjá Hamskiptum, segir að meðvirkni sé sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. 

„Hún hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni, fyrirtæki okkar og frama, heilsu og andlegan þroska.  Hún er hamlandi og ómeðhöndluð hefur hún eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra,“ segir hann í nýjum pistli á Smartlandi: 

Upphafið

Meðvirkni má í raun skipta í tvo andstæða póla, annars vegar stjórnsemi og hins vegar undanlátssemi, sem í raun má segja að sé einnig stjórnsemi, þ.e.a.s. bein stjórnsemi annars vegar og hins vegar óbein stjórnsemi.

Meðvirkni verður ávallt til í æsku og grunnorsök hennar er streita. Ef streitan verður of mikil hjá barni tekur heilinn til sinna ráða og breytir hegðun barnsins svo það ráði betur við streituna, þessar breytingar geta orðið til þess að barnið hættir að vera það sjálft og fer að vera það sem það þarf að vera til að minnka áhrif streitunnar í umhverfinu.

Frá fæðingu barns og framan af aldri hafa börn engar varnir og litla sem enga þekkingu. Barnið hefur því takmarkaða, getu til að verja sig fyrir því sem á sér stað í umhverfi þess. Það er hlutverk foreldra að vernda barnið og eitt mikilvægasta hlutverkið er að hjálpa barninu að ná jafnvægi ef það fer í ójafnvægi.
Flestir, ef ekki allir, foreldrar eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að vernda barnið sitt fyrir því sem skapar ójafnvægi í umhverfinu, að vernda barnið fyrir utanaðkomandi hættum. En upphaf vandans er yfirleitt að finna í nær umhverfi barnsins, hjá foreldrum og forráðamönnum.

Ekkert foreldri er fullkomið og snúast þessar vangaveltur ekki um að finna sökudólg eða að ásaka einhvern, heldur að ef við horfumst ekki í augu við raunverulega uppsprettu vandans þá verður engin bót á málum.

Foreldrar eru mikilvægustu aðilarnir í mótun barns og yfirleitt þeir sem hafa mestu áhrifin, en að sjálfsögðu hefur umhverfið, ættingjar, vinir, kunningjar og skólakerfið líka mikli áhrif. En þótt margt geti haft mótandi áhrif í umhverfi barns vitum við að því betri sem heimilisaðstæður eru og foreldrarnir meðvitaðir um líðan barnsins og kunna að mæta þeirri líðan á heilbrigðan hátt, þeim mun betur gengur börnum að ráða við umhverfi sitt og það sem þau þurfa að takast á við í lífinu eins og streitu/ójafnvægi.

Ósjálfráða taugakerfið

Ósjálfráða taugakerfið gegnir lífsnauðsynlegu hlutverki í líkama okkar. Það sér um að viðhalda jafnvægi í tilfinningum, líffærum og líkama. Ósjálfráða taugakerfinu er yfirleitt skipt í þrjá hluta, sympatíska taugakerfið STK (efra svið), parasympatíska taugakerfið PSTK (neðra svið) og á milli má tala um jafnvægissvið. Oft er STK lýst sem bensíngjöfinni og PSTK lýst sem bremsunni. Þú gefur inn STK, síðan bremsað PSTK og að nema staðar, jafnvægi.
Birtingarmynd á ójafnvægi í STK, er t.d. reiði, kvíði, aggressíf eða manísk hegðun. Birtingarmynd á ójafnvægi í PSTK, er meira passív, doði, flatneskja, aftenging og þunglyndi.

Dæmi sem má nefna er að ósjálfráða taugakerfið stýrir öndun okkar. Þegar við öndum inn (áreynsla) þá erum við í sympatíska þegar við öndum frá (slökun) þá erum við í parasympatíska sem leiðir til jafnvægis.

Þannig að ef við förum inn í aðstæður sem eru streituvaldandi eða krefja okkur um að taka á því, þá förum við inn í STK og þegar spennan er yfirstaðin þá tekur PSTK við, dregur okkur niður þangað til það er komin ró og jafnvægi.

Uppeldið

Eins og áður sagði er einn mikilvægasti þáttur uppeldis að skapa barninu öruggt umhverfi, að vera meðvituð um líðan barnsins til að geta mætt því ef taugakerfi þess er í ójafnvægi. Ef ég skýri þetta betur út með dæmum: Þegar barn fæðist má halda því fram að það verði hugsanlega fyrir sínu fyrsta áfalli. Þegar það kemur út úr móðurkviði upplifir það spennu, vegna breyttra aðstæðna, að koma í nýtt umhverfi út úr hlýjum vökva, aðhaldi og frá orku móðurinnar. Í flestum tilfellum fer barnið að gráta, sem telst vera góðs viti. En mikilvægt er að hafa í huga að með grátinum er barnið að láta vita að taugakerfið sé í ójafnvægi og því eðlilegt að koma barninu sem fyrst til móður og föður til að róa það niður. Eftir því sem barn stækkar og fer að verða hreyfanlegra verður ekki síður mikilvægt að fylgjast með því. Barn með engar varnir, þorsta í að læra og skoða heiminn fer, eðli sínu samkvæmt, oft í ójafnvægi. Það er líklegt, framan af, að barnið haldi sig nálægt öryggi foreldranna, til að fá hjálp við að róa taugakerfi sitt, því lítið barn hefur enga þekkingu til að róa niður taugakerfið sitt sjálft.

En hvað ef foreldrarnir eru ekki meðvitaðir um að barnið sé með taugakerfið í ójafnvægi eða enn frekar hvað ef foreldrarnir sjálfir eru valdir að því að skapa ójafnvægi hjá barninu og hjálpa því ekki aftur í ró? Þar nefnilega liggur oft grunnvandinn.

Heilinn
Áður en áfram er haldið vil ég taka það fram að eftirfarandi lýsingar eru gífurleg einföldun á ofboðslega flóknum heila og starfsemi hans. En hún gefur ágæt mynd á því sem á sér stað.

Ef við sjáum fyrir okkur ójafnvægisskala frá 0 til 10 og hættumörk eru 7. Sem sagt 0 – 7 ójafnvægi og 7 — 10 lífshætta. Ef barn upplifir ójafnvægi í umhverfi sínu, og fer upp í 4 í sympatíska taugakerfinu (streita, kvíði, reiði, manísk hegðun), það fer að gráta eða lætur vita eftir öðrum leiðum. Mamma tekur það í fangið og róar niður, þetta er eðlilegt ferli, barnið jafnar sig. Hins vegar ef enginn hjálpar barninu að róa kerfið sitt niður getur skapast vandi, sér í lagi ef það kemur meiri streita, sem hleðst upp. Ef barn er í langvarandi ójafnvægi á milli 1 og 7 fer barnið að birta ýmiss konar hegðunarfrávik. Mig langar að staldra aðeins við og undirstrika mikilvægi þessa. Barn sem er óþægt, uppátektarsamt, stjórnlaust, með skapofsa, óeirð o.s.frv. er að segja foreldrum sínum, „taugakerfi mitt er í ójafnvægi, getur þú hjálpað mér?“ Barnið er ekki að gera eitthvað sem það á ekki að gera, þvert á móti, það er að birta hvernig því líður. Að skamma barnið! Ef foreldrar, öskra, refsa, hóta eða beita einhvers konar ofbeldi þegar barn birtir hegðunarfrávik, skapar það meira ójafnvægi í taugakerfi barnsins og mun leiða til fleiri frávika, uppákoma og stjórnleysis.

Varnarkerfið

En ef við færum okkur aftur að streituskalanum 0-7 og 7-10. Barn sem er að upplifa streitu upp á t.d. 4 birtir hegðunarfrávik, ef enginn bregst við eða það er brugðist við með streituviðbrögðum hækkar streitan. Ef streitan heldur áfram að vaxa og fer yfir 7 breytist allt í heilanum. Ef streitan fer yfir ákveðin viðmið heilans, 7 á þessum streituskala, lítur heilinn svo á að barnið sé í lífshættu. Varnarkerfi líkamans, heilastöð sem heitir amygdala, tekur yfir og með algjör yfirráð yfir öðrum heilastöðvum og fer í ferli til að bjarga lífi barnsins. Fyrstu viðbrögð amygdala-stöðvarinnar eru að reyna að senda okkur í það sem kallast „flight“ eða „fight“ að flýja eða berjast. En vandinn er sá að lítið barn getur í fæstum tilfellum flúið eða barist. Þá hefur heilinn sitt síðasta úrræði og er það kallað „freeze“, frjósa eða aftengja.

Það sem gerist í freeze er að til að stoppa þessa hættulegu spennu í STK spýtir varnakerfið inn ópíótsefnum til að aftengja spennuna og þar með dettur spennan niður, en ekki í jafnvægi heldur í algjöra aftengingu, þannig að taugakerfið fer úr mikilli spennu í STK yfir í algjöra aftengingu PSTK. Í þessu ferli getur orðið það sem kalla má „tengslarof“, heili barnsins rýfur tengslin við gamla öryggið, sem foreldrarnir áttu að veita og um leið rofnar sýn barnsins á að það sé verðmætt fyrir að vera það sjálft, sjálfsvirðingarvandi byrjar.

Í framhaldi fer heili barnsins að breyta barninu í það sem það þarf að vera frá því sem það á að vera. Breytingarnar sem verða, hegðunarmynstrið sem verður til, kallast í meðvirknifræðum fjölskylduhlutverk. Fjölskylduhlutverkin eru mörgum kunnug, hlutverk eins og „fjölskylduhetjan“, „bjargvætturinn“, „svarti sauðurinn“, „blóraböggullinn“, „trúðurinn“ og „týnda barnið“. Þessi hlutverk eru lýsing, greining á því hegðunarmynstri sem barnið fer að tileinka sér. Annað er mikilvægt að hafa í huga, að þegar barnið fer að þróa hlutverkið sitt fer það einnig að setja verðmæti sitt yfir á hlutverkið. Dæmi um yfirfært verðmætamat er að verðmeta sig út frá því hvernig aðrir sjá okkur, út frá viðurkenningu, út frá afrekum, út frá einkunnum, út frá vinnu o.s.frv. Að verðmeta okkur fyrir það sem við gerum en ekki það sem við erum, kallast tengslavandi við okkur sjálf. Tengslarof, tengslavandi, að þróa með sér fjölskylduhlutverk er vísbending um að við séum að kljást við meðvirkni. Birtingarmynd meðvirkni er svo mismunandi seinna í lífinu og hér eru nokkur dæmi um slíkt.

Einkenni meðvirkni

Afneitun:

  • Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
  • Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
  • Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra.

Lítil sjálfsvirðing:

  • Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
  • Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
  • Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
  • Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
  • Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
  • Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.

Undanlátssemi:

  • Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
  • Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
  • Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
  • Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
  • Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
  • Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást.

Stjórnsemi:

  • Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
  • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim „á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.
  • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
  • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
  • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
  • Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
  • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál