Hélt að ég væri ósigrandi

Inga Dagný Eydal upplifði sjálf kulnun 2016.
Inga Dagný Eydal upplifði sjálf kulnun 2016.

Inga Dagný Eydal er höfundur bókarinnar Konan sem datt upp stigann, sem nýlega kom út hjá JPV. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og var yfirmaður á sínum vinnustað þegar hún upplifði sjálf kulnun 2016. Hún hélt að manneskja eins og hún væri algerlega ósigrandi. 

„Vissulega var aðdragandi en á þeim tíma kveikti ég ekki á því að ég stefndi í kulnun hratt og örugglega. Minn aðdragandi var langur eins og bókin mín fjallar um, en rétt áður en allt hrundi hjá mér fór að bera á ýmsum einkennum sem ég tengdi kannski ekki við kulnun. Ég var orðin mjög hröð, hröð í hugsun og hreyfingum sem kom til dæmis fram í því að ég var orðin mikill slysarokkur. Ég fleytti mér áfram á stanslausri spennu sem ég áttaði mig ekki á. Ég átti orðið erfitt með að sofa og hvíla mig og fannst fátt sem ég gerði nægilega gott, allt varð að vera fullkomið,“ segir Inga Dagný þegar hún er spurð hvort einhver aðdragandi hafi verið að veikindum hennar. 

Þegar hún er spurð hvernig henni hafi liðið mánuðina á undan segir hún að það hafi ýmislegt gengið á. 

„Minn vinnustaður var í miklu breytingaferli um þessar mundir og í ótrúlega mörg horn að líta. Eftir á að hyggja virðist mér sem maður fari í einhvers lags ofurgír og hreinlega bræði úr sér að lokum. Bæði andleg og líkamleg geta klárast og þegar slíkt gerist er leiðin löng upp á við aftur. Auðvitað hefur fólk misjafnlega mikið þol í svona aðstæðum en vegna ýmissa hluta, s.s. e.t.v. fyrri sögu, var þetta endapunkturinn hjá mér,“ segir hún. 

Inga Dagný þekkti hugtakið kulnun á þessum tíma en tengdi ekki sérstaklega við það. 

„Ég gerði það vissulega, bæði sem hjúkrunarfræðingur og yfirmaður á vinnustað, en mér datt bara aldrei í hug að ég sjálf gæti lent í kulnun. Ég hélt að ég væri ósigrandi en það var ég sannarlega ekki.“

Konan sem datt upp stigann er að hluta til byggð á dagbókum Ingu Dagnýjar. 

„Bókin um konuna sem datt upp stigann varð til í kringum dagbækurnar sem ég hélt þegar ég var sem veikust í byrjun. Seinna meir fór ég að velta fyrir mér öllu sem ég náði í um slíka kulnun og örmögnun og skoða orsakir og afleiðingar í mínu tilviki og annarra. Ég sendi þessar hugmyndir á Forlagið/JPV og þar á bæ var áhugi fyrir að vinna þetta áfram og frábært fyrir mig að hafa verðugt verkefni í minni endurhæfingu þegar ljóst var að ég var ekki á leið til vinnu,“ segir hún. 

Konan sem datt upp stigann kom út á dögunum hjá …
Konan sem datt upp stigann kom út á dögunum hjá JPV.

Hvað lærðir þú af þessu ferli?

„Ég lærði að mér var lífsnauðsynlegt að hægja á og gangast við því hvar ég væri stödd. Ég er enn að læra á hverjum degi að glíma við afleiðingar kulnunar, s.s. streitu, lítið álagsþol og kvíða, og hef notað þá samlíkingu að stundum eru dagarnir eins og að reyna að klæða kött í föt. Kötturinn hvæsir og sýnir klærnar og maður þarf að vanda sig. Því býður hver einasti dagur upp á nýjan lærdóm og nýja vitneskju um sjálfa mig. En ég lærði líka hversu dýrmætt lífið er og hvað það er sem skiptir mig raunverulega máli.“

Hvernig breytti það lífi þínu að komast á þennan stað?

„Það breytir lífinu mjög mikið að geta ekki lengur unnið fasta vinnu, maður þarf að endurmeta alla hluti og skoða frá nýju sjónarhorni. Fjárhagsstaða verður önnur og maður þarf að skoða vandlega eigin huga og heilsu. Ég á gott líf í dag en það er vissulega öðruvísi en áður.“

Hvað getur fólk gert til þess að komast hjá því að upplifa kulnun?

„Ég held að álag og hraði sé samfélagslegt vandamál ekki síður en einstaklingsbundið, og það er erfitt að gangast við því að maður sé á leið í kulnun. En það er hægt að komast hjá erfiðum veikindum með því að þekkja sjálfan sig vel, læra að þekkja einkenni kvíða og streitu og setja sjálfan sig í forgang. Maður þarf að hvílast, passa svefn og andlega heilsu og ætlast ekki til þess af sjálfum sér að komast yfir alla hluti. Anda djúpt og læra af reynslunni.“

Hvað hefðir þú til dæmis getað gert öðruvísi?

„Ég hefði þurft að þekkja mörk mín og virða þau. Þá hefði verið von til þess að ég hefði áttað mig á því hvert stefndi og gefið sjálfri mér leyfi til að draga úr álaginu. Þegar maður stígur af hringekjunni rifjast upp að maður þarf ekki endalaust að eiga, fara eða gera til að vera hamingjusamur. Það getur verið nóg bara að vera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál