Meiri meðvitund um andlega heilsu frá því í hruninu

Ljósmynd/Unsplash

Mikil athygli og áhugi beinist nú að andlegri heilsu og líðan enda kórónuveirutímar sem geta verið kvíðavaldandi. Að leita sér sérfræðimeðferðar getur verið hjálplegt og gagnlegt fyrir þá sem hafa tök á og hjálpað við að setja hlutina í samhengi. Rakel Davíðsdóttir, sálfræðingur hjá Betri líðan, segist finna fyrir auknum áhuga á því að prófa meðferð eða ráðgjöf með fjarfundarbúnaði.

Rakel Davíðsdóttir sálfræðingur.
Rakel Davíðsdóttir sálfræðingur.

„Það er ljóst að andleg líðan er í brennidepli í samfélaginu þar sem ástandið reynir á alla. Það hjálpar að samstaðan og samhugurinn er mikill. Góðar upplýsingar, leiðbeiningar og hvatning eru áberandi. Það vinnur allt saman gegn almennum efniviðkvíða sem er ógn og óvissa. Við sjáum að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í samfélaginu eru að virka. Undir þessum kringumstæðum er eins og fólk hugi að og veiti vissum þáttum tilverunnar meiri athygli og setji annað á bið. Það getur virkjað styrk í fólki sem dugari lengri eða skemmri tíma. Svo þegar um hægist þarf að sinna því sem hefur beðið auk beinna afleiðinga sem geta verið margs konar og má þá búast við að margir vilji huga að því að færa líðan sína til betri vegar og leita sér aðstoðar við það.Eftir hrun leituðu til að mynda margir aðstoðar mánuðum eða árum síðar. En frá þeim tíma hefur umræðan í samfélaginu um andlega líðan aukist og virðist sem fólk sé meðvitaðra um mikilvægi þess að huga að bættri líðan og opnara fyrir því að leita sálfræðiaðstoðar,“ segir Rakel. 

Þarf að varast óraunhæfar kröfur og væntingar um tímanýtingu

Nú má sjá mikið af skilaboðum á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til þess að nýta hverja mínútu af heimatímanum í uppbyggilegar aðgerðir. Heimaæfingar, flóknar prjónauppskriftir, tilraunaeldamennska og tungumálakunnátta bera oft á góma. En þó við stjórnum eigin tíma þá höfum við ekki stjórn á ytri aðstæðum. Ofan á það geta bæst við fjárhags- og heilsufarsáhyggjur sem eiga vel rétt á sér. Hvaða áhrif geta slík skilaboð af samfélagsmiðlum haft á fólk?

„Mörg slíkra skilaboða fela í sér hvatningu, um að prófa nýja hluti eða gera eitthvað sem setið hefur á hakanum, sinna áhugamálum og virkja sköpunarkraftinn. Að því leyti geta þessi skilaboð verið hjálpleg þar sem þau ýta undir virkni, hugmyndir og markmiðssetningu. En um leið og við tökum þeim of bókstaflega, setjum of mikla pressu á okkur og óraunhæfar kröfur um hve nauðsynlegt er að nýta tímann í botn eru skilaboðin farin að vinna gegn tilgangi þeirra sem er líklega í mörgum tilfellum að hvetja fólk til dáða. Þá geta þau verið skaðleg. Gagnlegt getur verið að skoða hvaða merking er dregin úr skilaboðunum og velja vandlega hvaða miðla eða áhrifavalda tekið er mark á. Það er varhugavert að bera sig saman við aðra en einstaklingar bregðast misjafnlega við áföllum og áskorunum lífsins. Þegar fótunum er að einhverju eða öllu leyti kippt undan fólki getur það tekið tíma að fóta sig á ný. Því þarf að varast óraunhæfar kröfur og væntingar um hvernig nýta skuli tímann. Fyrst og fremst skiptir máli að huga að heilsunni, líkamlegri, andlegri og félagslegum tengslum eins og kostur er, meðfram daglegum verkefnum og ánægjulegum stundum,“ segir hún. 

Kúnst að samræma vinnu og einkalíf

Það eru ekki síður börn sem finna fyrir breytingunum sem fylgja núverandi tímum, með breyttu skólahaldi og aukinni þátttöku foreldra í lífi barna sinna. Hvaða ráð hefur Rakel fyrir foreldra sem upplifa vanmátt eða óöryggi yfir því að sinna sér eða börnum sínum ekki nægilega vel í breyttu umhverfi þar sem foreldri gengur í hlutverk annarra?

„Mikilvægt er að sýna sér skilning og viðurkenna að þetta eru sérstakir og erfiðir tímar. Um nýjar aðstæður er að ræða og því skiljanlegt að finna til óöryggis og finnast maður jafnvel ekki vera að standa sig nógu vel. Kúnst getur verið að samræma vinnu og einkalíf. Aukin vera innan veggja heimilisins eykur samveru og samskipti við annað heimilisfólk sem og að mörgum og margvíslegum verkefnum er sinnt sem geta tekið stöðugum breytingum. Fólk er í alla vega aðstæðum og á misjafnan hátt í stakk búið til að sinna verkefnum heimilisins, sumir hafa stuðning og aðrir ekki. Mikið er lagt á þá  sem ganga í hlutverk kennarans, íþróttaþjálfarans, frístundaleiðbeinandans og vina auk þess að sinna heimilisverkum og starfi sínu samhliða öllum þeim öru breytingum sem eiga sér stað.“

Rakel nefnir dæmi að gott sé að skipuleggja daginn, skrifa niður helstu verkefnin og forgangsraða þeim með þarfir allra að sjónarmiði.

„Eftir daginn er síðan farið yfir hvernig gekk að sinna þessum þáttum, sérstaklega taka eftir því hvað gekk vel og síðan eru atriði sett niður fyrir næsta dag. Mikilvægt er að varast sjálfsniðurrif. Þó við komumst ekki yfir allt eins og við vildum erum við ekki ómöguleg. Gagnlegt getur verið að halda dagbók um hugsanir, líðan sína, markmið og rifja upp það jákvæða sem stóð upp úr þann daginn”. Þá geti verið gott að minna sig reglulega á að sjálfsrækt skiptir sköpum ætli maður sér að ná markmiðum sínum, sama hver þau kunna að vera.“ 

Jákvæðir punktar í breyttum veruleika

Margir hafa þurft að setja lífið á einskonar „pásu“ og þurft að kveðja gömlu rútínuna og eðlilegt líf. Með hvaða hætti getur vinnandi fólk byrjað að undirbúa sig undir það að lífið fari allt aftur á fullt eftir pásuna?

„Hjá einhverjum verða jákvæðar breytingar á hugarfari og vilja sumir leggja meiri áherslu á einhverja þætti lífsins umfram aðra eftir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma á við þessa. Rakel nefnir dæmi um að fólk sem lendir í hremmingum eða áföllum þurfi oftar en ekki að umturna venjum sínum og endurskoðar þá ýmis svið lífs síns, en þá er eins og forgangsröðun verði skýrari og fólk átti sig á hvað skiptir það mestu máli. Ástand eins og nú er í gangi getur ýtt undir skýrari sýn hjá einhverjum. Ljóst er að veruleikinn verður ekki nákvæmlega eins og hann var. Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu öllu. Margar breytingar eru góðar og komnar til að vera á meðan aðrar geta reynst erfiðari fyrir fólk að venjast eða sætta sig við. Á mörgum vinnustöðum hefur verklagi og vinnuaðferðum verið breytt mikið og því mikilvægt er að gefa sér svigrúm og tíma til að aðlagast þeim,“segir Rakel og bætir jafnframt við að gott sé að hugsa um t.d. hvað maður ætli að færa inn í vinnuumhverfið sitt eða nærumhverfi. Ef hver og einn hugsar um það hvernig hann ætlar að vera góður vinnufélagi er hægt að takast á við alls kyns streituvaldandi þætti eins og aukinn fjölda verkefna, erfiðar áskoranir sem fylgja ástandinu og breytingar. Með því að nýta kraftinn, samheldnina og samstöðuna í samfélaginu og taka þau viðhorf með áfram, hvort sem er á vinnustaðinn eða lífið almennt er mögulegt að hafa jákvæð áhrif og ýta undir vellíðan annarra,“ segir Rakel

Síðast en ekki síst þarf að halda áfram að hlúa vel að sér og huga að því sem bætt getur líkamlega og andlega heilsu.

„Er ég þá að tala um atriði eins og  svefn, hreyfingu, næringu og að draga úr streitu. Afar gagnlegt er að hafa jákvæðnina að leiðarljósi, gefa sér tíma fyrir ánægjulegar stundir og eiga í heilbrigðum samskiptum við hvert annað. Hlúum að þeim sem eiga um sárt að binda og veitum stuðning og hlýju,“ segir Rakel. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál