„Konur máttu bara ekki hlaupa“

Fríða Bjarnadóttir barðist fyrir því að fá að hlaupa í …
Fríða Bjarnadóttir barðist fyrir því að fá að hlaupa í maraþoninu 1984. mbl.is/Árni Sæberg

Fríða Bjarnadóttir, skurðhjúkrunarfræðingur og Hringskona, hljóp fyrst íslenskra kvenna maraþon á Íslandi árið 1984. Upphaflega ætlaði Fríða að hlaupa í maraþoninu árinu áður en fékk þá ekki að hlaupa.

„Konur máttu ekki hlaupa maraþon. Þetta þótti ekki kvenlegt sport á Íslandi en þá var ég búin að hlaupa að minnsta kosti tvö maraþon í Bandaríkjunum,“ segir Fríða.

Byrjaði að hlaupa í Bandaríkjunum

Fríða er gift Tómasi Zoëga geðlækni og eiga þau saman þrjár dætur og einn son. Árið 1976 héldu Fríða og Tómas til náms í Bandaríkjunum. Á námsárum hellti Fríða sér í hlaupin, en þau voru bæði góð æfing og ódýr leið til heilsuræktar.

„Þetta er ódýrt sport, maður þarf bara að kaupa sér góða skó. Reyndar hljóp ég á tennisskóm í tvö ár, sem ég held að hafi bara verið gott fyrir mig,“ segir Fríða og bætir við að hún hafi aldrei átt neitt hlaupaúr og fundist það bara truflun.

Á árunum í Bandaríkjunum hljóp hún hartnær á hverjum degi og tók þátt í skipulögðum keppnum flestar helgar. Fyrstu árin í Bandaríkjunum fór Fríða styttri vegalengdir, 5 og 10 kílómetra. Síðan fór hún að hlaupa lengri vegalengdir og tók þátt sem fyrr segir í tveimur maraþonum og nokkrum hálfmaraþonum áður en hún hljóp í maraþoninu hér heima.

Fríða er gift Tómasi Zoëga geðlækni og saman eiga þau …
Fríða er gift Tómasi Zoëga geðlækni og saman eiga þau 4 börn og 9 barnabörn. Ljósmynd/Aðsend

Hljóp í gegnum heila meðgöngu

„Ég hljóp líka í gegnum eina meðgöngu úti í Bandaríkjunum. Ég hljóp eiginlega alla níu mánuðina nema að ég hvíldi mig aðeins á sjötta mánuði,“ segir Fríða. Hún segir að hún hefði ekki hlaupið alla meðgönguna nema fyrir það að hún hafði heyrt frá nokkrum konum sem höfðu gert það áður.

Þegar Fríða og Tómas fluttu heim til Íslands frá Bandaríkjunum hélt Fríða hlaupunum áfram þó að hún hafi unnið krefjandi vaktavinnu sem skurðhjúkrunarfræðingur

„Hlaupin eru andleg hvíld og styrkur fyrir líkamann,“ segir Fríða. Hlaupin voru hvíld frá amstri dagsins og þó að hún hafi oft komið líkamlega þreytt heim eftir langan vinnudag dreif hún sig út að hlaupa 10 kílómetra og kom endurnærð til baka.

Fríða hefur hlaupið þó nokkur maraþon í gegnum árin, það fyrsta í Boston árið 1981 og það síðasta í París árið 1994. Hlaupaskórnir fóru ekki á hilluna þó að hún hlypi ekki lengur 42,2 kílómetrana. Hún hljóp eftir það 10 kílómetra fimm sinnum í viku og tók tvo frídaga. Enda segir Fríða að hlaup séu lífsstíll.

Þó að Fríða hafi lagt hlaupaskóna á hilluna fyrir 10 árum, þá 64 ára, hefur hún ekki sagt skilið við hlaupin. Hún tekur þátt í fjáröflun Hringskvenna á ári hverju og stendur við hlaupabrautina í Reykjavíkurmaraþoninu og hvetur hlauparana áfram.

„Ég var búin að vinna við barnaskurðlækningar og kynnst mikið veikum börnum og taldi það gott og gefandi að verða Hringskona. Þegar ég hætti á skurðstofunni byrjaði ég í Hringnum og hef haft gífurlega mikla ánægju af því,“ segir Fríða.

Hreyfing og heilbrigður lífsstíll er enn hluti af lífsstíl Fríðu, sem byrjaði að stunda golf þegar hún lagði hlaupaskóna á hilluna. „Ég er mjög stolt af því að ég hef kennt flestum barnabörnunum mínum bæði á skíði og golf,“ segir Fríða, sem á níu barnabörn. Auk þess sem hún stundar golf syndir hún á hverjum morgni og fer í leikfimi þrisvar sinnum í viku.

Fríða er Hringskona.
Fríða er Hringskona. Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »